Forgangsmál að tryggja jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

BSRB hefur verið áberandi í jafnréttisbaráttunni undanfarið og að sögn Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB, er mikilvægast að leiðrétta skakkt verðmætamat kvennastarfa til þess að ná fullu launajafnrétti á íslenskum vinnumarkaði.

„Á undanförnum árum höfum við sett skakkt verðmætamat kvennastarfa í forgang vegna þess að við vitum að það er stærsta skrefið í áttina að því að útrýma launamun kynjanna.

Hefðbundin kvennastörf hafa lengi verið vanmetin á kerfislægan hátt og úreltar hugmyndir um hlutverk kynjanna viðhalda þessu misrétti. Rannsóknir sýna að kerfisbundið vanmat á svonefndum kvennastörfum leiðir til lægri launa um allan heim og er meginástæðan fyrir kynbundnum launamun. Þess vegna höfum við hjá BSRB lagt áherslu á að auka skilning fólks á þessu kerfisbundna óréttlæti sem fjölmennar kvennastéttir á opinberum markaði verða fyrir. Þvert á það sem mörg halda er launamunur kynjanna hér á landi svipaður og hann er að meðaltali í öðrum Evrópulöndum - sem þýðir að Ísland er almennt ekki að standa sig betur en þau lönd sem við berum okkur helst saman við. Þessu getum við breytt,“ segir Sonja.


Samanburðurinn skiptir máli

Að sögn Sonju er ýmislegt hægt að gera til þess að útrýma launamun kynjanna. „Í jafnréttislögum segir að greiða skuli jöfn laun og kjör fyrir jafnverðmæt störf. Hingað til hefur fyrir dómstólum þó bara reynt á aðstæður, þar sem borin eru saman störf innan sama vinnustaðar og jafnlaunavottunin miðar almennt eingöngu að því. Skyldan er hins vegar ekki bundin við aðstæður þar sem konur og karlar vinna hjá sama atvinnurekanda. Það má bera saman ólík störf á milli vinnustaða, að því gefnu að rekja megi launamismun til sama uppruna. Það er, að það sé sami aðili sem beri ábyrgð á launamisréttinu og geti lagfært það.

Dæmi um þetta er að hvert sveitarfélag telst sem einn atvinnurekandi og sama má segja um ríkið, þó það hafi ekki enn reynt á það fyrir dómstólum hér á landi. Þegar kemur að almennum vinnumarkaði þá ætti þetta til dæmis við um ólíka vinnustaði innan sömu skipulagsheildar eða vinnustaði sem heyra undir sama móðurfyrirtæki, en það hefur heldur ekki reynt á það fyrir dómi hér. Þetta þýðir að innan þessa ramma getur kona til dæmis borið saman laun sín við laun karls sem vinnur ólíkt starf á öðrum vinnustað. Þess vegna er nauðsynlegt að endurhugsa þau verkfæri sem við höfum í dag líkt og jafnlaunavottun og meta virði starfa þvert á vinnustaði sem eru af sama uppruna, óháð því hvort þau heyri undir sömu kennitölu.“


Betur má ef duga skal

Sem betur fer hefur dregið úr launamun kynjanna á undanförnum árum meðal annars vegna innleiðingar jafnlaunavottunar og starfsmats hjá sveitarfélögum. Þessi tæki leiðrétta hins vegar að óbreyttu ekki launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.

Jafnlaunavottunin tekur almennt bara til eins vinnustaðar og hefur líka verið gagnrýnd fyrir að það sé ekki staðlað virðismat á störfum. Reynslan sýnir að þau viðmið sem vinnustaðir hafa þróað vegna innleiðingar jafnlaunastaðals eru ólík, til dæmis með tilliti til fjölda og útfærslu matsþátta með hverju starfi sem getur endurspeglað eðli og fjölbreytileika starfseminnar. En mat stjórnanda á hverjum stað getur þannig haft áhrif á hvaða þættir eru metnir og verðmæti tiltekinna þátta starfanna sem kann að leiða til ómeðvitaðrar hlutdrægni. Þá skortir einnig kynjafræðilega þekkingu inn í launaumhverfið og ekki er gert ráð fyrir þátttöku starfsfólks eða stéttarfélaga í ferlinu.

