Ályktun stjórnar BSRB

Stjórn BSRB hefur sent frá sér ályktun vegna ákvörðunar Kópavogsbæjar um að lækka laun karlmanns sem hafði hærri laun en kona í jafn verðmætu starfi í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Hér að neðan má einnig nálgast samatekt á úrskurði kærunefndarinnar. BSRB tekur mikilvægt vegna mikillar opinberrar umfjöllunar um málið sé rétt að árétta að málið snýst um mismunun við ákvörðun grunnlauna konunnar og karlsins. Í niðurstöðu kærunefndarinnar var einnig sérstaklega tilgreint að:

„óumdeilt er að kærandi er nú einnig með lægri heildarlaun er karlmaðurinn. Launamun þessum verður ekki eytt með lækkun launa karlmannsins eins og kærði hefur hreyft þar sem laun hans eru í samræmi við kjarasamning en samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar samrýmast ekki 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og eru ógildir.“

 


Ályktun stjórnar BSRB um aðgerðir Kópavogsbæjar í kjölfar

úrskurðar kærunefndar jafnréttismála 

Stjórn BSRB mótmælir þeirri ákvörðun Kópavogsbæjar að lækka laun karlmanns sem hafði hærri laun en kona í jafn verðmætu starfi í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.

Samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála gerðist Kópavogsbær brotlegur við lög með því að greiða konunni lægri laun en karlmanninum. Úr því ætlar bæjarfélagið að bæta með því að lækka launa karlmannsins til jafns við konuna. Þessi afstaða Kópavogsbæjar gengur gegn anda jafnréttislöggjafarinnar, gengur þvert á niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála og er til þess fallin að letja fólk til að sækja rétt sinn.

Með fordæmi sínu er Kópavogsbær að koma þeim skilaboðum áleiðis að sæki fólk rétt sinn til jafnra launa og niðurstaðan er þeim í vil, þá verði brugðist við því með því að lækka launa samanburðaraðila í sambærilegu starfi. Þetta er alveg ný nálgun til þess að vinna bug á því alvarlega vandamáli sem kynbundinn launamunur er og er ekki til þess fallin að árangur náist við að uppræta vandann.

Stjórn BSRB krefst þess að Kópavogsbær dragi ákvörðun sína til baka enda vandséð að lækkun launa með þessum hætti sé lögmæt. Jafnframt krefst stjórn BSRB þess að Kópavogsbær haldi launum karlmannsins óbreyttum frá því sem áður var og greiði konunni laun til jafns við hann. Þannig getur Kópavogsbær sýnt í verki að bæjarfélagið vinni af heilum hug að því að uppræta kynbundinn launamun í stað þess að beita fólk valdníðslu ef það leitar sjálfssagðra réttinda sinna til jafnra launa fyrir jafn verðmæt störf.

Reykjavík, 4. febrúar 2015

 

Samantekt á úrskurði kærunefndar jafnréttismála

Nýlegur úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 1/2014, A gegn Kópavogsbæ, varðar konu sem taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum þar sem að hún og karl sem einnig starfaði hjá bænum nytu mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Röksemdir konunnar fyrir kærunefndinni voru m.a. að hún hafði leitað til jafnréttisráðgjafa Kópavogsbæjar og óskað eftir því að kannað yrði hvort launamisrétti væri fyrir hendi á menntasviði Kópavogsbæjar. Í áliti jafnréttisráðgjafans frá júní 2013 kemur fram að það sé mat hans að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga við ákvörðun grunnlauna konunnar. Í álitinu kemur einnig fram að lengd starfsreynslu og háskólamenntunar réttlæti ekki launamismun þar sem menntunarkröfur samkvæmt starfslýsingu séu þær sömu. Lengri starfsaldur og meiri menntun eigi að endurspeglast í mismunandi persónuálagi frekar en mismun á grunnlaunum. Þar sem störf beggja aðila séu fyllilega sambærileg m.t.t. ábyrgðar, inntaks og ásýndar, menntunar- og hæfniskröfur séu þær sömu og niðurstaða starfsmats áþekk var það álit jafnréttisráðgjafa að það bæri að greiða þeim sömu laun. Fór konan þá ítrekað fram á að Kópavogsbær myndi bregðast við álitinu en án árangurs.

Röksemdir Kópavogsbæjar fyrir kærunefndinni voru að munur á grunnlaunum konunnar og karlsins væri eðlilegur og ætti sér málefnalegar skýringar. Störfin séu ekki jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga og var afstöðu jafnréttisráðgjafa bæjarins þar um hafnað. Verðmæti starfanna hafi verið metin á grundvelli starfsmats, sem einnig hafi undirgengist endurskoðun á umræddu tímabili, en störf karlsins hefði verið endurskoðað sjaldnar á grundvelli þess að hann hefði fengið röðun samkvæmt háskólabókun og hefði því verið komin út úr starfsmatskerfinu. Þar til viðbótar komi málefnalegur launamunur byggður á mismunandi menntun málsaðila. Kópavogsbær taldi því launamuninn eðlilegan og sanngjarnan í ljósi eðlismunar starfanna og menntunarmunar.

