Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn

Skoðun
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Nú þegar öllum ætti að vera ljóst mikilvægi þess að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi eftir áratuga niðurskurð dynur á heilbrigðisstarfsfólki umræða um þjónustuvæðingu, niðurskurð, stjórnleysi og skort á skilvirkni. Á þessu sama starfsfólki og staðið hefur vaktina í heimsfaraldrinum síðustu átján mánuðina og sýnt ótrúlega seiglu og fagmennsku þrátt fyrir á köflum ótrúlegt álag.

Við búum í markaðshagkerfi en það norræna módel sem við höfum byggt samfélag okkar á grundvallast á opinberri almannaþjónustu. Við getum verið samtaka í því að leyfa markaðinum að sinna þeim þörfum þar sem fólk hefur raunverulegt val en markaðsöflin eru alls ekki vel til þess fallin að sinna grundvallarþörfum fólks og tryggja andlegt og líkamlegt heilbrigði. Þar hefur fólk ekki raunverulegt val eða þekkingu til að velja á milli ólíkra kosta og það á enginn að græða á neyð fólks.

Það hefur verið mikil umræða um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni undanfarin ár. En hvers vegna ætli eigendur fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni séu svona áhugasamir um að auka hlutdeild sína í heilbrigðisþjónustunni?

Tveir erlendir sérfræðingar sem fjallað hafa um þetta nýverið gætu hafa komið með svarið við því. Í vor flutti Marta Szebehely, prófessor emeritus í félagsráðgjöf við Stokkhólmsháskóla, erindi á fundi ASÍ og BSRB og fór yfir umfangsmiklar rannsóknir sínar á áhrifum einkavæðingar öldrunarþjónustunnar í Svíþjóð. Sú þróun hefur leitt til hárrar hlutdeildar hagnaðardrifinna fyrirtækja og erlendra fjárfesta og afleiðingin er verri þjónusta til tekjulægra eldra fólks og verri kjör starfsfólks.

Á málþingi BSRB og ASÍ um heilbrigðismál í síðustu viku talaði Vivek Kotecha, endurskoðandi sem hefur rannsakað einkarekstur í breska heilbrigðiskerfinu, og sýndi með skýrum hætti að markmið eigenda hagnaðardrifinna fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu er ekki þjónustuvæðing heldur aukinn hagnaður til eigenda. Hagnaður sem gjarnan er byggður á skuldsetningu og verri kjörum starfsfólks. Hagnaður sem endar oft í skattaskjólum.

Skattfé notað til að greiða arð

Er þetta það sem við viljum? Að örfáir einstaklingar, innlendir eða erlendir fjárfestar, græði á því að þjónusta fólk sem þarf meðhöndlun vegna sjúkdóma eða slysa, eða á fólki sem þarf á þjónustu að halda á eldri árum? Viljum við nota skattfé landsmanna í að greiða arð í fyrirtækjum sem sinna þessari þjónustu? Eða höfum við mögulega eitthvað betra við skattpeningana að gera?

Fjöldi kannana sýnir að almenningur vill að heilbrigðisþjónustan sé fjármögnuð af opinberu fé og rekin af opinberum aðilum. Þetta á við um meirihluta kjósenda allra flokka. Það er því ljóst að það er rof á milli vilja kjósenda og stefnu flestra stjórnmálaflokka þegar kemur að heilbrigðismálum.

Áherslur stjórnmálanna einkennast af frösum en minna er fjallað um hvaða áhrif breytingarnar kunni að hafa á styrk og samhæfingarkraft heilbrigðiskerfisins, þjónustu við mismunandi hópa sjúklinga eftir búsetu, eftir tekjum og eftir tegund sjúkdóma. Og enginn hefur talað um áhrif á starfsfólk í þessu samhengi. Starfsfólk sem hér hefur staðið vaktina í eitt og hálft ár til að tryggja að við sem samfélag komumst heil í gegnum þennan heimsfaraldur.

Stjórnmálamenn skulda kjósendum svör

Þau sem keppast nú um atkvæði okkar skulda almenningi raunveruleg svör um hvernig þau ætla að skipuleggja þjónustuna. Einkarekstur og útvistun tiltekinna verkefna heilbrigðisþjónustunnar er ekki töfralausn. Stjórnunarkostnaður eykst, eftirlit er flókið og kostnaðarsamt og arðsemiskrafa leiðir til hærri kostnaðar. Þessi hækkun er á endanum greidd úr sameiginlegum sjóðum okkar eða eykur kostnað fyrir einstaklinga.

Þegar umræðan er öll á yfirborðinu er hætta á að stjórnmálamenn taki ákvarðanir án þess að fyrir liggi greining á áhrifum þessara ákvarðana á heilbrigðiskerfið til langs tíma. Við megum ekki falla í þá gildru að taka ákvarðanir með skammtímahagsmuni í huga heldur þarf að marka stefnu til lengri tíma þar sem meðal annars er lagt mat á kostnað, áhrif á notendur þjónustunnar og á starfsfólkið sem sinnir henni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?