Þótt ýmislegt megi bæta er jafnlaunavottunin engu að síður afar mikilvægt skref í átt að frekari vitund um launajafnrétti. Eftir því sem þekking okkar eykst er eðlilegt að skoða næstu skref til að byggja ofan á þá góðu vinnu sem hefur átt sér stað á vinnustöðum, til að tryggja jöfn laun kynjanna fyrir jafnverðmæt störf. Þar verða ríki og sveitarfélög að ganga fram með góðu fordæmi enda starfa langflestar kvennastéttir þar; tæplega 2/3 hluta starfsfólks hins opinbera eru konur.“

 

Raunverulegt virði kvennastarfa

En hvað er það sem einkennir kvennastörf? Að sögn Sonju fela hefðbundin karlastörf oft í sér sköpun áþreifanlegra verðmæta sem auðvelt er að meta til fjár á meðan hefðbundin kvennastörf fela gjarnan í sér sköpun óáþreifanlegra verðmæta, til dæmis velferðar fólks, sem ýtir undir vanmat á samfélagslegu virði starfanna. „Til að ná utan um raunverulegt virði svokallaðra kvennastarfa þarf að taka tillit til hluta eins og tilfinningalegs álags, hæfni til að sýna samkennd og eiga góð samskipti, ábyrgð á velferð fólks, færni til að leysa úr vandamálum, álags við að halda mörgum boltum á lofti í einu, færni til að þjónusta fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða stríðir við erfiðleika, tímastjórnunar, áunninnar þekkingar, líkamslegs álags til dæmis við að lyfta fólki, heilsufarshættu, krefjandi vinnuumhverfis og annars sem er einkennandi fyrir hefðbundin kvennastörf.

Einnig þarf að leitast við að fanga fjölbreytileika starfa og fjölbreyttar birtingarmyndir krafna, ábyrgðar sem og álags- og umhverfisþátta. Sem dæmi má nefna að mat á hávaðamengun á ekki síður við í skólastofum en við vegaframkvæmdir, að umönnun sjúkra felur í sér líkamlegt álag ekki síður en ýmis iðnaðarstörf, að umönnun barna felur í sér aðgæslu ekki síður en það að stýra vinnuvél og svo framvegis.

Heimsfaraldurinn varpaði ljósi á mikilvægi og verðmæti kvennastarfa, enda eru konur í miklum meirihluta starfsfólks í heilbrigðiskerfinu og skólum. Ég held að ákveðin vitundarvakning hafi átt sér stað hvað varðar framlag þessara kvenna til að halda samfélaginu gangandi, ekki bara á Íslandi heldur á heimsvísu. Hinsvegar er hættan sú að nú þegar faraldurinn er í baksýnisspeglinum að við gleymum okkur aftur áður en tryggt er að mikilvægi þessara starfa endurspeglist í laununum.“

 

Hugarfarsbyltingar er þörf

„Í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB og ríkis og sveitarfélaga í mars 2020 skipaði forsætisráðherra starfshóp sem skilaði tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Í kjölfar tillagnanna skipaði forsætisráðherra aðgerðahóp um launajafnrétti sem hefur það hlutverk að byggja upp þekkingu, prufa sig áfram í nýjum leiðum að virðismati og búa til verkfæri til að leiðrétta skakkt verðmætamat kvennastarfa á grundvelli tillagnanna.

Við þekkjum það úr sögunni að jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér. Mikilvægustu breytingarnar í átt jafnrétti kynjanna hafa komið til vegna þess að fjölmargir úr ólíkum áttum með breiða þekkingu hafa knúið þær fram. Markmiðið með vinnunni framundan er að skapa þannig hreyfiafl og hugarfarsbyltingu gegn úreltum hugmyndum um verðmæti kvennastarfa,“ segir Sonja að lokum.

Viðtal birtist fyrst í aukablaði Fréttablaðsins 18. júní


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?