Verkalýðshreyfingin skipti sér af umhverfismálum

Skoðun
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB.

Umræðan um loftslagsmál er gjarnan nokkuð flókin og stundum reynist erfitt fyrir okkur leikmennina að átta okkur á samhengi hlutanna. Vísindin að baki loftslagsmálum eru margslungin og svo er ýmislegt varðandi tölfræði skuldbindinganna um að draga úr losun sem er vægast sagt ruglingslegt.

Einfalda útskýringin á loftslagsbreytingum er að frá iðnvæðingu hefur hitastig á jörðinni hækkað að meðaltali um rúmlega 1 gráðu orkuframleiðslu úr jarðefnaeldsneyti (kol, olía og gas) og breyttrar notkunar á landi. Það hljómar ekki mikið en afleiðingarnar eru gífurlegar. Hlýnunin og sterkari stormar sem henni fylgja hafa nú þegar valdið mun skæðari skógareldum eins og til dæmis í Ástralíu, Kaliforníu, á Norðurslóðum og í regnskógum Suður-Ameríku. Æ fleiri heimili verða eldum að bráð og í skógareldunum í Ástralíu fyrir tæpu ári síðan dóu, eða misstu heimkynni sín, yfir þrír milljarðar dýra.

Sjávarborð hækkar vegna bráðnunar heimskautaíss og jökla og fjöldi eyríkja munu verða óbyggileg þegar á þessari öld. Aukinn veðurofsi með sterkari vindum og meira regnmagni veldur eyðileggingu á landi og ýmsum veitukerfum. Hvert hitametið á fætur öðru fellur og því fylgja þurrkar sem valda vatnsskorti og uppskerubresti sem bitnar ekki síst á íbúum fátækustu ríkja jarðar.

Tugmilljónir jarðarbúa hafa þegar orðið að flýja heimkynni sín, langflestir í Suðaustur Asíu og Afríku en einnig í Norður og Suður Ameríku og Evrópu. Ísland fer auðvitað ekki varhluta af breytingunum. Fyrsti jökullinn er horfinn, Okið, flóð úr lóni sem myndaðist vegna þess að Langjökull er að hopa olli aurskriðu í Hvítá með alvarlegum afleiðingum fyrir lífríki í ánni og umhverfi hennar og svo felur hlýnun og súrnum sjávar í sér beina ógn til lengri tíma við undirstöðuatvinnugrein landsins, sjávarútveg.

Loftslagsbreytingar eru því orðnar hluti af daglegum veruleika okkar en ekki bara eitthvað ástand sem kann að skapast í framtíðinni. Vísindafólk hefur lengi varað við þessum breytingum, alþjóðastofnanir hafa brugðist við en hin almenna stjórnmálaumræða hefur leitt þessi mál hjá sér að mestu þangað til nú á allra síðustu árum. Hér á Íslandi voru sett lög um loftslagsmál árið 2012 en fyrsta raunverulega aðgerðaáætlunin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda var ekki gerð fyrr en 2018. Hún var svo uppfærð vorið 2020 og er sú áætlunin mjög vel unnin og fjallar með skýrum hætti um markmið íslenskra stjórnvalda til að draga úr losun og þær 48 aðgerðir sem eiga að stuðla að þeim markmiðum.

Hvað þarf Ísland að gera?

Ísland setur sér markmið í samræmi við Parísarsáttmálann frá 2015 og er í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg. Samkvæmt því á Íslandi að draga úr losun um 29 prósent fram til ársins 2030 miðað við losunina eins og hún var árið 2005. En Ísland hefur ákveðið að ganga lengra og minnka losun um 40 prósent fram til 2030. Ástæðan er sú að þjóðir heimsins, sérstaklega þær ríkari, þurfa að draga mun meira úr losun en samið var um í Parísarsáttmálanum.