Í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála kemur fram að samkvæmt gögnum málsins mætti ráða að störf konunnar og karlsins séu sambærileg, starfslýsingar séu keimlíkar, verkefni sambærileg og staða starfanna innan stjórnskipulags Kópavogsbæjar hin sama. Niðurstaða úr starfsmati breyti ekki þeirri niðurstöðu að um sambærileg störf sé að ræða þar sem niðurstaða þess sé við því sem næst hin sama, starfsmat karlmannsins var gamalt og því óvíst hvort sama niðurstaða fengist úr starfsmati í dag eða sex árum eftir síðustu endurskoðun. Jafnframt lágu fyrir upplýsingar um að eðli starfs karlmannsins hefði breyst frá því að síðasta starfsmat fór fram þannig að nú felist ekki lengur mannaforráð í starfinu. Mætti því vænta að starfsmat sem yrði framkvæmt nú myndi sýna lægri niðurstöðu. Þá taldi kærunefndin að Kópavogsbær hefði ekki tekist að sýna fram á að aukin menntun karlmannsins nýtist í starfinu og réttlæti þar af leiðandi hærri laun. Ekkert hafi legið fyrir um að háskólamenntun karlmannsins leiði til þess að hann teljist verðmætari starfskraftur en konan og þar með að hærri launagreiðslur til hans réttlætist af því. Taldi því kærunefndin að launamunur milli kæranda og þess karlmanns sem hún ber sig saman við yrði ekki réttlætt með mismunandi menntunarstigi. Kærunefndin úrskurðaði því að Kópavogsbær hefði brotið gegn jafnréttislögum við ákvörðun launakjara konunnar sem tók gildi 1. janúar 2013.

Í niðurstöðu kærunefndarinnar var einnig sérstaklega tilgreint að: „óumdeilt er að kærandi er nú einnig með lægri heildarlaun er karlmaðurinn. Launamun þessum verður ekki eytt með lækkun launa karlmannsins eins og kærði hefur hreyft þar sem laun hans eru í samræmi við kjarasamning en samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar samrýmast ekki 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og eru ógildir.

Vegna mikillar opinberrar umfjöllunar um málið telur BSRB mikilvægt að árétta að málið snýst um mismunun við ákvörðun grunnlauna konunnar og karlsins. Ákvörðun grunnlauna þeirra byggir hvað konuna varðar að öllu leyti á starfsmati en karlsins eingöngu að hluta til þar sem starfið hafi ekki verið endurskoðað samkvæmt starfsmatinu í sex ár. Starfsmat er tæki til að meta innihald starfa og kröfur til starfs, þ.á.m. hvaða menntunarkröfur eru gerðar til starfsins. Séu aðstæður svo að starfsmaður hefur t.d. þrjár háskólagráður en eingöngu er gerð krafa til einnar þeirra svo að sinna megi starfinu þá hefur önnur menntun ekki áhrif á grunnlaunaröðun byggt á starfsmati. Ef dæminu er fylgt eftir er það hins vegar svo að viðkomandi nýtur réttar til hærri launa á grundvelli ákvæða kjarasamnings, til svonefnds persónuálags. Persónuálagið er hins vegar hluti af heildarlaunum en ekki grunnlaunum. Aukin menntun einstaklings umfram þær kröfur sem starfið gerir skal því endurspeglast í heildarlaunum en ekki grunnlaunum.

Hvað varðar umrædda háskólabókun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Kópavogs (SfK) felur hún fyrst og fremst í sér tryggingu þess að starfsmenn Kópavogsbæjar njóti stjórnarskrárvarins félagafrelsis. Þannig geti t.d. félagsmenn SfK sem kjósa að mennta sig samhliða starfi haldið áfram að vera félagsmenn að loknu háskólaprófi. Bókunin tryggir þá að þau njóti sömu launakjara eins og ef þau væru félagar í öðru stéttarfélagi. Markmið bókunarinnar af hálfu SfK var ekki síst að koma í veg fyrir aðstæður sem fjallað er um í ofangreindum úrskurði, þ.e. að fólki væri mismunað í launum á grundvelli mismunandi stéttarfélagsaðildar. Það telst ekki málefnalegt sjónarmið í skilningi jafnréttislaga hvað varðar álitaefni um kynbundinn launamun.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?