Ályktun stjórnar BSRB um heilbrigðismál

Þing BSRB vinnur nú að afgreiðslu þingmála, ályktana og stefnu BSRB. Í gær afgreiddi stjórn BSRB ályktun og heilbrigðismál sem byggð er á niðurstöðum rannsóknar prófessors Rúnars Vilhjálmssonar á heilsu og lífsháttum Íslendinga.

Rannsóknin sýnir m.a. fram á mikinn stuðning Íslendinga við félagslega rekið heilbrigðiskerfi og að vaxandi fjöldi fólks frestar því að leita sér læknisaðstoðar vegna kostnaðar. Stjórn BSRB hefur talsverðar áhyggjur af þeirri þróun og áréttar í ályktun sinni að heilbrigðisþjónustan verði áfram rekin á félagslega réttlátan máta af opinberum aðilum. Ályktunina má sjá hér að neðan.

 

Ályktun stjórnar BSRB um helbrigðisþjónustu í kjölfar rannsóknar prófessors Rúnar Vilhjálmssonar á heilsu og lífsháttum íslendinga

44. þing BSRB krefst þess að stjórnvöld sjái til þess að dregið verði verulega úr allri gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu og að tryggt sé að heilbrigðisþjónustan verði áfram fjármögnuð með opinberu fé.

Ný rannsókn prófessors Rúnars Vilhjálmssonar á heilsu og lífsháttum Íslendinga gefur sterkar vísbendingar um að gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefti aðgengi tiltekinna hópa að þjónustunni. Niðurstöður könnunarinnar sýna að of stór hópur Íslendinga frestar því að leita sér læknisaðstoðar jafnvel þótt hann telji sig þurfa á slíkri þjónustu að halda. Stöðugt fleiri nefna kostnað sem ástæðu þess að þeir leita sér ekki læknisaðstoðar og við slíkt ástand verður ekki unað. 44. þing BSRB ítrekar að heilbrigðisþjónustu á að veita öllum sem á þurfa að halda, óháð efnahag.

Einnig sýnir könnunin fram á mikinn og víðtækan stuðning Íslendinga við að opinberir aðilar eigi og reki heilbrigðisþjónustuna hér á landi og hefur sá stuðningur aukist frá síðustu könnun. Einungis telja 0,5% landsmanna að einkaaðilar eigi að sjá um sjúkrahúsrekstur. Augljóst er af könnunum prófessors Rúnars Vilhjálmssonar að mikill og vaxandi stuðningur er við aukna félagsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar.

44. þing BSRB telur heilshugar undir með landsmönnum og leggur mikla áherslu á að sjúkrahúsin verði áfram í opinberri eigu og rekin af opinberum aðilum. BSRB hvetur stjórnvöld jafnframt til að tryggja opinbera fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, að opinberir aðilar eigi og reki heilbrigðisþjónustuna og að dregið verði úr allri gjaldtöku einstaklinga fyrir afmarkaða þætti hennar. Jafnt aðgengi allra að grunnþjónustu líkt og heilbrigðisþjónustu verður að vera tryggt til að hér ríki jöfnuður.

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?