Stærsta ógnin – besta lausnin

Skoðun
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB.

Hamfarahlýnununin sem nú er hafin er stærsta ógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir og við höfum innan við tíu ár til að grípa til róttækra aðgerða til að forðast skelfilegar afleiðingar. Þær munu hafa áhrif á orkunotkun, framleiðsluferla, vinnumarkaðinn og neysluvenjur. Samtök launafólks verða því að koma að stefnumótun loftslagsaðgerða sem munu hafa áhrif á launafólk og almenning.

Með réttlátum umskiptum (e. Just Transition) tryggjum við hagsmuni launafólks og almennings þegar farið verður í lífsnauðsynlegar breytingar og sköpum þar með betri sátt um þær. Í einföldu máli snúast réttlát umskipti um að hámarka áhrif loftslagsaðgerða til að ná kolefnishlutleysi en lágmarka neikvæð áhrif þeirra á launafólk og almenning.

Sköpun grænna og góðra starfa þýðir að störfin séu launuð með sanngjörnum hætti, starfsfólkið njóti vinnumarkaðstengdra réttinda og geti haft áhrif á starfsaðstæður sínar. Gera þarf fólki kleift að efla þekkingu sína og færni fyrir ný eða breytt störf vegna loftslagsaðgerða og sjálfvirknivæðingar.

Þegar hagrænum hvötum er beitt þarf að gæta að því að fólk í lægri tekjuhópum beri ekki hlutfallslega þyngri byrðar. Slíkar aðgerðir kunna að vera nauðsynlegar en þá þarf að beita mótvægisaðgerðum sem geta falist í því að ríki fjárfesti í sambærilegum loflagsvænum lausnum í stað þeirrar sem verið er að skattleggja eða nýti hluta af tekjum af loftslagssköttum í beingreiðslur til heimila sem álögurnar lenda harðast á.

BSRB, ASÍ og BHM gáfu nýverið út skýrslu um réttlát umskipti þar sem lagt er til að stofnaður verði formlegur vettvangur aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að móta stefnu og aðgerðir fyrir réttlát umskipti og fylgja þeim eftir. Við megum engan tíma missa og verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr losun án þess að ógna afkomu- og atvinnuöryggi launafólks.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?