Kynning á kjarasamningum 2020 - Breytingar á orlofsmálum
Nýlega tóku gildi lög sem banna mismunun á grundvelli aldurs og þess vegna var orlofsrétti breytt með nýundirrituðum kjarasamningum með þeim hætti að framvegis fá allir félagsmenn BSRB 30 daga launað orlof. Kjarasamningarnir hafa þó að geyma mismunandi dagsetningu gildistöku eftir viðsemjendum og hefst ávinnsla 30 launaðra orlofsdaga allra því á mismunandi dagsetningum.
Hér að neðan má sjá kynningarmyndband þar sem farið er yfir helstu atriðin um þennan efnisþátt ásamt hlekk til að hlaða niður glærum sem farið er yfir í myndbandinu. Því er svo fylgt eftir með ítarlegri upplýsingum í textanum þar fyrir neðan.
Hingað til hefur fjöldi orlofsdaga farið eftir aldri starfsmanna. Þeir sem eru yngri en 30 ára fá 24 orlofsdaga, þeir sem eru á aldrinum 30 ára til og með 37 ára fá 27 orlofsdaga og þeir sem eru 38 ára og eldri fá 30 orlofsdaga.
Kjarasamningar aðildarfélaga BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga er með gildistöku frá 1. janúar 2020 og frá þeim degi tók gildi breytt ávinnsla því gildi, verði kjarasamningur samþykktur. Ávinnslan hófst þannig 1. janúar 2020, sem þýðir að sumarið 2021 verða allir með 30 daga launað orlof.
Sumarið 2020 munu starfsmenn sveitarfélaga annarra en Reykjavíkurborgar eiga rétt á 30 orlofsdögum en þar sem ávinnslan breyttist um síðustu áramót munu þeir sem eru yngri en 30 ára eiga rétt á 26 launuðum orlofsdögum, þeir sem eru á aldrinum 30 ára til og með 37 ára eiga rétt á 28 launuðum orlofsdögum en eldri starfsmenn fá áfram 30 launaða orlofsdaga.
Kjarasamningar aðildarfélaga BSRB við ríkið og Reykjavíkurborg er með gildistöku frá 1. apríl 2019 en breytt ávinnsla orlofs hefst þó ekki fyrr en 1. maí 2020, verði kjarasamningur samþykktur. Frá og með sumrinu 2021 munu því allir starfsmenn ríkisins fá 30 launaðra orlofsdaga, en sumarið 2020 verður orlof óbreytt frá því sem það hefur verið hingað til.
Starfsmaður á rétt á að fá allt að 30 daga orlof, þar af 15 daga samfellda, á sumarorlofstímabilinu, sem telst vera frá 1. maí til 15. september. Sé orlof eða hluti þess tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, lengist sá hluti orlofsins um 25%. Það er því heimilt að taka orlof utan hins skilgreinda sumarorlofstímabils, en lenging fæst einungis í þeim tilvikum sem skrifleg beiðni yfirmanns liggur fyrir.
Orlofsuppbót
Orlofsuppbót á samningstímanum verður frá 50.000 til 53.000 kr., og hækkar þannig um 1.000 kr. milli ára.
Frestun orlofs
Samkvæmt lögum um orlof er óheimilt að flytja orlof milli ára. Hins vegar er heimilt að flytja orlof til næsta árs samkvæmt kjarasamningum við ríkið og Reykjavíkurborg ef starfsmaður gat ekki tekið orlof vegna skriflegrar beiðni yfirmanns síns. Þá verður öllum starfsmönnum sem voru annað hvort veikir eða í fæðingar- og foreldraorlofi á sumarorlofstímabilinu gert kleift að geyma sitt orlof til næsta árs.
Ef starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2019, allt að 60 daga, hefur ekki nýtt þá orlofsdaga fyrir 30. apríl 2023 falla þeir dagar niður. Orlof er til þess að tryggja hvíld og endurheimt starfsmanna. Þess vegna er stór áfangasigur að hafa fengið það í gegn að framvegis eigi allir rétt á 30 orlofsdögum og tryggt sé að þeir taki orlofið innan orlofsársins.