Stjórnvöld eru á rangri braut

Skoðun

Stjórnvöld eru á rangri braut með áformum um aukna einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og aukinni kostnaðarþátttöku stórs hluta sjúklinga. Þetta sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í ræðu sinni á 1. maí í Hafnarfirði í dag.

Elín gagnrýndi í ræðu sinni það fjársvelti sem heilbrigðiskerfið, hvort sem það er heilsugæslan eða Landspítalinn, hafa þurft að búa við.

„Ný rannsókn prófessors Rúnars Vilhjálmssonar á heilsu og lífsháttum Íslendinga gefur sterkar vísbendingar um að gjaldtakan í heilbrigðiskerfinu hefti aðgengi tiltekinna hópa að þjónustunni. Niðurstöður hans sýna að of stór hópur Íslendinga frestar því að leita sér læknisaðstoðar, jafnvel þótt hann telji sig þurfa á slíkri þjónustu að halda. Stöðugt fleiri nefna kostnað sem ástæðu þess að þeir leita ekki til læknis. Við slíkt ástand verður ekki unað,“ sagði Elín Björg.

Enginn að biðja um aukna einkavæðingu
Hún benti á að stjórnvöld hafi nú kynnt tvennar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Annars vegar þak á greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu, sem mun að óbreyttu kalla á stóraukna gjaldtöku af stórum hluta þjóðarinnar. Hins vegar ræddi hún um þá ákvörðun stjórnvalda að þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu verði einkareknar.

„Ég hef ekki orðið vör við að fólkið í landinu sé að biðja um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og því síður að það óski eftir að greiða meira fyrir læknisþjónustuna,“ sagði Elín.

„Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýna að félagsleg heilbrigðiskerfi eru skilvirkari en önnur heilbrigðiskerfi. Þau skila, með öðrum orðum, almenningi betri lýðheilsu fyrir lægri heildarkostnað. Þessar niðurstöður segja okkur að stjórnvöld eru á rangri braut. Gjaldfrjáls aðgangur allra að grunnþjónustunni verður að vera tryggður og það er eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar að sjá til þess að svo verði.“

Óásættanlegt að nota skattaskjól
Elín gagnrýndi harðlega þá sem fela eigur sínar í skattaskjólum, þar sem megin tilgangurinn sé að fela eignarhald og komast hjá því að greiða skatta. „Við sættum okkur ekki við að þeir sem mest hafa geti ráðið því sjálfir hvort þeir ætla að greiða skatta til velferðarsamfélagsins, með okkur hinum, eða fela fjármuni sína í skattaskjólum á sólríkum Suðurhafseyjum,“ sagði Elín.

Við sýndum það svo sannarlega í verki – 22.000 manns mættu til mótmæla á Austurvelli. Krafan um breytingar gekk eftir, að einhverju leyti, þökk sé samstöðunni. En betur má ef duga skal. Fréttir af skattaleynd og undanskotum eru ekki til þess fallnar að auka traust okkar á ráðmönnum."

Arður auðlindanna fari í að styrkja innviðina
Elín sagði það skýra kröfu að uppsveiflan sem nú ríki á Íslandi skili sér í aukinni velferð fyrir alla. Komast þurfi en nær þeim lífsgæðum sem þekkist á honum Norðurlöndunum.

„Til þess að það markmið náist er ein meginkrafa okkar að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Arður auðlindanna á að nýtast þjóðinni allri, til að styrkja innviðina. Reka á skattkerfið, og um leið velferðarkerfið, með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum,“ sagði Elín.

„En það þarf meira til. Við verðum að gera kröfu um að fyrirtæki og félög sem hafa svigrúm til að hækka verulega arðgreiðslur skili einnig sköttum til samfélagsins í takt við stærð sína. Það er grundvallarkrafa að þeir efnameiri leggi meira til samfélagsins og sýni samfélagslega ábyrgð.“

Foreldrar sligast af álaginu
Elín fór í ræðu sinni yfir áherslur BSRB um fjölskylduvænna samfélag. „Krafan felur í sér bætt fæðingarorlofskerfi og samfellu í dagvistun barna að loknu fæðingarorlofi, styttingu vinnuvikunnar og aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði miðað við þarfir einstaklinganna og síðast en ekki síst er krafan að fjölskyldur búi við öryggi í húsnæðismálum. Fjölmargar rannsóknir sýna að íslenskir foreldrar eru að sligast undan álaginu af samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og því er þörf á breytingum,“ sagði Elín.

Hún benti á að íslenskir foreldrar hafi mun lakari réttindi í fæðingarorlofi en foreldrar á Norðurlöndunum, auk þess sem heildstæða stefnu um dagvistun að loknu fæðingarorlofi skorti. Hún nefndi einnig þá kröfu að fjölskyldur geti búið við öryggi í húsnæðismálum.


Ræðu Elínar Bjargar má lesa í heild sinni með því að smella hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?