Stormur í grunnþjónustunni

Skoðun
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og 1. varaformaður BSRB

Sjónvarpsþættirnir Stormur sem sýndir eru á RÚV segja sögu COVID-19 heimsfaraldursins. Þeir eru ákaflega vel gerðir en höfundar þeirra eru Sævar Guðmundsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Anna Karen Kristjánsdóttir og Brynja Gísladóttir. Þau hafa gert merkilega sögulega heimildarþáttaröð um baráttuna í heimsfaraldrinum þar sem einblínt er á mannlega hlið faraldursins og sagt frá sorgum og sigrum í baráttu þjóðarinnar við að hemja útbreiðslu veirunnar sem setti heimsbyggðina á hliðina.

Það er átakanlegt að horfa á þættina, verða vitni að því álagi sem starfsfólk í grunnþjónustunni tekst á við og þá óvæntu erfiðleika sem fylgdu þessum vágesti sem veirufaraldurinn skapaði hér á landi. Margt af því fólki fór út að brún þess sem hægt er að leggja á einstaklinga við slíkar aðstæður – og margt fólk sem starfar í grunnþjónustunni verður eflaust lengi að jafna sig eftir slíkan storm. Heilbrigðiskerfið er sannarlega ekki búið að jafna sig.

 

 

Heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir grunnþjónustunni við almenning er hversdagshetjur sem búa við fjársvelt heilbrigðiskerfi, fjársvelta grunnþjónustu.

Í þáttunum sjáum við fólk sinna störfum sínum af slíkri alúð að auðvelt er að fyllast aðdáun í aðstæðum sem ekki er leggjandi á nokkurt fólk. Það sinnir sínum störfum vegna þess að því er ekki sama um annað fólk, en ekki vegna þess að aðbúnaðurinn er svo góður né að laun þess eru svo góð, heldur vegna þess að því er ekki sama um aðra og vill leggja sitt af mörkum til að hjálpa sjúkum og öðrum þeim sem þurfa á hjálp að halda.

Þó logn sé skollið á í heimsfaraldrinum er enn stormur í heilbrigðiskerfinu. Stormurinn sem hlífir engu í fjársveltum innviðum þar sem krafa dagsins er niðurskurður og samdráttur. Uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart málaflokknum er algjör. Við vitum að sú stefna að fjársvelta heilbrigðisstofnanir er sett á til að einkavæða heilbrigðiskerfið og skapa eitt fjársvelt heilbrigðiskerfi fyrir almenning og annað einkarekið heilbrigðiskerfi fyrir þá ríku – á spena ríkissjóðs í gegnum þjónustusamninga, síhækkandi þjónustugjöld og greiðsluþátttöku almennings.

Þennan storm þarf að berjast við af öllu afli. Stormurinn er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem fer sem fellibylur um grunnkerfin sem þjóðin þarf að reiða sig á. Íslendingar vilja verja grunnþjónustuna; heilbrigðiskerfið, menntakerfið, hjúkrunarheimili og veitukerfin sem sjá almenningi fyrir rafmagni og vatni – en ríkisstjórnin er ekki á sama máli og þjóðin. Það blasir alls staðar við. Ríkisstjórnin leggur auknar álögur á lág- og millitekjufólk og ætlar með þeim hætti að reka innviðina, á meðan hún sækir ekki auknar tekjur fyrir ríkissjóð til að standa undir skrælnuðum innviðum. Hún forðast að taka ábyrgð í ríkisfjármálunum og sækja auknar tekjur með sanngjörnum sköttum á þá ofurríku sem greiða sér háar fjármagnstekjur með lágum skattgreiðslum. Öllu fjármagni er komið í skjól á meðan almenningur berst á móti storminum í kapítalískum veruleika og ríku sérhagmunaöflin skeyta engu um velferð þjóðarinnar, rétt eins og ríkisstjórnin.

Eina leiðin út úr þessum stormi er í gegnum öfluga baráttu almennings og samstöðu stéttarfélaga landsins. Launafólk á Íslandi starfar í veruleika sem hinir ríku og valdhafar þeirra þekkja ekki til nema af afspurn og virðist í ofanálag vera alveg saman um.

Kröfur þjóðarinnar um velferðarríkið og réttláta skiptingu auðsins eru sá stormur sem ríkisstjórnin ætlar að lægja með þekktum aðferðum. Það á að kæfa niður þær kröfur sem gerðar eru til velferðarríkisins. Ríkisstjórnin talar um að við þurfum að standa saman. Hún undanskilur í þeirri samstöðu stórfyrirtækin sem velta verðbólgunni út í verðlagið, hún undanskilur stórútgerðina sem nýtur þess að moka inn milljörðum króna í hagnað af sjávarútvegsauðlindinni, hún undanskilur fjármagnseigendur, hún undanskilur bankana, hún undanskilur þá sem lifa í allt öðrum veruleika sem ríkisstjórnin hefur skapað þeim.

Sameyki berst áfram gegn þessari aðför að grunnþjónustunni í landinu og krefst þess af stjórnvöldum að þau taki ábyrgð og lægi storminn með því að auka og stækka tekjustofna ríkisins á sanngjarnan hátt, verndi grunnþjónustuna og efli velferðarkerfið.


Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og 1. varaformaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?