Réttlát skipting og hagsæld allra

Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur BSRB

Orðið hagsæld þýðir efnahagsleg velgengni eða velmegun. Sú skilgreining er huglæg og ólíklegt að nokkrir tveir einstaklingar geti komið sér fullkomlega saman um hvenær slíkri velgengni eða velmegun er náð. Hagfræðin hefur hins vegar leitast við að nota hlutlæga mælikvarða til að mæla stöðu hagkerfa. Víðtæk áhersla á hlutlægni hefur gert það að verkum að jafnan er notast við tölulega og hagfræðilega mælikvarða við mat á stöðu samfélags.

Í þessu samhengi hefur gjarnan verið litið til meðaltala, það er samanlögðum tekjum eða eignum fólks er skipt á milli þeirra með jöfnum hætti í því skyni að gefa ímyndaða mynd af meðalstöðu hvers og eins. Það ætti að vera flestum ljóst að margir lifa ansi langt frá hinu svokallaða meðaltali, hvort sem litið er til Íslands eða alþjóðasamfélagsins. Við búum í heimi þar sem verðmætum er skipt með mjög misjöfnum hætti á milli fólks. Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz hefur komist að þeirri niðurstöðu að heimsframleiðslan hafi árið 2008 náð því marki að allir íbúar jarðarinnar ættu að lifa fyrir ofan fátæktarmörk. Þrátt fyrir það áætla Sameinuðu þjóðirnar að árið 2022 hafi um 660 milljónir einstaklinga ekki náð því markmiði og þurft að lifa á minna en því sem nemur 273 íslenskum krónum á dag.

Ef litið er til hagfræðinga fortíðarinnar sem gjarnan er vísað til þegar rætt er um misskiptingu sem óhjákvæmilegan fylgifisk frjálsra markaðshagkerfa, líkt og t.d. John Maynard Keynes og Adam Smith, litu þeir miklu frekar til þess að hagfræðin, markaðurinn og hagkerfið væru verkfæri til þess að afla frekari tekna svo að samfélagið allt stæði betur. Auðssöfnun fárra og fátækt margra var ekki sú niðurstaða sem kenningar þeirra stefndu að heldur velsæld flestra.

Kyn er ein vídd efnahagslegrar mismununar. Töluverður munur er á efnahagslegri stöðu einstaklinga þegar litið er til kyns. Því miður er enn sem komið er afar takmörkuðum upplýsingum safnað um önnur kyn en karla og konur. Konur hafa sögulega allra jafnan átt, og eiga enn, minni eignir en karlar og jafnframt eru þær með lægri tekjur. Þegar efnahagslegar þrengingar eiga sér stað, líkt og nú um stundir með hækkandi verðlagi, hefur það mun meiri áhrif á þá sem minna eiga og eru með lægri tekjur. Það er einfaldlega minni geta til þess að mæta auknum útgjöldum. Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands fyrir árið 2021 sýnir að um 38 þúsund íslensk heimili, eða um fjórðungur, áttu á því ári erfitt með á ná endum saman. Það átti við um 52% einstæðra foreldra. Var þetta staðan áður en verðbólgan og vextir tóku að hækka. Þar sem konur eru að jafnaði með lægri tekjur en karlar og eru enn hlutfallslega oftar einstæðir foreldrar bendir allt til þess að fjárhagsstaða kvenna þrengist meira við núverandi aðstæður en karla.

Samfélag sem vill kenna sig við velferð ætti alltaf að hafa metnað og skýran vilja til að gera betur. Ekkert barn á að alast upp við fátækt og allir eiga að geta séð sér fyrir helstu nauðsynjum. Það að ítreka við fólk sem ekki nær að borga helstu nauðsynjar að það hafi það í reynd rosalega gott þar sem mikill jöfnuður sé hér á landi, hjálpar þeim lítið við að brúa bilið á milli tekna þeirra annars vegar og nauðsynlegra útgjalda hins vegar. Að skjóta skollaeyrum við stöðu þeirra hópa sem höllustum fæti standa hefur sögulega aukið gjá á milli stjórnvalda og almennings. Fyrir um öld síðan lagði fyrrnefndur Keynes áherslu á þá staðreynd að það er mikilvægara fyrir stjórnvöld að bregðast við neikvæðri þróun á félagslegri velferð fólks með skjótvirkum aðgerðum frekar en að miða að langtímamarkmiðum sem e.t.v. raungerast aldrei. Í því samhengi lét hann falla þau fleygu orð „til lengri tíma litið erum við öll dauð“.

Til þess að tryggja efnahagslegan stöðugleika þarf einnig að tryggja félagslegan stöðugleika. Ísland er á flesta mælikvarða rík þjóð þar sem tekjur eru nægar. Allir hér eiga að geta búið við hagsæld, eða efnahagslega velmegun og enginn á að þurfa að búa við fátækt eða eiga í erfiðleikum með að ná endum saman. Forsenda þess er að tekjum verði skipt með réttlátari hætti á milli íbúa en nú er gert.

Íslenska þjóðin er upp til hópa harðduglegt fólk en staðreyndin er sú að hér býr fólk sem hefur ekki fæðst með jöfn tækifæri, og áskoranir sem fólk tekst á við eru af mörgun toga. Sumir hafa meðvind, einhverjir eru í logni og aðrir glíma við mótvind. Það ætti því að vera keppikefli okkar að hér sé sterkt velferðarkerfi sem styður við alla þá sem þurfa á því að halda þegar þörf er á og tryggir öllum hagsæld. Fórnarkostnaður þess að gera það ekki lýsir sér í misrétti, sundrungu og óánægju. Ef notast er við hagfræðilegar aðferðir er líkast til alltaf hagkvæmara að hjálpa fólki þegar þörf er á í stað þess að bíða þar til það er of seint. Það er hins vegar ekki einungis hagkvæmt, það er hið eina rétta í stöðunni.

Erindið birtist fyrst á RÚV


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?