Áramótaávarp formanns BSRB

Í áramótaávarpi formanns BSRB fjallar Elín Björg Jónsdóttir m.a. um mikilvægi þess að vanda til verka við gerð kjarasamninga til lengri tíma og hversu mikilvægt er að gera körlum kleift að verja auknum tíma með fjölskyldum sínum með sveigjanlegri og fyrirsjáanlegri vinnutíma, mikilvægi á góðu samspil fjölskyldu og atvinnulífs og hvernig jafnræði á heimilum fólks skilar sér í auknu jafnrétti á vinnumarkaði.

Elín Björg segir þetta vera áherslur við gerð lengri kjarasamninga og að hluti þess að koma þessum markmiðum til leiðar sé m.a. efling fæðingarorlofskerfisins. Þá fjallar hún um mikilvægi þess að ríki og sveitarfélög bregðist við þeim mikla vanda sem nú er á húsaleigumarkaði á Íslandi. Bætir hún við að aðgerðir ríkisins í skuldamálum heimilanna muni nýtast mörgum en leigjendur verði að mestu útundan í þeim aðgerðum.

Ávarp Elínar Bjargar má lesa í heild sinni hér að neðan.

 

Áramótaávarp formanns BSRB

Kæru félagar.

Um leið og ég vil þakka ykkur fyrir árið sem senn er á enda vil ég horfa fram á veginn til þeirra verkefni sem við erum að fara að taka okkur fyrir hendur.

Áramótin ganga í garð með nokkurri óvissu á opinberum vinnumarkaði. Fjárlög næsta árs gera ráð fyrir niðurskurði mjög víða í hinu opinbera kerfi og enn eigum við eftir að sjá hvernig margar af stofnunum landsins bregðast við minni fjárheimildum. Þá er enn ósamið um nýja kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði.

Margt bendir til þess að stuttir kjarasamningar verði gerðir að þessu sinni til að skapa svigrúm til gerð lengri samninga. Ég tel það vera lykilatriði við gerð lengri samninga – fyrir utan að tryggja launafólki betri kjör, aðbúnað og starfsskilyrði – að gera kjarasamninga á fjölskylduvænni forsendum.

Með því á ég við að gott samspil fjölskyldu- og atvinnulífs verði tryggt og þannig verði launafólki gert kleift að sinna því vel sem mestu skiptir og okkur er dýrmætast, fjölskyldum okkar og ástvinum. Að jafna stöðu fólks á heimilum og á vinnumarkaði eykur jafnrétti við uppeldi barna og möguleika til að verja tíma með fjölskyldunni. Í því felast aukin lífsgæði og um leið mikil verðmæti.

Mikilvægt skref í átt að betra samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er að endurskoða vinnutíma fólks, bæði þeirra sem vinna hefðbundinn vinnutíma en ekki síður þeirra sem vinna vaktavinnu. Á Íslandi vinnum við 10-15% lengur en á hinum Norðurlöndunum. Samt sem áður er framleiðni á hverja vinnustund minni og landsframleiðsla á hverja unna vinnustund á Íslandi er fyrir neðan meðaltal OECD-landa. Það veldur lægri þjóðartekjum á mann samhliða lengri vinnudegi.

Þessu þarf að snúa við og því verðum við að endurskoða vinnutímafólks og gera hann sveigjanlegri. Ávinningur þess yrði ekki bara aukinn frítími til að sinna fjölskyldu og ástvinum heldur getur efnahagslegur ábati af því einnig orðið umtalsverður. Margar rannsóknir sýna að afköst starfsfólks aukast hlutfallslega með styttri vinnutíma og getur það því orðið ein leið til að auka framleiðni.

Samhliða slíkum aðgerðum þarf að efla fæðingarorlofskerfið. Sveitarfélög verða líka að bæta úr dagvistunarúrræðum fyrir ung börn til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs foreldra og þess tíma sem börn fái inni á leikskóla. Skref sem tekin hafa verið í að hækka greiðsluþak foreldra í orlofi eru skref í rétta átt. En hækkunin þarf að vera umtalsvert meiri og þarf líka að huga að lengingu orlofstímans. Jafnræði kynjanna við umgengni og uppeldi barna er megin tilgangur fæðingarorlofslaganna. Það hefur því miður sýnt sig að karlar nýta sér fæðingarorlof í mun minna mæli nú en á árunum fyrir hrun. Skýring þess liggur helst í greiðsluþakinu og ótrygga stöðu á vinnumarkaði.

Eitt helsta verkefni okkar ætti því að vera að búa svo um að karlar sjái sér fært að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Þannig gefst körlum færi á að taka þátt í heimilisstörfum og njóta samvista við börn sín á fyrstu árum æviskeiðs þeirra til jafns við konur. Það hefur jafnframt sýnt sig að um leið og jafnrétti eykst á heimilum eykst jafnrétti á vinnumarkaði. Ávinningur slíkra aðgerða gæti því komið víða fram.

Annað mál sem taka verður traustum tökum á komandi ári eru húsnæðismálin. Nú hafa aðgerðir sem miða að leiðréttingu verðtryggðra íbúðalána verið kynntar af ríkisstjórninni og munu þær eflaust gagnast mörgum. Leigjendur sitja þó að mestu utan við þær aðgerðir og á sama tíma eykst eftirspurn eftir leiguhúsnæði stöðugt og leiguverð hækkar. Reglulega berast fréttir af heilu fjölskyldunum sem eiga ekki annað ráð en að leigja herbergi stakt í iðnaðarhúsnæði sem eru í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Þetta er ástand sem við getum ekki sætt okkur við.

Ríki og sveitarfélög verða að koma að uppbyggingu varanlegs leigumarkaðar til að tryggja búsetuöryggi og velferð þeirra sem eru á leigumarkaði. Könnun BSRB á árinu leiddi t.d. í ljóst að rúmur fimmtungur þeirra sem nú búa í eigin húsnæði gæti hugsað sér að vera á leigumarkaði ef búseta þeirra þar væri tryggð til lengri tíma. Þörfin fyrir leiguhúsnæði nær því langt út fyrir þá hópa sem í dag eru fjölmennastir á leigumarkaðnum.

Landslagið á húsnæðismarkaði hefur tekið miklum breytingum á undanförum árum og við því verður að bregðast. Leiguhúsnæði  er fyrsti kostur fjölmargra. Við þessum þörfum verður að bregðast m.a. með því að koma á samræmdum húsnæðisbótum í stað leigu- og vaxtabóta. Að koma á varanlegum leigumarkaði sem raunverulegum búsetukosti á viðráðanlegu verði er því eitt mikilvægasta verkefni komandi árs.

Kæru félagar. Það er af nægu að taka og ég er bjartsýn á að margt muni ávinnast á næstu misserum. BSRB mun í það minnsta leggja sitt af mörkum til að samfélag okkar þróist í átt til aukins jafnaðar.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári um leið og ég þakka samstarfið á liðnum árum.

 

                                                                                                          Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?