Áramótapistill formanns BSRB

Í áramótapistli sínum fer Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB yfir það markverðasta á árinu 2015 og þau verkefni sem framundan eru hjá bandalaginu og verkalýðhreyfingunni sem heild. Kemur hún þar m.a. inn á vinnu við nýtt vinnumarkaðsmódel, áherslur á fjölskylduvænna samfélag og styttingu vinnutíma sem prófuð verður hjá tilteknum stofnunum ríkisins á árinu, þörfina fyrir að tryggja jafnan aðgang allra að gjaldfrjálsri grunnþjónustu og fleira.

 

 

Kæru félagar.

Árið sem nú líður undir lok hefur verið eitt það viðburðaríkasta í sögu BSRB og á íslenskum vinnumarkaði sem heild. Þar ber hæst að nefna vinnudeilur, verkföll og loks langtímasamninga sem munu hækka laun umtalsvert á tímabilinu. Þá var undirritað nýtt heildarsamkomulag um að unnið verði að þróun á nýju íslensku vinnumarkaðsmódeli. BSRB hélt einnig 44. þing sitt á árinu þar sem lagður var grunnur að störfum bandalagsins á næstu þremur árum og þá tókst BSRB loks að semja við ríkið um tilraunaverkefni til styttingu vinnutíma.

 

Viðburðaríkt ár á vinnumarkaði

Í upphafi árs var þegar ljóst að hart yrði tekist á um gerð nýrra kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin kallaði eftir ríflegri hækkun lágmarkslauna á meðan atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög sögðu allar hækkanir umfram 3% ógna efnahagi landsins. Það fór svo að á bæði almennum og opinberum markaði kom til langra verkfalla þegar líða tók á vorið.

Verkföllum á almenna markaðnum lauk með undirritun samninga – þar sem hið sjálfsagða markmið, um 300 þúsund króna lágmarks laun að þremur árum liðnum náði loks fram að ganga. Verkföllum BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lauk með lagasetningu og þar voru kjarabæturnar ákvarðaðar af gerðardómi.

Kröfur hópanna voru ólíkar og rökstuddar á ólíkan hátt – en báðar voru að lokum viðurkenndar sem réttmætar kröfur, annars vegar með samningum og hins vegar með úrskurði.

Þess vegna er það sérstakt í meira lagi að er röðin kom að BSRB við samningaborðið, þar sem eðlilega átti að sækja sömu kjarabætur og aðrir starfsmenn ríkisins höfðu þá þegar fengið, kom það ekki til greina af hálfu ríkis né sveitarfélaga að verða við þeim kröfum.

Því var nauðsynlegt að fara í hart og fór það svo að SFR og Sjúkraliðafélag Íslands fóru í verkfall sem auðveldlega hefði mátt afstýra ef viðsemjendur okkar hefðu haft vilja til að semja. Í þessum aðgerðum reyndi bæði á samstöðu okkar og samhug. Það ber að hrósa þeim sem leiddu samninganefndir félaga okkar, starfsfólki og öðrum sem lagt hafa hönd á plóg fyrir staðfestuna sem sýnd var í þessum kjaraviðræðum. Jafnframt ber að hrósa yfirveguninni sem að mestu einkenndi málflutning okkar fólks enda voru kröfurnar mjög skýrar og líka mjög sanngjarnar;

Sömu kjarabætur og aðrir ríkisstarfsmenn höfðu þegar fengið.

Þótt ýmsir hafi haft uppi gífuryrði, sakað okkur um svik og heimtufrekju, á milli þess sem kröfur okkar voru sagðar ógna stöðugleika, hleypa vöxtum og verðbólgu í hæstu hæðir, var  krafa okkar aldrei önnur en að fá það sama og hinir. Enda varð það að lokum niðurstaðan enda hefðu félagsmenn BSRB aldrei sætt sig við lakari kærabætur að aðrir höfðu fengið.

 

Bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga

Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því markvisst að bæta umgjörð við gerð kjarasamninga. Það var að frumkvæði BSRB sem sú vinna fór af stað og samhliða gerð nýrra samninga í haust var undirritað samkomulag um að vinna að því að koma á nýjum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga á Íslandi.

