Hverjir leiða launaþróunina?

Skoðun
Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ (t.v.), Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Hvernig getur það staðist að opinberir starfsmenn hafi verið leiðandi í launaþróun síðasta árið eins og ítrekað hefur verið haldið fram undanfarið? Svarið við spurningunni er einfalt. Það getur ekki staðist, enda er það ekki rétt.

Hið rétta er að þeir sem leiða launaþróun í landinu eru starfsmenn á almennum vinnumarkaði í gegnum lífskjarasamningana. Eitt af megin markmiðum þeirra samninga var að bæta kjör þeirra lægst settu með krónutöluhækkunum. Það var einnig markmið fjölmargra stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem sömdu í kjölfarið. Það er sérstaklega ánægjulegt að þetta markmið hafi náðst. Laun lægstlaunuðustu félagsmanna okkar hafa hækkað hlutfallslega meira en laun þeirra sem hærri hafa tekjurnar, rétt eins og að var stefnt.

En af hverju er því þá haldið fram að opinberir starfsmenn leiði launaþróun í landinu? Ástæðan er einföld. Starfsfólk ríkis og sveitarfélaga eru almennt á lægri launum en starfsfólk á almennum markaði. Vegna krónutöluhækkana mælist hækkunin hlutfallslega meiri hjá opinberum starfsmönnum vegna þess að fleiri eru á lægstu laununum en á almenna markaðinum.

Stytting vinnuvikunnar á einnig sinn þátt í því að laun virðast hafa hækkað meira á opinberum vinnumarkaði. Skýringin liggur í því hvernig launavísitalan er reiknuð, ekki því að laun hafi hækkað. Vísitalan mælir tímakaup reglulegra launa og hækkar því þegar vinnustundum fækkar. Því er hluti af þeim hækkunum sem mælast hjá opinberum starfsmönnum ekki að skila fleiri krónum í budduna.

Lygin verður ekki sannleikur, sama hversu oft hún er endurtekin. Þeir sem kynna sér málið sjá að fullyrðingar um að opinberir starfsmenn leiði launaþróun í landinu eru rangar. Hið rétta er að það er verulegur og vel þekktur kerfislægur launamunur milli markaða, opinberum starfsmönnum í óhag. Það verður verkefni næstu missera að uppræta þann mun.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
Friðrik Jónsson, formaður BHM
Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?