Kynning á kjarasamningum 2020 - Stytting vinnuvikunnar í vaktavinnu

Í kjarasamningum var samið um miklar breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks. BSRB og aðildarfélög þess hafa í fjölda ára verið með kröfu um að 80% vaktavinna sé 100% vinna og má segja að gengið hafi verið að þeim kröfum við samningaborðið nú, að minnsta kosti fyrir hluta vaktavinnufólks.

Breytingarnar eru umfangsmiklar og eru gerðar með heilsu, öryggi, jafnvægi vinnu og einkalífs starfsfólks og öryggi skjólstæðinga að leiðarljósi. Þá er breytingunum einnig ætlað að stuðla að því að meiri festa verði í starfsemi vaktavinnustaða í opinberri þjónustu og dregið verði úr þörf fyrir yfirvinnu.

 

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband þar sem farið er yfir helstu atriðin um þennan efnisþátt ásamt hlekk til að hlaða niður glærum sem farið er yfir í myndbandinu. Því er svo fylgt eftir með ítarlegri upplýsingum í textanum þar fyrir neðan.

 

 

Helstu þættir breytinganna

Vinnuvika vaktavinnufólks fer úr 40 tímum í 36. Þessi breyting gildir fyrir allt vaktavinnufólk. Fyrir vaktavinnufólk sem vinnur utan dagvinnutíma, um helgar og á nóttunni, er möguleiki á að stytta vinnuvikuna enn frekar, eða allt niður í 32 stundir. Breytingarnar verða gerðar án launaskerðingar.

Vaktaálag

Vaktaálag er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutíma. Vaktaálag á næturvöktum, á tímabilinu 00:00 til 08:00 er hækkað, þannig það verður 65% á virkum dögum og 75% um helgar. Vaktaálag á öðrum tímum verður óbreytt, þannig að fyrir kvöldvaktir greiðist 33% vaktaálag og fyrir helgarvaktir að degi og kvöldi til greiðist 55% álag.

Vægi vinnustunda

Nýr þáttur í vaktavinnu er að vægi vinnustunda verður ólíkt. Þannig telja stundir utan dagvinnutíma meira en stundir á dagvinnutíma. Fyrir klukkustund á helgar- eða kvöldvakt reiknast þannig 63 mínútur og fyrir klukkustund á næturvakt alla daga vikunnar reiknast 72 mínútur. Þetta má einnig útskýra með því að fyrir hverja klukkustund á vakt fáist annað hvort 3 mínútur eða 12 mínútur í afslátt af vinnuskyldu. Með þessu er vinnutími vaktavinnufólks sem vinnur utan dagvinnumarka styttur enn meira, niður fyrir 36 tíma og allt niður að 32 tímum. Miðað við 40 stunda vinnuviku, sem hefur verið í gildi í nærri hálfa öld, er 32 tíma vinnuvika 80% starf.

Vaktahvati

Önnur nýjung í launamyndun vaktavinnufólks er vaktahvati. Við útreikning vaktahvata er horft á fjölda vakta á launatímabili og fjölbreytileika vakta. Vaktir eru flokkaðar í fjóra flokka; dagvakt, kvöldvakt, helgarvakt (allur sólarhringurinn) og næturvakt (virka daga). Til þess að eiga rétt á vaktahvata þarf viðkomandi starfsmaður að mæta minnst 14 sinnum til vinnu í minnst tvo flokka vakta. Til þess að vaktir telji inn í flokk þurfa minnst 15 tímar að vera í hverjum flokki og starfsmaður þarf að auki að vinna minnst 42 tíma utan dagvinnumarka til að eiga rétt á vaktahvata.
Vaktahvatinn á að tryggja að vaktavinnufólk í fullu starfi lækki ekki í launum við breytinguna. Þá á hann einnig að hvetja til þess að vaktabyrði sé deilt á milli starfsmanna. Vaktahvatinn hvetur einnig til þess að vaktir séu skipulagðar með heilsu og öryggi starfsfólks að leiðarljósi, þ.e. dregið er úr hvata fyrir langar vaktir og stubbavaktir.

Vaktahvatinn er greiddur sem hlutfall af mánaðarlaunum samkvæmt eftirfarandi töflu.

Vaktahvatinn

(Prósent á dagvinnulaun ræðst af vaktabyrði)

Yfirvinna

Breytingar eru gerðar á yfirvinnu og eftir gildistöku breytinganna verður til yfirvinna 1 og yfirvinna 2. Yfirvinna 1, 0,9385% af mánaðarlaunum, er greidd milli kl. 8 og 17 á virkum dögum þar til starfsmaður hefur skilað 38:55 tímum í vinnu. Eftir það og á öðrum tímum sólarhringsins er greidd yfirvinna 2, sem er greidd sem 1,0385% af mánaðarlaunum.

Vonast er til þess að vinnutímabreytingar vaktavinnufólks hafi þau áhrif að dregið sé úr yfirvinnumenningu. Þau gæði sem vaktavinnufólk fær með breytingunni, t.d. vaktahvati og vægi vinnustunda, fylgja vinnuskyldu starfsfólks, en ekki aukavöktum.

