Algengt að einelti sé kallað grín

Algengt er að gerendur í eineltismálum á vinnustöðum beri því við að þeir hafi bara verið að grínast í fórnarlambi sínu, þegar þeir eru í raun að gera lítið úr eða niðurlægja viðkomandi.

Þetta hefur oft þau áhrif að sá sem fyrir eineltinu verðir á erfitt með að svara fyrir sig, enda viðtekin viðbrögð þau að eingöngu hafi verið um grín að ræða og að viðkomandi eigi ekki að vera svona viðkvæmur.

Í reglugerð sem tók gildi nýlega eru auknar skyldur settar á herðar atvinnurekenda varðandi forvarnir og viðbrögð við hvers konar einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Upplifun þolanda ræður úrslitum
Allir eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að ekki sé gert lítið úr þeim á grundvelli kyns eða með kynferðislegri hegðun né að gengið sé gegn vilja þeirra með óvelkomnum kynferðislegum samskiptum.

Samkvæmt skilgreiningum laga og reglna er það upplifun þess sem verður fyrir slíkri hegðun sem ræður úrslitum um það hvort hún geti talist vera kynbundin eða kynferðisleg áreitni. Upplifun og viðhorf geta verið mismunandi eftir samhengi og aðstæðum hverju sinni en enginn á að þurfa að sæta slíkri hegðun í sína óþökk ef hún hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu hans og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi.

Vinnuveitendur þurfa að vinna áætlun
Í nýlegri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er skýrt að hverjum og einum atvinnurekanda ber að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

Í þeirri áætlun á að framkvæma áhættumat annars vegar og gera áætlun um forvarnir hins vegar. Áhættumatið felur meðal annars í sér greining áhættuþátta og líkur á að starfsmaður verði fyrir einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Áætlun um forvarnir á meðal annars að tilgreina til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir slíka hegðun og hvernig verði komið í veg fyrir endurtekningu ef hún kemur upp. Jafnframt skal tilgreint til hvaða aðgerða á að grípa hvort sem niðurstaðan er að slík hegðun hafi átt sér stað eða ekki í kjölfar kvörtunar þar um.

BSRB hvetur atvinnurekendur til að kynna sér reglugerðina og sjá til þess að eftir henni sé farið á vinnustaðnum. Hægt er að kynna sér málið betur í nýlegum bæklingi þar sem fjallað er um þessi mál.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?