Heimilt að ráða aftur þrátt fyrir lausnarlaun

Það getur reynst fólki þungbært að vera synjað um starf eftir að hafa endurheimt heilsuna.

Starfsmaður sem hefur þurft að láta af störfum vegna veikinda og fengið lausnarlaun getur fengið starf hjá sama atvinnurekanda nái hann heilsu á ný, þrátt fyrir lausnarlaunin. Um það hefur verið deilt en nú hefur þessi skilningur BSRB verið staðfestur af dómstólum og með áliti umboðsmanns Alþingis.

Ef starfsmaður hefur lengi frá vegna veikinda og ekki er fyrirséð að hann nái aftur heilsu sinni innan tiltekins tíma getur verið farin sú leið að veita honum lausn frá störfum. Um slíkt gilda ákvæði kjarasamninga um lausnarlaun, en þá skal starfsmaður almennt halda föstum launum í þrjá mánuði og því hefur verið litið svo á að lausnarlaun jafngildi á sinn hátt launum í uppsagnarfresti, ef starfsmaður þarf að láta af störfum heilsu sinnar vegna.

Lausnarlaun geta komið til af þrennum ástæðum. Í fyrsta lagi ef starfsmaður hefur verið óvinnufær svo mánuðum skiptir á hverju ári á fimm ára tímabili og ekki er skýlaust vottað um að hann nái varanlegri heilsu. Í öðru lagi ef starfsmaðurinn hefur verið jafn lengi frá vinnu og hann átti rétt til launa í veikindum og í þriðja lagi ef starfsmaður óskar sjálfur eftir lausn frá störfum þar sem hann telst varanlega ófær um að gegna starfinu heilsu sinnar vegna.

Í sinni einföldustu mynd má segja að lausnarlaun séu leið vinnuveitanda og starfsmanns til þess að binda enda á ráðningarsambandið vegna óvinnufærni. Þannig getur vinnuveitandi veitt starfsmanni lausn, greitt honum þriggja mánaða lausnarlaun og ráðið annan starfsmann í hans stað.

Álitamál komið upp

Undanfarin ár hafa komið upp álitamál þar sem atvinnurekendur opinberra starfsmanna hafa talið lausnarlaun jafngilda því að starfsmenn geti ekki fengið aftur störf hjá sama eða öðrum opinberum atvinnurekanda, ef hann endurheimtir sína vinnufærni eftir veikindi. Þessu hefur t.a.m. verið haldið fram af sveitarfélögum og þau bent á að þetta sé túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga á lausnarlaunum.

Þessu hafa heildarsamtök opinberra starfsmanna mótmælt af hörku, enda yrði slíkt til þess fallið að skerða atvinnufrelsi og atvinnutækifæri starfsmanna og er auk þess afar ómálefnalegt. Undanfarin ár hafa þannig komið mál á borð stéttarfélaga innan BSRB þar sem starfsmönnum sem hafa áður þegið lausnarlaun, en síðar náð aftur fullri heilsu og vinnufærni, er tilkynnt að umsóknir þeirra um störf innan sveitarfélagsins verði ekki teknar til greina af þeirri ástæðu. Eins og gefur að skilja getur þetta verið afar þungbært fyrir atvinnuleitendur og þá sérstaklega í minni sveitarfélögum þar sem sveitarfélögin sjálf eru stórir vinnustaðir á svæðinu.

Nýlega dró til tíðinda í réttarframkvæmd hvað þetta álitamál varðar, annars vegar með áliti umboðsmanns Alþingis og hins vegar þegar dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli þar sem á þetta reyndi.

Í báðum tilvikum var um að ræða starfsmenn sem höfðu þegið lausnarlaun og var síðar, þegar þeir höfðu endurheimt heilsu sína, tjáð að atvinnuumsóknir þeirra yrðu ekki teknar til greina vegna starfs hjá sama atvinnurekanda. Í báðum tilfellum var um sveitarfélag að ræða. Af niðurstöðu beggja mála má fullyrða að búið sé að eyða þeirri óvissu hvort það að þiggja lausnarlaun vegna veikinda komi til með að hafa áhrif á réttarstöðu starfsmanna síðar, ef þeir endurheimta sína heilsu og hyggjast ætla að sækja um störf hjá sama eða öðrum opinberum atvinnurekanda. Þetta er afar ánægjulegt, enda hefur það reynst fólki afar þungbært að fá slíka höfnun eftir að hafa sigrast á sínum veikindum og endurheimt sína heilsu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?