Framtíðin á vinnumarkaði og hlutverk stéttarfélaga

Skoðun
Dagný Aradóttir Pind lögfræðingur og sérfræðingur í vinnurétti hjá BSRB

Í síðasta tölublaði tímarits Sameykis skrifaði Axel Jón Ellenarson greinina „Ertu giggari“ og hér er ætlunin að fjalla áfram um framtíðarvinnumarkaðinn. Höfundur er lögfræðingur og sérfræðingur í vinnurétti sem hefur starfað innan verkalýðshreyfingarinnar frá 2012, en einnig tekið að sér „gigg“ hér og hvar, meðal annars við rannsóknir á lagalegri umgjörð nýrra ráðningarforma. Þessi grein er þó alls ekki fræðigrein, heldur hugleiðingar og tilraun til að setja umræðuna í samhengi sem gagnast félögum í Sameyki og öðru baráttufólki fyrir réttindum vinnandi fólks.

Óskýrleiki hugtaka og bútasaumur
Persónur og leikendur á vinnumarkaði og tengdum kerfum, svo sem í almannatryggingakerfinu, eru margar og réttarheimildirnar sömuleiðis. Skilgreiningar á hugtökum eru ekki samræmdar milli ólíkra lagabálka og kjarasamninga, sem e.t.v. er eðlilegt í einhverjum tilvikum, en veldur því að flækjustigið getur verið mikið. Dæmi um hugtök sem finnast í löggjöf eru launþegi, lífeyrisþegi, launamaður, starfsmaður, sjálfstætt starfandi einstaklingur, verkamaður, verkafólk, opinber starfsmaður, starfsemi og stéttarfélög. Við lögfræðingar eigum það til að flækja einföldustu hluti. Það er þó ekki bara við okkur að sakast, það er mikil saga þarna sem við verðum að bera virðingu fyrir. Réttarbætur sem samstaða og barátta stéttarfélaga hefur skilað okkur og fólk óttast eðlilega að missa. En það er ekki hægt að neita því að löggjöfin okkar er ansi mikill bútasaumur. Eitthvað varð til eftir baráttu og kjaradeilur og stendur óhreyft, annað kom í gegnum EES samninginn og sumt hvílir á gömlum grunni og hefur verið uppfært í takt við þarfir nútímans.

Íslenskur vinnumarkaður byggir á ákveðinni tvíhyggju þegar kemur að því að skilgreina fólk sem hefur lífsviðurværi sitt af því að vinna fyrir aðra. Annað hvort ertu launamanneskja eða þá sjálfstætt starfandi. Ef þú ert sjálfstætt starfandi er eiginlega bara litið á þig sem fyrirtæki. Þú semur sjálf/ur/t um þín kjör við atvinnurekandann með verksamningi og færð ekki þau réttindi sem felast í ráðningarsambandi, bæði hjá atvinnurekanda og í félagslegum kerfum. Í sumum tilvikum getur þetta verið hið besta mál fyrir alla aðila, en þegar um gerviverktöku er að ræða er það ekki svo. Í einfölduðu máli má útskýra gerviverktöku þannig að það er samningssamband sem að forminu til er verktakasamband en í raunveruleikanum er það samband sem líkist meira ráðningarsambandi.

Samkeppnisréttur ekki heilagur réttur
Ég hef upplifað að það gætir ákveðinnar tregðu hjá stéttarfélögum að taka umræðu um réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga. Það er vel skiljanlegt. Sjálfstætt starfandi fólk er oftast ekki í stéttarfélagi. Fleira kemur til. Ef flækjustigið var ekki nægilega mikið með alla vinnumarkaðs- og félagslegu löggjöfina þá þarf að bæta samkeppnisréttinum við líka. Í fyrra starfi hef ég sjálf átt umræðu við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins um réttindi ákveðinna hópa sjálfstætt starfandi einstaklinga. SA voru fljót að grípa í samkeppnisspilið, ólöglegt verðsamráð, og vísuðu í úrskurði Samkeppniseftirlitsins. Á þeim tíma var ég bara hrædd við samkeppnisrétt, því ég hafði eiginlega aldrei lært hann. Að sama skapi var forysta stéttarfélagsins sem ég vann hjá á þeim tíma hikandi í umræðu um réttindi sjálfstætt starfandi, því mörg þeirra voru ekki meðlimir í félaginu, þannig það varð ekkert úr neinu á þeim tíma. Þetta eru nokkur ár síðan og ég hef lært margt síðan þá. Meðal annars að samkeppnisréttur er ekkert heilagur frekar en önnur réttarsvið og það er skörun á milli hans og vinnuréttarins. Það er líka þróun í þessari skörun úti í Evrópu, í átt að betri réttindum fyrir gerviverktaka, en sáralítil umræða hér heima, nema þá á forsendum atvinnulífsins. Giggið sé framtíðin o.s.frv., eins og Axel Jón gagnrýndi svo vel í síðasta tölublaði.

Gerviverktakar í sjálfheldu
Vandi sjálfstætt starfandi einstaklinga er margþættur og hættan á að falla á milli kerfa er raunveruleg. Eitt stærsta vandamálið er þó skortur á samstöðunni sem við sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar vitum að er okkar helsti styrkur. Fólk sem starfar í gerviverktöku á allt sitt undir því að fá greitt frá atvinnurekanda og hættan á að missa lífsviðurværið er alltaf yfirvofandi ef viðkomandi ruggar bátnum, krefst úrbóta í vinnuumhverfi eða kjarabóta. Einstaklingur getur í flestum tilvikum ekki staðið á móti stóru fyrirtæki eða stofnun. Það sama gildir um hóp af einstaklingum sem eru í verktakasambandi við sama aðila.

Ég er ekki með svarið við því hvernig stéttarfélögin, og þá hvaða stéttarfélög, eiga að huga að réttindum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Það þurfa stofnanir þeirra og forystufólk að ákveða. Við eigum dæmi úr sögunni að reynt hafi verið að nota réttarkerfið til þess að tryggja réttindi svona hópa í gegnum Félagsdóm, allavega tvö úr röðum BSRB félaga, og í hvorugt skiptið tókst það. Þau mál eru frá 1975 og 1995, þannig að kannski er kominn tími til að reyna aftur. Það má einnig hugsa sér ýmis konar lagabreytingar til að styrkja stöðu þessara hópa og eru ýmis fordæmi sem við getum litið til frá Norðurlöndum sem dæmi. Það er mín trú að þessi vandi verði ekki lagaður nema með samstöðu, og það er einmitt okkar styrkur. Við verðum að vernda okkar réttindi en líka að huga að þeim sem hafa ekki þau réttindi sem okkur hafa auðnast.

Greinin birtist nýjasta tölublaði tímarits Sameykis


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?