Sameiningarkrafturinn sterkasta aflið

Garðar Hilmarsson, annar varaformaður BSRB og formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, flutti erindi á baráttufundi á Ingólfstorgi þann 1. maí.

Góðir félagar, til hamingju með daginn.

Við heyrum það oft að 1. maí sé úreltur. Við heyrum að verkalýðshreyfinginn sé úrelt, samstaða og stéttabarátta tilheyri liðnum tíma. Við heyrum að réttindi séu tryggð, og frekari barátta ónauðsynleg. Þetta er rangt, hús sem er málað þarf að mála aftur, hús sem er byggt, þarf viðhald. Það dugar heldur ekki bara að viðhalda, það þarf að sækja fram til nýrra sigra svo jafnvægi haldist. Ef ekki þá riðlast þetta jafnvægi, launamenn fengu ekki sína hlutdeild í hagvexti framtíðarinnar.

Þó fyrsti maí sér hátíðisdagur, dagurinn þar sem launafólk minnist liðinna sigra, þá er hann umfram allt, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. Hann er dagurinn sem við notum til þess að herða okkur í baráttuni fyrir nýjum sigrum og framþróun, svo jafnvægi haldist.

Krafan er húsnæði fyrir alla

Yfirskrift dagsins er: Húsnæðisöryggi – sjálfsögð mannréttindi. Það og hafa ofan í sig og á, eru sjálfsögð mannréttindi. Þess vegna lagði verkalýðshreyfingin ofur-áherslu á að ná upp lægstu launum. Nú þegar hillir í að lámarkslaun verði 300.000, þá rýkur húsnæðisverð og leiga upp úr öllu valdi. Þess vegna hafa ASÍ og BSRB stofnað leigufélagið Bjarg, til þess að mæta þörfum félaga innan þessara samtaka.

Bjarg íbúðafélag mun byggja að lágmarki tæplega 1.200 íbúðir á næstu fjórum árum og leigja þær tekjuminni félagsmönnum. Það er skref í rétta átt, en mun ekki eitt og sér leysa vandann. Leigufélög munu halda áfram að kaupa upp fasteignir og fasteignaeigendur munu halda áfram að leigja þær erlendum ferðamönnum á uppsprengdu verði.

Það má öllum vera það ljóst, að það þarf að byggja til að sinna þörfinni og það þurfa fleiri að koma að því. Ef ekki, þá uppfylltum við aldrei þörfina. Ríkið og sveitarfélögin þurfa að taka höndum saman til að leysa vandann, og það ekki seinna en í gær. Ríkið þarf að leggja til fjármagn á viðunandi og sanngjörnum vöxtum. Og sveitarfélögin þurfa að leggja til lóðir á kostnaðarverði. Ríkið á ekki að standa í okurlánum, né sveitafélögin að standa í lóðarbraski.

Krafan er einföld, allir eiga að geta keypt eða leigt húsnæði, á eðlilegum og sanngjörnum kjörum. Húsnæðisöryggi – sjálfsögð mannréttindi.

Aukum jöfnuðinn

Við þurfum að auka jöfnuð í samfélaginu. Það verður enginn friður í þessu samfélagi, á meðan misskiptingin heldur áfram að vaxa. Okkar markmið á að vera að auka lífsgæðin í landinu, með því að koma hér á velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd. Hluti af þeirri framtíðarsýn snýst um að gera samfélagið fjölskylduvænna, að gera fólki kleift að samræma fjölskyldulíf og atvinnu sína.

BSRB tekur nú þátt í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar, einu í samvinnu við Reykjavíkurborg og öðru með ríkinu. Við viljum að vinnuvikan verði stytt úr 40 stundum í 36, án launaskerðingar. Við teljum að þetta sé hægt, án þess að draga úr framleiðni og það verður kannað ítarlega í tilraunaverkefnunum.

Fyrstu niðurstöður úr verkefni Reykjavíkurborgar lofa góðu. Mælingar sýna marktækt betri líðan starfsmanna, aukna starfsánægju og minni veikindi. Á móti, má ekki merkja að breyting sé á afköstum starfsmanna. Þetta er enn á tilraunastigi, en styttri vinnudagur og meiri tími með fjölskyldu og vinum er sannarlega framtíðarsýn, sem við eigum að vinna að. Það mun án efa, bæta samfélagið.

Harðvítug átök um heilbrigðiskerfið

Það eru víða átök í samfélaginu. Þessa dagana fara fram harðvítug átök um íslenska heilbrigðiskerfið. Kerfið sem misvitrir stjórnmálamenn, hafa leyft að drabbast niður á undanförnum árum. Og nú stíga þeir fram, sem öllu vilja bjarga með því að einkavæða sem mest af heilbrigðiskerfinu. Gegn því hefur verkalýðshreyfingin barist, og gegn því munum við halda áfram að berjast.

Það er skýr vilji þjóðarinnar, að heilbrigðiskerfið eigi að vera rekið af hinu opinbera, að mestu. Á þennan þjóðarvilja ættu stjórnmálamenn að hlusta, og stöðva þegar öll frekari áform um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu okkar.

Traust þarf að ávinna sér

Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir margskonar vanda. Eitt af því sem hindrar okkur í að ná árangri er skortur á trausti. Því það þarf traust. Hrunið varð ekki til þess, að efla traust. Svik stjórnvalda á samkomulagi við opinbera starfsmenn um lífeyrismál, varð ekki til að efla traust. Uppsagnir á Akranesi í nafni hagræðingar, voru ekki til þess að efla traust.

Slíkt traust þarf að ávinna sér, og þarf að ríkja á milli allra aðila, verkalýðshreyfingar, stjórnvalda og atvinnurekenda, og það þarf að sýna það í verki. Við gerum það ekki, með því að níða niður skóinn af hvert öðru.

Halldór Laxness orðaði þetta ágætlega fyrir nærri 70 árum síðan. Hann sagði: „Það er og verður vonardraumur kapítalista að hvar sem tveir verkamenn eru að starfi standi þeir í rifrildi hvor við annan um stéttarmál sín; og hvar sem verkalýðssamband er starfandi í landi verði reynt að kljúfa það í tvö verkalýðssambönd sem standi á öndverðum meiði.“ Hefur þetta breyst?

Það er margt óunnið og mikið verk framundan. Það verk vinnst ekki nema í samvinnu við launafólk í landinu. Við verðum að standa sameinuð í þeirri vinnu, hvort sem við störfum hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Sameiningarkrafturinn er okkar sterkasta afl, og það afl verðum við að nýta. Hagsmunir launafólks eru alstaðar þeir sömu, að geta séð sér og sínum farborða.

Á meðan við minnumst liðinna sigra verkalýðshreyfingarinnar á þessum alþjóðlega baráttudegi, skulum við taka höndum saman og horfa fram á veg. Byggjum upp samfélag velferðar, jafnaðar og samhygðar. Stöndum saman.

 

Garðar Hilmarsson, 2. varaformaður BSRB og formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?