Varað við aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu

Fjölmennur aðaldundur BSRB ályktaði um heilbrigðismál og kjarasamninga.

BSRB varar við því að aukið verði við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu enda yrði það í algerri andstöðu við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Í nýsamþykktri ályktun aðalfundar bandalagsins er bent á að einkarekstur dragi ekki úr kostnaði hins opinbera við heilbrigðisþjónustuna og torveldi stjórnvöldum að forgangsraða og skipuleggja heilbrigðiskerfið í þágu almannahagsmuna.

„Við megum ekki láta skammtímahagsmuni ráða þegar kemur að því að byggja upp heilbrigðiskerfi sem á að þjóna öllum landsmönnum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Það eru beinir hagsmunir almennings að auka ekki við þá einkavæðingu sem þegar hefur verið ráðist í heldur styrkja opinbera heilbrigðiskerfið svo það geti veitt fyrsta flokks þjónustu án langra biðlista.“

Í ályktun aðalfundarins eru stjórnvöld hvött til að byggja upp opinbera þjónustu á Landspítalanum, heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og heilsugæslunni. Þá er lögð áhersla á að markvissu átaki til að vinna niður biðlista eftir aðgerðum verði haldið áfram. Einnig eru stjórnvöld hvött til að gera nauðsynlegar úrbætur á starfsumhverfi starfsfólks í heilbrigðiskerfinu til að gera stofnanirnar að aðlaðandi vinnustöðum fyrir vel menntað og öflugt starfsfólk til að tryggja nauðsynlega endurnýjun.

Vinnuvikan verði stytt í kjarasamningum

Öll aðildarfélög BSRB eru með lausa kjarasamninga og lagði aðalfundur BSRB áherslu á að í þeim kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi verði samið um bætt starfsumhverfi opinberra starfsmanna. Í ályktun fundarins segir að bregðast verði hratt við aukinni tíðni veikinda vegna langvarandi streitu og kulnunar. Það þurfi meðal annars að gera með því að stytta vinnuvikuna.

„Niðurstöður tilraunaverkefna sýna fram á ótvíræðan ávinning bæði fyrir starfsfólk og vinnustaði. Aðalfundur BSRB telur ekki eftir neinu að bíða og að stytta eigi vinnuvikuna með skýrum hætti í kjarasamningum við ríki og sveitarfélög. Sérstaklega er brýnt að stytta vinnuviku vaktavinnufólks enda ljóst að álagið sem fylgir vaktavinnu hefur afar slæm áhrif á heilsu starfsfólksins,“ segir í ályktuninni.

Ályktun aðalfundar BSRB um heilbrigðismál

Ályktun aðalfundar BSRB um kjarasamninga

Allar ályktanir BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?