1. maí - Samstaða leiðir til betra samfélags

Karl Þórsson ávarpaði baráttufund í HafnarfirðiRæða Karls Þórssonar, formanns Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, 1. maí 2017 í Hafnarfirði

Það ríkir góðæri á Íslandi samkvæmt öllum hagtölum og það sem meira er tölfræðin greinir okkur frá því að góðærið á að hafa staðið yfir nær óslitið frá árinu 2011. Hinn almenni launamaður á Íslandi spyr sig hins vegar hvort góðæristölfræðin eigi líka við þegar litið er til eigin afkomu.

Í góðærinu hafa mennta-, tryggingar-, og heilbrigðiskerfi ítrekað kallað eftir hjálp. Við viljum varðveita sameiginlegu norrænu grunngildin um tækifæri, öryggi og velferð óháð efnahag. Við viljum búa í samfélagi sem hvorki undanskilur hópa eins og öryrkja eða aldraða, við viljum búa í samfélagi jafnréttis. Samfélagi sem hvetur konur til að fara út á vinnumarkaðinn, hvetur feður til töku fæðingarorlofs og býður kynjunum sömu laun fyrir sömu vinnu. Þar sem dagvinnulaun duga launafólki til grunnframfærslu.

Við Íslendingar teljum okkur vera vel menntaða þjóð. Það kann hins vegar að koma mörgum á óvart, að menntunarstig á íslenskum vinnumarkaði er þrátt fyrir allt lágt og sá hópur sem einungis hefur lokið skyldunámi er fjölmennur í alþjóðlegum samanburði. Við verðum að gera betur fyrir þá sem ekki hafa lokið formlegri skólagöngu. Nýta verður fjölbreytt tækifæri til menntunar í framhaldsfræðslukerfinu sem býður þessum hópi annað tækifæri til náms.

Hér í Hafnarfirði viljum við sjá atvinnulífið og hafnfirsk bæjaryfirvöld í vaxandi mæli styðja og hvetja þennan hóp til náms. Við minnum á að framhaldsfræðslan er samvinnuverkefni stjórnvalda, samtaka launafólks og atvinnurekenda og er á ábyrgð atvinnulífsins alls. Aukin menntun er allra hagur og felur í sér ánægðara starfsfólk, betri árangur og vaxandi samfélagsauð.

Um nokkurt skeið hefur okkur mistekist að styðja við unga fólkið þegar það af einhverjum ástæðum nær hvorki að fóta sig í almenna skólakerfinu eða á vinnumarkaðnum. Hafnfirsku verkalýðsfélögin þekkja úr sínu daglega starfi vel til Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar. Þangað er í vaxandi mæli vísað ungu fólki sem ekki hefur lokið námi eða náð að fóta sig á vinnumarkaðnum. Öll erum við einstök og við viljum að allir fái tækifæri til að nýta sína hæfileika og séu virkir í samfélaginu. Hér er verk að vinna á landsvísu, eigi ekki illa að fara í framtíðinni.

Neyðarástand í húsnæðismálum

Í góðærinu er staðan á íslenskum húsnæðismarkaði þannig að ungt eða efnaminna fólk getur ekki komist inn á húsnæðismarkaðinn. Bent hefur verið á það að hér á landi búi fjórir af hverjum tíu fullorðnum einstaklingum á aldrinum 20-29 ára enn í foreldrahúsum. Hér ríkir einfaldlega neyðarástand og sínu verst er ástandið á höfuðborgarsvæðinu. Frá árslokum 2010 hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 78 prósent. Á sama tímabili hefur leiguverð hækkað um 64 prósent.

Í þessu ófremdarástandi er það lögmál markaðarins sem ræður för með „systkinin“ framboð og eftirspurn fremst í flokki. Taktinn slær svo opinbert vaxtaokur ásamt svívirðilegum kjörum lánastofna og banka í hinu sveiflukennda íslenska krónuhagkerfi. Síhækkandi húsnæðisverð útilokar marga frá kaupendamarkaði. Það sama á við um ofsafengið leiguverð sem gengur harkalega nærri takmörkuðum ráðstöfunartekjum launafólks sem situr pikkfast á leigumarkaði.

