Skynsamlegra að afla tekna en að skera niður

BSRB, stærstu samtök starfsfólks í almannaþjónustu á Íslandi, gagnrýna þau niðurskurðaráform sem birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og segja hana staðfesta pólitíska stefnu um ójöfnuð. Þetta kemur fram í umsögn bandalagsins um fjármálaáætlun fyrir árin 2023 - 2027.

“Nú dynur áróður á launafólki um að ekki megi gera of miklar kröfur um launahækkanir því það muni auka á verðbólgu í landinu. En ríkisstjórnin hefur ýmislegt annað í verkfæraskúffunni til að draga úr þenslu og ráðast gegn verðbólgu en að neita opinberu starfsfólki um sanngjarnar kjarabætur eða skera niður dýrmæta almannaþjónustu. Skynsamlegra væri að afla tekna með það að markmiði að auka jöfnuð og styrkja þjónustu við almenning. Ríkisstjórnin getur m.a. sett á stóreignaskatt á hreina eign þá allra ríkustu, hækkað fjármagnstekjuskatt og tryggt að þjóðin fái sanngjarnari hlutdeild af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Við hjá BSRB hvetjum hana til að horfa til þess og auka þannig sátt og samstöðu.” - segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB.

BSRB telur að með því að afla tekna sé vel hægt að efla tilfærslukerfin, svo sem örorkulífeyri, ellilífeyri, húsnæðisstuðning og barnabætur, sem og almannaþjónustu í landinu. BSRB leggur ríka áherslu á að skattalækkanir séu fullfjármagnaðar en leiði ekki til niðurskurðar í opinberum rekstri, fjárfestingum og tekjutilfærslum. Ótækt sé að fjármálaáætlun feli í sér áframhaldandi aðhaldsstig á opinbera þjónustu og tekjutilfærslukerfin og bendir á að gert sé ráð fyrir samtals 30 milljarða niðurskurði á tímabili áætluninar.

Þá telur bandalagið alvarlegt ástand á húsnæðismarkaði ekki endurspeglað í áformum ríkisstjórnarinnar. Hækkun húsnæðisbóta leigjenda nægi ekki til að mæta óvenju miklum hækkunum vísitölu leiguverðs frá 2018 og fækka eigi stofnframlögum úr 600 íbúðum árlega í 300 á tímabili áætlunarinnar þrátt fyrir gríðarlegan framboðsskort. Verði ekki breyting á þessum áformum muni það torvelda kjarasamningsgerð á jafnt almennum markaði sem þeim opinbera.

Hægt er að lesa umsögnina í heild sinni hér: https://www.bsrb.is/static/files/Umsagnir/Umsagnir_2022/umso-gn-bsrb-um-fja-rma-laa-aeltun-2023-2027-1-.pdf


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?