Ályktun Heilbrigðis- og velferðarnefndar BSRB

Málþing um mikilvægi heilbrigðisþjónustu og þess mannauðs sem þar starfar fór fram í húsi BSRB í gær. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hélt fyrsta erindi dagsins og svaraði að því loknu fyrirspurnum viðstaddra. Rúnar Vilhjálmsson, Anna Stefánsdóttir fyrrverandi hjúkrunarforstjóri Landspítala, Geir Gunnlaugsson landlæknir og Guðrún Árnadóttir fulltrúi Heilbrigðis- og velferðarnefndar BSRB héldu einnig erindi á fundinum.

Í kjölfar málþingsins sendi Heilbrigðis- og velferðarnefnd BSRB, sem skipulagði málþingið, frá sér eftirfarandi ályktun þar sem m.a. er fjallað um auknar álögur á sjúklinga, möguleg breytt rekstrarform heilbrigðisþjónustunnar, aðbúnað starfsfólks og sjúklinga.

 

Ályktun heilbrigðis- og velferðarnefndar BSRB

Heilbrigðis- og velferðarnefnd BSRB ítrekar mikilvægi þess að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða búsetu. Sátt hefur ríkt um það fyrirkomulag heilbrigðismála, þvert á alla stjórnmálaflokka, að hið opinbera veiti hana og hún sé greidd af okkar sameiginlegu sjóðum. Við því fyrirkomulagi ber ekki að hrófla.

Þess vegna gagnrýnir heilbrigðis- og velferðarnefnd BSRB að leggja eigi auknar álögur á sjúklinga í formi hækkunar á komugjöldum og sérstaks gjalds fyrir innlagnir á sjúkrahús líkt og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Einnig er mjög varað við öllum aðgerðum sem miða að því að færa verkefni á sviði heilbrigðismála frá opinberum aðilum til einkaaðila. Reynslan sýnir okkur að slíkar aðgerðir eru kostnaðarsamari til lengri tíma auk þess sem sú þjónusta sem veitt er versnar nær alltaf.

Heilbrigðis- og velferðarnefnd BSRB bendir á að um allt land búa heilbrigðisstofnanir við fjársvelti. Heilbrigðisstofnanir eru undirmannaðar, álag starfsfólks eykst stöðugt og mikil óánægja er með laun og aðbúnað. Nauðsynlegt er að búa svo um að heilbrigðisþjónustan sé samkeppnisfær við Norðurlöndin hvað aðbúnað og vinnuálag starfsfólks varðar til að koma í veg fyrir frekari þekkingarflótta frá landinu.

Ef ekki verður brugðist við eru heilbrigðisstofnanir landsins ófærar um að veita þá þjónustu sem þeim er skylt lögum samkvæmt. Heilbrigðis- og velferðarnefnd BSRB hvetur stjórnvöld þess vegna til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar svo hana megi reka á samfélagslegum grunni til framtíðar.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?