Í þessum erfiðu aðstæðum hafa ASÍ og BSRB brugðist við með stofnun íbúðafélagsins Bjargs, leigufélags sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða. Á vegum Bjargs er gert ráð fyrir að reistar verði 1.200 leiguíbúðir fyrir félagsmenn ASÍ og BSRB. Nú þegar er Bjarg í samstarfi við sveitarfélögin Reykjavík og Hafnarfjörð en í Hafnarfirði er gert ráð fyrir byggingu 150 íbúða í Skarðshlíð á næstu fjórum árum.

Heilbrigðiskerfið okkar virðist smátt og smátt hafa verið holað að innan. Það getur ekki lengur staðið undir þeim verkefnum sem því er ætlað að sinna og þeirri þjónastu sem almenningur hefur treyst því til að veita. Í baráttunni fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins hafa BSRB og ASÍ látið til sín taka m.a. staðið sameiginlega að málþingi undir fyrirsögninni „Er einkarekstur í heilbrigðisþjónustu almannahagur?“

Vilji almennings er skýr. Rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar prófessors sýna að rúmlega 80 prósent landsmanna vilja að heilbrigðisþjónustan sé rekin fyrst og fremst af hinu opinbera. Þá tóku yfir áttatíu þúsund manns þátt í undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins.

Um lykilatriðið í endurreisninni sagði landlæknir í fréttum RÚV á sumardaginn fyrsta. Að við núverandi fyrirkomulag „sé vandséð hvernig heilbrigðisyfirvöld geti haft stjórn á því hvert opinbert fjármagn renni til heilbrigðismála og hvaða rekstrarform verði ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi.“ Með öðrum orðum, að með núverandi dreifingu á takmörkuðu fjármagni sé ekki hægt án kerfis- og lagabreytinga að byggja upp það heilbrigðiskerfi sem almenningur vill. Verkalýðsfélögin í Hafnarfirði krefjast þess að stjórnvöld sjái til þess að sameiginlegt fjármagn landsmanna renni til endurreisnar heilbrigðiskerfis í almannaþágu í stað þess að fjármagna einkarekstur sem hefur allt önnur markmið.

Misskiptingin aukist

Misskipting og virðingarleysi gangvart launafólki hefur aukist í þjóðfélaginu okkar nú á góðæristíma og birtist með ýmsum hætti. Knýjandi þörf fyrir aukið vinnuafl í byggingariðnaði og ferðaþjónustu má ekki leiða til mannlegs harmleiks og fela í sér launakjör undir lágmarkstöxtum og slæglegan aðbúnað erlends farandverkafólks. Þá er mikilvægt að staðinn sé vörður um atvinnuöryggi fiskvinnslufólks og hótunum kvótagreifa um að flytja fiskvinnslu að einhverju leyti erlendis vegna mikillar styrkingar krónunnar skal svarað af hörku.

Í síðustu kjarasamningum sömdu verkalýðsfélögin á grundvelli rammasamkomulags sem átti að koma í veg fyrir svonefnt höfrungahlaup í samningagerð. Jafnframt var kveðið á um hógværð í launahækkunum á vinnumarkaðnum öllum. Ríflegar launahækkanir sem kjararáð ákvað á síðasta ári til æðstu embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa nema tugum prósenta og eru úr öllu samræmi við launaþróun allra annarra hópa.

Sú ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að taka mið af þessu og hækka laun sín og kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins um tugi prósenta er ekki í anda rammasamkomulags sem launahækkanir bæjarstarfsmanna tóku mið af. Athyglisvert er að pólitískt kjörnir fulltrúar bæjarins deili þeirri skoðun með verkalýðsfélögunum að fólk eigi að vera á góðum launum sem verður án efa tekið til kostanna í næstu kjarasamningum.

Áfangasigrar hafa unnist í baráttunni fyrir lífskjarajöfnuði, bættum réttindum launafólks og réttlátara samfélagi. Baráttunni er hins vegar langt frá því að vera lokið og almennt launafólk getur ekki eitt borið ábyrgð á stöðugleika samfélagsins. Ef við horfum bjartsýn fram á veginn þá mun áframhaldandi samstaða og réttindabarátta verkalýðshreyfingarinnar leiða til bættra lífskjara, réttlátara og betra samfélags. Hafnfirskt launafólk, til hamingju með daginn.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?