Styttri vinnutími eða sveigjanlegri?

Skoðun
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Þegar rætt er um styttingu vinnuvikunnar er hugmyndum um sveigjanlegan vinnutíma gjarnan stillt upp sem einhverskonar andsvari. Með því er litið fram hjá því að stytting vinnuvikunnar hefur það meðal annars að markmiði að búa til skýran ramma um sveigjanleika vinnutímans.

Eitt af meginmarkmiðunum með kröfunni um styttingu vinnuvikunnar er að minnka streitu og gera starfsfólki kleift að samþætta betur vinnu og einkalíf. Rannsóknir sýna fram á að eftir því sem fólki gengur betur að samþætta fjölskyldulífið og vinnuna því sáttara er það við líf sitt. Það hefur því bein jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu.

Í raun ætti að vera sjálfsagt á flestum vinnustöðum að bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma. Það er einfaldlega liður í góðri stjórnun og eitt af því sem hefur mikil áhrif á líðan starfsmanna. Í dag búa fjölmargir við slíkan sveigjanleika en á sama tíma verður til ákveðin misskipting. Bent hefur verið á að störfin okkar eru ólík, í sumum er krafist mikillar viðveru á vinnustað á meðan starfsmenn í öðrum störfum, jafnvel inni á sama vinnustað, geta notið meiri sveigjanleika. Almennt er það þannig að þeir sem eru með menntun njóta meiri sveigjanleika og karlar njóta meiri sveigjanleika á sínum vinnustöðum en konur.

Þetta má mæla með ýmiskonar rannsóknum en í raun er þetta augljóst. Starfsfólk grunnskóla og leikskóla sér til dæmis vel að þegar foreldrum er boðið í heimsókn í skólana er áberandi að einstæðir foreldrar, foreldrar á lágum launum og foreldrar af erlendum uppruna hafa sjaldnast tækifæri til að taka þátt þar sem þeir geta ekki komist úr vinnu. Þetta er eitt dæmi af mörgum hvernig misskiptingin birtist okkur og rannsóknarefni hvaða áhrif hún hefur á foreldra sem börn.

Tvöfalt lengur að vinna upp skreppið

Hugmyndin um sveigjanleika í vinnutíma er ekki ný af nálinni . Nýjustu rannsóknir sýna að aukinn sveigjanleiki hafi almennt í för með sér að mörkin milli vinnu og heimilis verði sífellt óskýrari vegna þess að fólk er í auknum mæli að vinna heima og þarf að skreppa til að sinna fjölskylduerindum á vinnutíma.

Þannig eyða þeir sem skreppa á vinnutíma að jafnaði tvöfalt lengri tíma en þeir notuðu til að skreppa í að vinna upp það sem á vantar. Þetta leiðir til aukinnar streitu fyrir bæði einstaklinginn og heimilið. Þátttakendur í tilraunaverkefnum hjá ríkinu og Reykjavíkurborg hafa sérstaklega nefnt hversu mikill léttir það hefur verið að ekki þurfi að nota kvöld eða helgar til að vinna upp glataðar vinnustundir eftir að hafa þurft að skreppa. Að sama skapi upplifa stjórnendur að skreppið heyri sögunni til og starfsmenn nái að afkasta það sama á styttri vinnutíma.

Staða einstæðra foreldra í tengslum við samræmingu fjölskyldu og vinnu hefur einnig lítið verið skoðuð hér á landi. Einstæðir foreldrar eiga erfiðast með að ná endum saman og eru líklegri til að vera á leigumarkaði en allir aðrir hópar. Til að reyna að draga úr streitu og álagi eru þeir líklegri til að láta heimilisstörfin sitja á hakanum, sinna síður tímafrekum tómstundum barna sinna og gefa sér lítinn sem engan tíma fyrir sig sjálf. Stytting vinnuvikunnar myndi án efa gagnast einstæðum foreldrum betur en sveigjanlegur vinnutími.

Sveigjanleiki í vinnutíma er á forsendum atvinnurekanda frekar en launafólks enda þarf þá að óska eftir leyfi fyrir hvers kyns fjarveru og misjafnt hverjir fá að njóta þess. Óskir launafólks um styttri vinnuviku er á þeim forsendum að hægt sé að vinna skilvirkar innan vinnuvikunnar og þannig skapa skýran ramma um sveigjanleika sem tryggir jafnræði og gerir fólki kleift að láta púsluspil hversdagsins ganga upp.

Erum ekki bara vélar

Þátttakandi í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar rammaði þetta ágætlega inn: „Þetta er ákveðin virðing fyrir manneskjunni. Að við séum ekki bara vélar sem að vinna alveg bara... alveg fulla daga sko. Svo bara sofa og mæta aftur í vinnu. Við erum persónur og höfum okkar einkalíf […], hobby og líkamsrækt og fjölskyldu.“

Höfum við ekki öll þörf fyrir okkar einkalíf, tíma til að sinna áhugamálum, líkamsrækt og fjölskyldu? Höfum við ekki öll gott af því að stytta vinnuvikuna?

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?