Kjarasamninga strax!

Skoðun
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Í dag hefur þorri opinberra starfsmanna verið án kjarasamnings í tíu mánuði. Í tíu mánuði hafa viðsemjendur reynt á þolinmæði okkar sem staðið höfum í kjaraviðræðum við ríki og sveitarfélög og dregið það að ganga til samninga við sína starfsmenn.

Við höfum sýnt mikla þolinmæði enda meðal annars tekist á um mestu breytingar á vinnutíma í hálfa öld vegna kröfu BSRB um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. En nú er þolinmæði samninganefnda og félagsmanna endanlega þrotin. Við látum ekki bjóða okkur það lengur að viðsemjendur okkar dragi lappirnar dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.

Í dag klukkan 17 koma félagar úr BSRB, Bandalagi háskólamanna og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga saman á baráttufund í Háskólabíói. Á sama tíma hittast félagar okkar víða um land á fundum í sínum sveitarfélögum.

Við finnum reiðina vegna þeirrar vanvirðingar sem bæði ríkið og sveitarfélögin í landinu hafa sýnt okkar félagsmönnum með því að ganga ekki hreint til verks og ljúka gerð kjarasamnings fljótlega eftir að þeir losnuðu.

Samstaðan hefur skilað íslensku launafólki mögnuðum sigrum í gegnum tíðina. Við höfum þurft að berjast fyrir öllum mikilvægustu kjarabótunum sem við teljum sjálfsagðar í dag. Ef við þurfum að taka enn einn slaginn til að landa kjarasamningum sem okkar félagsmenn geta sætt sig við þá tökum við þann slag.

Á baráttufundum dagsins munum við ræða stöðuna og hvernig við ætlum að bregðast við því skeytingarleysi sem við höfum upplifað af hálfu viðsemjenda. Við ætlum að sýna ríkisstjórninni og sveitastjórnum að okkur er fullkomin alvara. Dugi það ekki til þess að knýja viðsemjendur okkar til samninga eru næstu skref augljós. Aðildarfélög okkar eru þegar farin að huga að boðun verkfalla sem geta lamað almannaþjónustuna verði ekki samið.

Við skorum á alla að vera með okkur á baráttufundum í Háskólabíói og víða um land klukkan 17 í dag. Sýnum samstöðuna! Kjarasamninga strax!

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu í dag.

Nánar um baráttufundi 30. janúar 2020.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?