Almannatryggingar

Almannatryggingar eru hluti af öryggisneti velferðarsamfélagsins til að tryggja mannsæmandi lífskjör þeirra sem ekki hafa náð að safna nægilegum lífeyrissparnaði eða hafa misst starfsgetu vegna veikinda eða slysa. BSRB krefst þess að tekjutenging almannatrygginga og lífeyrisgreiðslna verði endurskoðuð. Það er grundvallaratriði að lífeyrir tryggi elli- og örorkulífeyrisþegum mannsæmandi lífskjör.

Tryggja þarf að greiðslur almannatrygginga fylgi launaþróun í landinu. Gera þarf breytingar á örorkulífeyriskerfinu til samræmis við ellilífeyriskerfið og gera fleiri örorkulífeyrisþegum kleift að stunda atvinnu með því að auka framboð af störfum með sveigjanleika og hækka frítekjumark örorkulífeyris. Mikilvægt er að fólki sé gert kleift að snúa aftur á vinnumarkaðinn eftir veikindi, slys eða önnur áföll. Reynslan frá bankakreppunni sýnir að fjárhagsáhyggjur og slæm fjárhagsstaða hafa verulega neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks. Afleiðingar þess eru lengi að koma fram en eru langvarandi og einn helsti orsakavaldur kulnunar og örmögnunar. Tryggja þarf að enginn sé dæmdur til fátæktar vegna skertrar starfsgetu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?