Ályktanir stjórnar BSRB

Stjórn BSRB samþykkti á stjórnarfundi sínum á Akureyri í dag tvær ályktanir sem fjalla um forgangsröðun í þágu heilbrigðismála og kjaradeilu Starfsmannafélags Kópavogs við Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd Kópavogsbæjar.

Í ályktuninni um heilbrigðismál eru stjórnvöld m.a. hvött til að standa við gefin loforð um að setja heilbrigðismálin í forgang, varað er við auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og áhersla lögð á að heilbrigðisþjónustan verði áfram rekin á samfélagslegum grunni þar sem öllum sé tryggð viðunandi heimbrigðisþjónusta óháð efnahag.

Þá lýsir stjórn BSRB yfir fullum stuðningi við Starfsmannafélag Kópavogsbæjar (SfK) í kjaradeilu við Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd Kópavogsbæjar. SfK hefur verið án kjarasamnings frá vormánuðum en þá skrifuðu öll önnur bæjarstarfsmannafélög innan BSRB undir framlengingu kjarasamninga. Kópavogsbær hefur hins vegar viljað fella úr gildi svokallaða háskólabókun í kjarasamningi sem vegur að félagafrelsi nokkurra félagsmanna SfK. Það hefur SfK ekki getað sætt sig við svo nú stefnir í vinnustöðvanir hjá félögum í SfK. Stjórn BSRB krefst þess að gengið verði frá framlengingu kjarasamninga við SfK nú þegar með sama hætti og gert var hjá öðrum aðildarfélögum BSRB.

Ályktanir stjórnar má nálgast í heild sinni hér að neðan.

 

Forgangsröðun í þágu heilbrigðismála

Stjórn BSRB skorar á stjórnvöld að bregðast þegar við þeim vanda sem íslenska heilbrigðiskerfið er í. Fjöldi heilbrigðisstarfsfólks hefur þegar flutt af landi brott og ljóst er að atgervisflóttinn mun aukast frekar á meðan stjórnvöld taka ekki á málum. Með hverri vikunni sem líður án aðgerða í þágu heilbrigðiskerfisins eykst vandi þess til muna.

Heilbrigðisstofnanir landsins eru undirmannaðar, aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks er óviðunandi, tækjakostur úr sér genginn og álag starfsfólks óhóflega mikið. Þrátt fyrir að vandinn hafi verið augljós um árabil hafa stjórnvöld ekki brugðist við með fullnægjandi hætti.

Stjórn BSRB krefst þess að stjórnarflokkanir standi við gefin loforð um að setja heilbrigðismálin í forgang. Forgangsröðun í ríkisrekstrinum verður að vera með þeim hætti að hægt sé að veita auknum fjármunum til eflingar heilbrigðiskerfisins svo hægt sé að reka það áfram á samfélaglegum grunni. Aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu mun aðeins auka á ójöfnuð og misskiptingu.

Stjórn BSRB krefst þess að stjórnvöld bregðast við nú þegar svo hægt sé að veita öllum viðunandi heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

 

Ályktun stjórnar BSRB um kjaradeilu SfK

Stjórn BSRB lýsir yfir fullum stuðningi við Starfsmannafélag Kópavogs (SfK) í kjaradeilu við Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) fyrir hönd Kópavogsbæjar.

Samstarf aðila vinnumarkaðarins um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga hófst árið 2012 og þau vinnubrögð sem tekin voru upp í kjölfarið þóttu almennt gefa góða raun. Eftir þeim var að mestu farið við framlengingar á kjarasamningum aðildarfélaga BSRB sl. vor, þó ekki í framkomu SNS við SfK.

Við upphaf kjarasamningsviðræðna þessa árs lá ljóst fyrir að ekki yrði samið um heildarendurskoðun kjarasamninga. Þannig yrði kjarasamningum framlengt með breytingum sem væru sambærilegar í öllum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og samningur farmlengdur til eins árs. Við undirritun kjarasamnings í júlí sl. hjá Starfsmannafélagi Kópavogs var þeim tilkynnt að fella ætti út yfirlýsingu í kjarasamningi þeirra. Yfirlýsingin er þýðingarmikil að því leyti að afnám hennar vegur að félagafrelsi nokkurra félagsmanna Starfsmannafélags Kópavogs.

Nú nærri þremur mánuðum frá undirritun BSRB félaganna er SfK enn samningslaust sem er með öllu óásættanlegt. SfK var aðili að viðræðuáætlun sem gerð var sameiginlega við öll bæjarstarfsmannafélög innan BSRB. Viðræður samkvæmt þeirri áætlun áttu að hefjast í september en á meðan eitt aðildarfélaganna er enn án samnings geta viðræður ekki hafist.

Stjórn BSRB fordæmir vinnubrögð Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd Kópavogsbæjar í viðræðum sínum við SfK. Stjórn BSRB krefst þess að gengið verði frá framlengingu kjarasamninga við Starfsmannafélag Kópavogs nú þegar með sama hætti og gert var hjá öðrum aðildarfélögum BSRB.

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?