Sífellt fleiri aldraðir á hvern heilbrigðisstarfsmann

Fróðleikur
Öldruðum fjölgar hlutfallslega hraðar hér á landi en í flestum nágrannaríkjum okkar.

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur dregið skýrt fram mikilvægi öflugs heilbrigðiskerfis, ekki bara í baráttunni við Covid heldur ekki síður almennt fyrir lífskjör og velmegun fólks. Ný spá sýnir að fjöldi aldraðra á hvern heilbrigðisstarfsmann muni aukast á næstu árum.

Því er spáð að í Evrópu muni öldruðum, fólki 65 ára og eldra, að baki hvers starfsmanns í heilbrigðis- og félagsþjónustu fjölga lítið eitt til ársins 2030 frá því sem var árið 2018. Að jafnaði eru nú um 5,4 aldraðir um hvern heilbrigðisstarfsmann í Evrópusambandinu í heild, en gert er ráð fyrir að þeir verði um 5,7 árið 2030. Mikill munur er þó á einstökum ríkjum hvað þetta varðar og eru mun færri aldraðir um hvern heilbrigðisstarfsmann um norðan- og vestanverða Evrópu en sunnar og austar í álfunni.

Um er að ræða greiningu sem unnin var af Cedefop, starfsmenntastofnun Evrópu. Annars vegar var lagt mat á þróun mannafla í þessum greinum, en svo virðist sem búast megi við aðhaldi í starfsmannafjölda í heilbrigðisþjónustu á komandi árum víðast hvar í Evrópu. Hins vegar er lagt mat á mannfjöldaþróun þar sem ljóst er að hlutfall aldraðra mun á sama tímabili fara hækkandi víðast hvar.

Öflugt heilbrigðiskerfi er ekki aðeins mikilvægt þegar tekist er á við heimsfaraldur á borð við COVD-19 heldur er það mikilvægur þáttur þegar kemur að lífskjörum og velmegun fólks. Cedefop er með þessari greiningu að ítreka mikilvægi þess að fjárfestingar í heilbrigðis- og félagsþjónustu verði í takt við þær lýðfræðilegu breytingar sem fyrirsjáanlegar eru. Vöxtur heilbrigðis- og félagsþjónustu hefur verið viðvarandi síðustu áratugi og má gera ráð fyrir að eftirspurn eftir þjónustunni muni vaxa áfram þó svo horfur séu á að ríki Evrópu vilji hægja á fjárfestingum í þessum geira atvinnulífsins. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að einna minnstar líkur eru á að störfum í heilbrigðis- og félagsþjónustu muni fækka vegna áhrifa af tæknibreytingum og þróun gervigreindar.

Öldruðum fjölgar hraðar hér á landi

Tölur fyrir Ísland benda til að staðan hér hafi verið svipuð og í öðrum ríkjum um norðan og vestanverða Evrópu hvað varðar fjölda aldraðra á hvern starfsmann heilbrigðis- og félagsþjónustu. Hins vegar er öldruðum að fjölga hlutfallslega hraðar hér á landi en í flestum nágrannaríkjum okkar. Því er sérstaklega mikilvægt að tekið sé tillit til þeirrar þróunar við ákvörðun um ráðstöfun fjármuna hins opinbera á komandi árum, svo við drögumst ekki aftur úr nágrannaþjóðum okkar í þessum efnum.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að samkvæmt nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir BSRB vill stærstur hluti þjóðarinnar, um 78 prósent, að hið opinbera verji meira fé til heilbrigðisþjónustu en nú er gert. Það er því ljóst að almenningur er mjög meðvitaður um þá þörf sem er fyrir bætta þjónustu heilbrigðiskerfisins og mikilvægi öflugs heilbrigðiskerfis fyrir lífskjör alls almennings í samfélaginu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?