Umsögn um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020 - 2023

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020 - 2023, 102. mál

Reykjavík, 4. nóvember 2019

BSRB hefur tekið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020 - 2023. BSRB skilaði umsögn í samráðsgátt stjórnvalda þann 5. júlí. Í þeirri umsögn voru gerðar athugasemdir við nokkur atriði áætlunarinnar en ekki var tekið tillit til þeirra áður en málið kom fyrir þingið. Raunar voru niðurstöður samráðs ekki birtar í samráðsgátt.[1]

BSRB leggur því hér fyrir Alþingi helstu athugasemdir bandalagsins sem áður hafa komið fram. Jafnréttismál eru málaflokkur sem þarfnast samtals á mörgum sviðum samfélagsins, og eru hagsmunasamtök launafólks mikilvæg í því samhengi. Fjölmörg þörf verkefni koma fram í áætluninni. BSRB lýsir yfir ánægju með áframhaldandi áherslu á kynjasamþættingu, kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Einnig eru spennandi verkefni sem snúa að byggðamálum, jafnrétti í lögreglunni og fleira.

9. Jafnrétti á vinnumarkaði

Í a. lið verkefnis 9 segir að kanna eigi forsendur fyrir skipan samráðshóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Á árunum 2012 - 2018 var starfandi aðgerðahópur um launajafnrétti með þátttöku sömu aðila. Skipunartími hópsins rann út í lok árs 2018. Á 51. fundi hópsins þann 22. nóvember 2018 var rætt um hvort skipa ætti hópinn áfram.

Heildarsamtök launafólks, þar á meðal BSRB, hafa kallað eftir því að áfram verði virkt samráð milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um jafnréttismál.[2] BSRB kallar sérstaklega eftir því að farið verði í greiningar og aðgerðir til þess að vinna gegn þeim launamun sem stafar af kynskiptingu vinnumarkaðarins, en rannsóknir síðustu ára hafa staðfest að stór hluti launamunar kynjanna hér á landi stafi af því. Þungi aðgerða í jafnlaunamálum síðustu ár hefur farið í jafnlaunastaðalinn, en það liggur fyrir að skylda til vottunar tekur eingöngu til einstakra fyrirtækja eða stofnana. Þá er einnig mikilvægt að fara í aðgerðir til að brjóta upp kynbundið náms- og starfsval, en BSRB telur að meira þurfi að koma til. Ráðast mætti í greiningar á ólíku verðmætamati karla- og kvennastarfa og hvernig mætti leiðrétta þann mun. Þetta er dæmi um verkefni sem aðgerða- eða samráðshópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins gæti tekið að sér, en einnig er af nægum verkefnum að taka þegar horft er til annarra verkefna á sviði jafnréttis, svo sem samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs. Í greinargerð með tillögunni um vinnumarkað og launajafnrétti (B. Vinnumarkaður – Launajafnrétti kynja) eru til dæmis nefnd ýmis verkefni sem eru ekki í tillögugerðinni sjálfri. Má þar nefna rannsóknir á áhrif af skorti á gagnsæi á launaupplýsingum og rýni á uppbyggingu og formgerð kjarasamninga og tengsl við launamun kynjanna. Það sama gildir um rannsóknir á ýmsum þáttum sem snúa að samþættingu atvinnu- og fjölskyldulífs, svo sem fjölskyldustefnu fyrirtækja, sveigjanlegum vinnutíma og fleira. Tengja mætti þessar hugmyndir við verkefni í áætluninni, bæði verkefni 9 um jafnrétti á vinnumarkaði og verkefni 11 um jafnrétti og fæðingarorlof.

BSRB vonar að tillagan verði tekin til endurskoðunar og ákveðið verði að halda áfram virku formlegu samráði um jafnréttismál milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, í formi aðgerðahóps eða samráðshóps, til þess að vinna að þeim verkefnum sem hér hafa verið nefnd og fleirum.

11. Jafnrétti og fæðingarorlof

BSRB hefur lengi talað fyrir því að bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar verði brúað, samhliða því að greiðslur verði hækkaðar og skerðingar á greiðslum sem nema lágmarkslaunum verði afnumdar. BSRB fagnar áformum um lengingu fæðingarorlofs en telur þó að rétt sé að skipta orlofinu jafnt á milli foreldra þar sem tölur, bæði héðan og frá hinum Norðurlöndunum, hafa sýnt að flestir feður taka einungis þann tíma sem þeim er úthlutað.[3] Um mikilvægt jafnréttismál á vinnumarkaði er að ræða. Einnig er mikilvægt að horfa til dagvistunarmála. Á hinum Norðurlöndunum er börnum tryggð örugg dagvistun að loknu fæðingarorlofi með lögum og er bandalagið þeirrar skoðunar að lögfesta skuli slíkan rétt hér á landi og tryggja sveitarfélögum fjármagn til að standa straum af þjónustunni.[4] Þá telur BSRB að mikilvægt sé að bæta gagnasöfnun og miðlun upplýsinga um fæðingarorlof, t.d. hvernig orlof skiptist milli foreldra, hversu mikil áhrif skerðingar hafa og fleira. Þar sem nú stendur til að lengja fæðingarorlof er þetta sérstaklega mikilvægt.


Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

 

[1] Samráðsgátt stjórnvalda, Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.

[2] Umsögn BHM um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og umsögn ASÍ um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum í samráðsgátt.

[3] Sjá t.d. svar félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fæðingar- og foreldraorlof, þingskjal 241 – 133. mál og Nordic Health and Social Statistics.

[4] Skýrsla BSRB um dagvistunarúrræði.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?