Um er að ræða rammasamkomulag um sameiginlega vegferð við gerð kjarasamninga sem hefur í daglegu tali verið kallað SALEK-samkomulagið. Heildarsamtök opinberra starfsmanna BSRB, BHM og KI munu ásamt fjármálaráðuneyti kappkosta að klára vinnu vegna málefna opinberu lífeyrissjóðanna, vinnu sem staðið hefur yfir í fjölda ára, og miðar einnig að því að jafna lífeyrisréttindi á milli markaða.

Hið nýja samkomulag mun jafnframt þýða að þegar þessari vinnu er lokið mun svokölluð „launaskriðstrygging“ komast í gagnið sem mun tryggja opinberum starfsmönnum launahækkanir til jafns við það launaskrið sem gjarnan vill verða á almenna markaðnum umfram kjarasamningsbundnar hækkanir.

Það er mikið réttlætismál að launaskriðstryggingin skuli nú vera í sjónmáli enda hefur slíkt launaskriðsákvæði verið baráttumál bandalagsins til fjölda ára.Við sjáum því fram á að vera að taka fyrstu skrefin inn í nýtt framtíðarskipulag kjarasamningsviðræðna á Íslandi,  sem ég tel að muni að lokum gagnast öllum aðilum á vinnumarkaði.

Rétt er þó að taka fram, að allt er þetta háð því að farsæl lausn náist um málefni opinberu lífeyrissjóðanna og sátt náist um framtíðarskipan lífeyrismála á milli heildarsamtaka opinberra starfsmanna og viðsemjenda þeirra.

 

Fjölskylduvænna samfélag – styttri vinnutími

BSRB hefur í öllum störfum sínum lagt áherslu á að komið verði á fjölskylduvænna samfélagi með styttri og sveigjanlegri vinnutíma. Kjarasamninga verður að gera á fjölskylduvænni forsendum þannig að þeir tryggi gott samspil fjölskyldu og atvinnulífs. Mikilvægur áfangi í þeirri baráttu náðist á árinu þegar fjármálaráðherra ásamt félagsmálaráðherra undirrituðu yfirlýsingu þess efnis að farið yrði af stað með tilraunaverkefni til þess að stytta vinnutíma fólks.

Tilraunaverkefnið gengur út á að stytta vinnuviku úr 40 vinnustundum á viku niður í 36 stundir án launaskerðingar. Sérstaklega verður skoðað hvernig útfæra megi styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal á stofnunum þar sem unnin er vaktavinna. BSRB hefur þegar tekið þátt í vinnu starfshóps sem hefur útfært slíkt verkefni innan Reykjavíkurborgar og nú á nýju ári verður hafist handa við að prófa þetta fyrirkomulag hjá ríkinu.

Skipaður verður starfshópur og í kjölfarið mun þetta verða prófað á tilteknum stofnunum. Árangurinn verður síðan mældur en vonir standa til að stytting vinnutíma muni leiða til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana.

 

Vel heppnað þing BSRB

Þing BSRB hófst þann 28. október, sama dag og skrifað var undir nýja kjarasamninga við SFR, SLFÍ og LL. Þótt aðdragandi þingsins hafi verið með sérstöku móti að þessu sinni þar sem tvö af fyrrnefndu félögunum höfðu staðið í verkfallsaðgerðum vikurnar á undan tókust þingstörfin sérstaklega vel. Þing BSRB fór fram í 44. sinn og var það haldið undir yfirskriftinni Öflug almannaþjónusta – betra samfélag.

Almannaþjónustan er undirstaða okkar samfélags, hér eiga allir að hafa jafnan rétt rétt – óháð kyni, aldri, búsetu, uppruna, trú eða efnahag. Við eigum að hafa sameiginlegan rétt til menntunar, umönnunar og heilbrigðisþjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Og það er þetta sem almannaþjónustan veitir. Almannaþjónustan er undirstaða jafnaðar, félagslegs réttlætis og velferðar okkar allra.

