Almannatryggingar

Aukin gjaldtaka fyrir þjónustu hins opinbera er þróun sem verður að snúa við. Fyrir þarf að liggja skýr stefna stjórnvalda varðandi fyrir hvaða þætti velferðarþjónustunnar sé réttlætanlegt að innheimt sérstakt gjald fyrir.

Gera þarf grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu þar sem litið er til starfsgetu einstaklinga en ekki örorku þeirra. BSRB telur rétt að einfalda lífeyriskerfið, hverfa frá tekjutengingu bóta og lífeyrisgreiðslna og að lífeyrisþegar fái aukinn sveigjanleika til lífeyristöku. Það eru grundvallaratriði að lífeyrir tryggi elli- og örorkulífeyrisþegum mannsæmandi lífskjör.

Einfalda þarf almannatryggingakerfið og hafa það skilvirkara og notendavænna.

Þeir sem hafa tök á og treysta sér til að vinna hlutastarf á að vera gert kleift að gera það án skerðingar lífeyris. Aukinn sveigjanleiki í þá veru getur aðeins orðið til að bæta lífskjör og líðan fólks.

Mikilvægt er að fólki sé gert kleift að snúa aftur á vinnumarkaðinn eftir veikindi eða slys. Árangur VIRK-starfsendurhæfingarsjóðs hefur skilað umtalsverðum árangri í þeim efnum og ber að efla það góða starf enn frekar. VIRK hefur hjálpað miklum fjölda fólks að snúa aftur á vinnumarkaðinn og þannig aukið lýðheilsu fólks, stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku og sparað umtalsverða fjármuni.

Fjármunum sem varið er í starfsendurhæfingu skila sér margfalt til baka þegar árangurinn er sá að gera fólki kleift að taka þátt á vinnumarkaði. Hluti af þessu er að gera fólki kleift að stunda vinnu þrátt fyrir skerta starfsorku og þá er mikilvægt að bæta aðstöðu og aðgengi vinnustaða í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?