Markmið sáttmálans er að hækkun hitastig jarðar verði undir 2 gráðum og að leitast verði við að halda henni undir 1,5 gráðum. Ísland ætlar því að ganga lengra svo að við leggjum okkar af mörkum til að hækkun hitastigs verði undir 1,5 gráðum. Það er mjög mikilvægt því við vitum nú hvað hækkun um 1 gráðu veldur miklu tjóni. Afleiðingar af meiri hlýnun munu því hafa gríðarlega neikvæð áhrif á samfélagið, vistkerfið og efnahaginn. Ef þjóðir heims nýta næstu 10 árin ekki vel mun hlýnun jarðar að öllum líkindum fara vel yfir 2 gráður. Slík hlýnun hefði skelfilegar afleiðingar.

Það er auðvelt að tapa áttum í þessari upptalningu og samt er bara hálf sagan sögð. Sú losun sem vísað er í hér að ofan er það sem kallað er losun á beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Um þriðjungur hennar kemur frá vegasamgöngum, fimmtungur frá landbúnaði, tæpur fimmtungur frá fiskiskipum og tíundi partur frá úrgangi svo það helsta sé talið. Þess vegna er verið að fjölga rafmagnsbílum og hleðslustöðvum og fjárfesta í uppbygginu almenningssamgangna en það eru þær aðgerðir sem við almenningur verðum helst var við. Dregið hefur úr losun frá úrgangi en lífrænn úrgangur sem er urðaður losar enn mikið. Þess vegna skiptir miklu máli að draga úr matarsóun. Þó fiskiskipaflotinn losi mikið hefur náðst að draga úr losun í greininni vegna fækkunar skipa og tæknibreytingar. Það sama verður ekki sagt um landbúnað en langmesta losunin þar kemur frá nautgripum og sauðfé.

Stóriðjan á Íslandi losar líka mikið en sú losun fellur ekki á beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda heldur undir Evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir. Í heildina losar Ísland um 5 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum mælt í koltvísýringi. Það er ekki mikið ef litið er til losunar á heimsvísu sem er um 50 milljarðar tonna. Ef við hins vegar mælum losun á íbúa þá losar hver íbúi á Íslandi næstum því helmingi meira en íbúar í Evrópusambandinu og þrisvar sinnum meira en hver jarðarbúi að meðaltali.

Hvað þarf verkalýðshreyfingin að gera?

Nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi munu hafa áhrif á störf, neyslumynstur og framleiðsluferla. Því skiptir miklu máli að verkalýðshreyfingin sé höfð með í ráðum þegar verið er að móta aðgerðir til að breytingarnar verði sanngjarnar og komi ekki niður á lífskjörum venjulegs launafólks. BSRB á aðild að Evrópska verkalýðssambandinu (ETUC) sem hafa sett sér stefnu um réttlát umskipti (Just Transition) vegna aðgerða í loftslagsmálum. ETUC hvetur aðildarsambönd sín til að styðja aðgerðir til að draga úr losun og leggja áherslu á loftslagsmál í samskiptum sínum við atvinnurekendur og stjórnvöld.

Íslenska verkalýðshreyfingin hefur svarað því kalli og BSRB, ASÍ og BHM eru nú í norrænu samstarfi verkalýðsfélaga um að kortleggja áhrif loftslagsbreytinga á efnahag og vinnumarkað. BSRB hefur hvatt stjórnvöld til að auka fé í fjárfestingar sem miða að samdrætti í losun og sem búi til ný og góð störf til frambúðar í loftslagsvænum atvinnugreinum. Það er miklu ódýrara að fjárfesta núna í uppbyggingu heldur en að fjármagna síðar eyðilegginguna sem loftslagsbreytingar munu valda. Stærstu aðgerðir stjórnvalda fela í sér skattlagningu á losun og ívilnanir fyrir til dæmis rafbílakaup.

BSRB hefur bent á mikilvægi þess að greina hvernig áhrif þessar aðgerðir hafi á mismunandi tekjuhópa og koma með mótvægisaðgerðir þegar hallar á þá tekjulægri. Þannig tryggjum við félagslegan stöðugleika í þeim samfélagsbreytingum sem framundan eru og stuðning almennings við aðgerðir til að tryggja lífvænlega framtíð.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB

Greinin birtist fyrst í blaði Sameykis.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?