Pistill formanns BSRB

Í aðdraganda þeirra kjarasamningsviðræðna sem nú standa yfir voru allir samningsaðilar sammála um að helsta markmiðið ætti að vera ná fram auknum kaupmætti launa. Undanfarið hafa svo Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðherra og seðlabankastjóri talað á þann veg að „hóflegar launahækkanir“ launafólks sé lykilinn að auknum kaupmætti. Talað hefur verið með þeim hætti að litlar launahækkanir einar og sér muni skila sér í minni verðbólgu, sterkara gengi krónunnar, aukinni fjárfestingu, aukinni eftirspurn eftir vinnuafli og vitanlega því eftirsóknarverðasta – auknum kaupmætti launa.

Allt þetta eru vissulegt markmið sem við eigum að stefna að og koma flestum til góða. Hins vegar verða Samtök atvinnulífsins, ríkisstjórnin og Seðlabankinn að gera sér grein fyrir því að kjarasamningar einir og sér ráða ekki þróun verðbólgunnar. Hlutur ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja er mjög mikilvægur líka og þessir aðilar verða einnig að halda að sér höndum ef markmið um stöðugra efnahagsumhverfi og aukin kaupmátt eiga að ná fram að ganga. Það hefur talsvert minna farið fyrir því í umræðunni.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi mun ýmis kostnaður einstaklinga vegna t.d. heilbrigðisþjónustu hækka, almennt verðlag fyrir vöru og þjónustu fer stöðugt hækkandi, launaskrið hefur verið talsvert undanfarið hjá stjórnendum bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði og launaskrið hefur líka verið mikið innan fjármálageirans. Þetta eru aðeins örfá dæmi um veigamikil atriði – verðbólguaukandi atriði – sem lúta að ríki og atvinnurekendum.

Ábyrgð sveitarfélaganna er einnig talsverð og því er ánægjulegt að sjá að nokkur þeirra hafa fallið frá áður boðuðum gjaldskrárhækkunum til að leggja sitt af mörkum við að koma á stöðugra efnahagsumhverfi. Fleiri þurfa að fylgja því fordæmi og sýna þannig í verki vilja til að ná tökum á verðbólgunni.

Fyrir skemmstu talaði fjármálaráðherra á þá leið að við værum öll á sama bátnum og að sigla að sama markmiði. Framkvæmdastjóri SA notaði sömu líkingu í viðtali fyrir skemmstu. Ég get tekið undir það með þessum ágætu mönnum að við erum öll um borð í sama bátnum og á leið til sama áfangastaðar. Ég get hins vegar ekki fallist á að launafólk séu þau einu sem eigi að leggjast á árarnar til að koma okkur á þennan áfangastað. Það þurfa fleiri en launafólkið að leggja sitt af mörkum til að hægt sé að ná fram markmiðum um aukinn kaupmátt. Þá á ég sérstaklega við ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur.


                                                                                                        Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?