Þetta endurspeglaðist í störfum þingsins þar sem meginvinnan fór fram í nokkrum málefnahópum. Fyrirlesarar komu fyrir málefnahópanna og síðan fóru fram umræður innan hópanna. Það er mín skoðun og flestra þeirra sem ég hef rætt við að þingi loknu að þetta fyrirkomulag hafi gefist einstaklega vel. Góður andi ríkti alla þingdaganna og í málefnahópunum gafst færi á að leyfa sem flestum röddum að heyrast. Það er okkur sem erum í forsvari fyrir BSRB mjög mikilvægt að eiga þetta samtals við félagsmennina svo við fáum milliliðalaust að heyra vilja og skoðanir BSRB-félaga.

Vinnu málefnahópanna má svo sjá í nýrri stefnu BSRB sem mun kom út í upphafi nýs árs og verða vegvísir bandalagsins í störfum sínum næstu þrjú árin.

 

Styrkja verður grunnstoðirnar

Þótt tekist hafi að gera nýja kjarasamninga til lengri tíma á árinu eru verkefnin sem bíða okkar fjölmörg og krefjandi. Ég hef áður rætt um vinnu við nýtt vinnumarkaðsmódel samhliða samræmingu á lífeyrismálum landsmanna. En það er okkur líka mjög mikilvægt að efla almannaþjónustuna því það eflir lífsgæði allra sem í landinu búa.

Á þingi BSRB í október kynnti prófessor Rúnar Vilhjálmsson niðurstöður nýrrar rannsóknar sinnar á heilsu og lífsháttum Íslendinga. Þar kom fram skýr vilji landsmanna til að efla opinbera heilbrigðiskerfið og tryggja að rekstur heilbrigðisþjónustunnar verði áfram á forræði hins opinbera. Rúm 80% svarenda töldu í rannsókninni að hið opinbera eigi fyrst og fremst að sjá um rekstur helstu þátta heilbrigðisþjónustunnar en aðeins 1% taldi að einkaaðilar ættu þar að vera umsvifamestir.

Einnig sýndu niðurstöðurnar fram á að allt of margir fresta því að leita sér læknisaðstoðar jafnvel þótt þeir telji sig þurfa á henni að halda. Af þeim sem slepptu því að leita sér læknis sagði nærri helmingur þeirra gera það vegna kostnaðarins sem því fylgdi. Þessar niðurstöður segja okkur að við séum á rangri braut sem við verðum að snúa af. Jafn aðgangur allra að grunnþjónustunni verður að vera tryggður og það er eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar að sjá til þess að svo verði.

 

Aukum jöfnuð, réttlæti og jafnrétti

Við verðum að standa vörð um jöfnuðinn, jafnréttið og velferðina. Þegar við horfum til framtíðar hljótum við að vera sammála um að við viljum gera þessum gildum okkar hærra undir höfði en nú er.

Við hljótum að vilja sjá öflugri heilbrigðisþjónustu, sterkara menntakerfi, betri almannatryggingar, aukinn kaupmátt og betri lífsskilyrði. Við viljum skila komandi kynslóðum betra búi en við tókum við. En til að svo megi verða þurfum við að gera betur í dag en í gær.

Þess vegna verðum við að efla almannaþjónustuna, því þannig eflum við samfélagið og lífsskilyrði okkar allra. Almannaþjónustan er undirstaða jafnaðar, félagslegs réttlætis og velferðar okkar allra. Hvar svo sem við stöndum og hvernig svo sem við erum gerð, eigum við að geta treyst á, að ef eitthvað bjátar á, þá verði okkur hjálpað eftir fremsta megni til að komast aftur á réttan kjöl.

Við setjum traust okkar á félagslega samheldni, þar sem hagur heildarinnar og velferð fjöldans er í fyrirrúmi. Samfélag sem hefur þá hugsun að leiðarljósi er samfélag sem gott er að lifa í. Samfélag sem hafnar þeirri hugmynd að hver sé sjálfum sér næstur -  en byggir þess í stað á hugmyndum um samhjálp og félagshyggju.

Verkefni morgundagsins er þess vegna að auka jöfnuðinn, réttlætið og jafnréttið – sýna samhjálp og auka félagslegt réttlæti.

Það eru hin sönnu verðmæti sem gera okkar samfélag enn betra.

Ég óska félagsmönnum BSRB og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökkum fyrir það liðna.

 

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?