Aðrar breytingar

Helgidagafrí

Flest vaktavinnufólk getur þurft að vinna alla daga ársins, þar með talið á stórhátíðum og rauðum dögum. Vegna þessa hefur vaktavinnufólk annað hvort getað fengið greidda bætingu eða fengið 11 daga vetrarfrí. Þessu verður breytt við gildistöku breytinganna. Bætingin verður felld niður og í stað 11 daga vetrarfrís sem ávinnst á ársgrundvelli og er tekið út á næsta almanaksári mun vaktavinnufólk fá jafn marga frídaga og dagvinnufólk. Þeir frídagar sem falla á virka daga skapa þannig frídaga fyrir vaktavinnufólk með sama hætti og dagvinnufólk, þó vaktavinnufólk geti e.t.v. ekki tekið frí á umræddum dögum. Úttekt frídaga sem skapast með þessum hætti verður einnig gerð sveigjanlegri. Fólk getur þannig tekið þá jafnóðum, eða óskað eftir því að safna þeim upp og taka marga í einu. Þetta gæti t.d. nýst vaktavinnufólki til þess að dekka vetrarfrí í skólum.

Rauðir dagar

Álag fyrir vinnu milli 16 á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld og fram til 8 að morgni jóladags og nýársdags verður hækkað í 120%. Aðrir rauðir dagar verða áfram greiddir á 90% álagi.

Markmið breytinganna

Heilsa, öryggi, jafnvægi vinnu og einkalífs

Markmið breytinganna eru fyrst og fremst að draga úr hættu á heilsutjóni vaktavinnufólks, auka öryggi starfsmanna og þjónustuþega og auka möguleika vaktavinnufólks að samþætta vinnu og einkalíf. Rannsóknir hafa sýnt að vaktavinnufólk er í aukinni áhættu á að fá ýmsa sjúkdóma. Þá hefur vinna á mismunandi tímum sólarhringsins slæm áhrif á svefn fólks og það getur haft í för með sér verri heilsu. Vinna á óreglulegum tímum gerir einnig fólki erfiðara fyrir að eiga félagslíf og fjölskyldulíf.

Hækkað starfshlutfall

Margar vaktavinnustéttir vinna þar að auki erfið störf, ekki síst í almannaþjónustunni. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastörf. Breytingarnar eiga að hafa það í för með sér að auðveldara verður fyrir fólk að vinna í hærra starfshlutfalli en áður Þegar vinnutímastyttingin tekur gildi verður öllum starfsmönnum í hlutastarfi boðið að hækka starfshlutfall sitt sem nemur vinnutímastyttingunni. Þetta hefur í för með sér launahækkun, í einhverjum tilvikum umtalsverða, og ævitekjur og á endanum lífeyrisgreiðslur vaktavinnustétta, ekki síst kvennastétta, hækka.

Kostnaður breytinganna

Stytting vinnutíma vaktavinnufólks er ólík styttingu vinnutíma dagvinnufólks. Hjá dagvinnuhópum er gert ráð fyrir því að starfsfólk og stofnanir geti yfirfarið verklag og endurskipulagt starfsemi með þeim hætti að ekki verði skerðing á þjónustu eða afköstum. Hjá vaktavinnustofnunum er augljóst að áfram verður að manna allar vaktir. Því myndast svokallað mönnunargat þegar stytting vinnutíma vaktavinnufólks tekur gildi. Launagreiðendur á opinberum markaði ætla að standa straum af þeim kostnaði sem af þessu hlýst, en hann getur verið töluverður. Með því að bjóða hlutastarfsfólki hækkað starfshlufall verður vonandi hægt að manna hluta þeirra stöðugilda sem losna.

Breytingarnar eru einnig fjármagnaðar með því að stokka upp þær greiðslur sem vaktavinnufólk hefur fengið hingað til og breyta þeim. Það má segja að þannig sé peningur tekinn úr hægri vasa vaktavinnustarfsmanns og settur í þann vinstri. Greiðslur fyrir kaffitíma (25 mínútur og 12 mínútur) falla niður. Starfsmönnum verður þó áfram gert kleift að neyta matar og taka hlé á vaktinni eftir sem áður. Greiðsla fyrir breytingar á vaktskrá og aukavakt með stuttum fyrirvara breytist einnig og til verður nýr launaliður sem heitir breytingagjald. Áður var þetta greitt með yfirvinnu. Þessar greiðslur lækka örlítið, en launagreiðendur hafa einnig heitið því að nýta þessi úrræði minna. Þannig var samið um að drög að vaktskrá liggi fyrir sex vikum fyrir fyrstu vakt og að endanleg vaktskrá liggi fyrir fjórum vikum fyrir fyrstu vakt.

Þessir fjármunir eru settir í greiðslu hærra vaktaálags, vaktahvata og vægi vinnustunda.

Gildistaka breytinga og eftirfylgni

Breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks taka gildi 1. maí 2021. Breytingar eru umfangsmiklar og krefjast mikils undirbúnings. Í einhverjum tilvikum getur þurft að breyta vaktafyrirkomulagi og vaktskrám. Þá verður starfsfólki boðið aukið starfshlutfall með góðum fyrirvara.

Ef í ljós kemur að heilir hópar starfsmanna koma illa út úr breytingunum, þannig að þeir hvatar sem kerfið skapar ná ekki til þeirra, verður tekið sérstaklega á þeim málum, með það að markmiði að starfsmenn lækki ekki í launum.

Samningsaðilar munu fylgja breytingunum vel eftir og verða reglulegar mælingar gerðar yfir samningstímabilið. Þannig á meðal annars að fylgjast með veikindafjarveru, launum, starfshlutföllum og starfsánægju starfsfólks.

Dæmi

Dæmi um styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu má finna í glærupakkanum hér að ofan og eru þau útskýrð í kynningarmyndbandinu. 

TIL BAKA Á KYNNINGARSÍÐU

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?