Jöfnuður og húsnæðismálin rauði þráðurinn 1. maí

Það rigndi hressilega á þá sem tóku þátt í kröfugöngu í Reykjavík og víðar á Suður- og Vesturlandi. Á Norður- og Austurlandi viðraði betur.

Forystufólk aðildarfélaga BSRB ávarpaði baráttufundi á nokkrum stöðum á landinu á frídegi verkalýðsins, 1. maí. Rauði þráðurinn í ávörpunum var aukin misskipting í samfélaginu og slæm staða á húsnæðismarkaði.

„Við þurfum að auka jöfnuð í samfélaginu. Það verður enginn friður í þessu samfélagi, á meðan misskiptingin heldur áfram að vaxa,“ sagði Garðar Hilmarsson, 2. varaformaður BSRB og formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, í ávarpi á Ingólfstorgi í Reykjavík.

Garðar sagði harðvítug átök geysa um framtíð heilbrigðiskerfisins og að verkalýðshreyfingin muni þar, eftir sem áður, standa vörð um hagsmuni almennings. Hann hvatti launafólk til samstöðu, enda sameiningarkrafturinn sterkasta aflið.

Lesa má ræðu Garðars hér.

Jafnrétti á vinnumarkaði var meðal þess sem Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, fjallaði um þegar hún ávarpaði baráttufund í Borgarnesi.

„Eitt stærsta ranglæti á vinnumarkaði sem enn og aftur þarf að gera uppreisn gegn, er launamismunur á milli karla og kvenna. Hvers vegna er enn verið að berjast við þau viðhorf að karlar og konur eigi að fá sömu laun fyrir sömu vinnu? Af hverju er það ekki sjálfsagt að kynin séu á sömu launum við sömu aðstæður?“ sagði Arna Jakobína.

Lesa má ræðu Örnu Jakobínu hér.

„Jafnaðarhugsjónin hefur verið eitt af aðalsmerkjum launþegahreyfingarinnar um heim allan. Í langan tíma hefur verið sótt að grundavallar hugsjónum hennar og því haldið fram að ekkert gagn sé af því að vera í stéttarfélögum og að einstaklingshyggjan sé það sem þurfi að rækta, upphefja,“ sagði Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, í ávarpi sínu á baráttufundi á Selfossi.

„Í dag hefur ungu fólki ekki verið gert kleift að koma sér þaki yfir höfuðið hvorki að leigja né kaupa. Verkalýðshreyfingin hefur tekið höndum saman um þá stefnu að byggja í samvinnu við sveitarfélögin leiguhúsnæði svo að ungu fólki verði gert mögulegt að leigja á viðráðanlegu verði,“ sagði Kristín.

Lesa má ræðu Kristínar hér.

Við Íslendingar teljum okkur vera menntaða þjóð og því gæti það komið einhverjum á óvart að menntunarstig á íslenskum vinnumarkaði er þrátt fyrir allt lágt og margir sem aðeins hafa lokið skyldunámi, sagði Karl Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar í ávarpi sínu á baráttufundi í heimabyggð.

„Við verðum að gera betur fyrir þá sem ekki hafa lokið formlegri skólagöngu. Nýta verður fjölbreytt tækifæri til menntunar í framhaldsfræðslukerfinu sem býður þessum hópi annað tækifæri til náms,“ sagði Karl.

Lesa má ræðu Karls hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?