Áramótapistill formanns BSRB

„Komandi kjarasamningar verða því ekki bara að fela í sér kjarabætur, betri aðbúnað og starfsskilyrði heldur verða stjórnvöld og atvinnurekendur allir að leggjast á árarnar með launafólki um að auka sameiginleg lífsgæði. Undir það fellur betri heilbrigðisþjónusta án óhóflegrar greiðsluþátttöku, jafn aðgangur að menntun, umönnun og félagslegri aðstoð,“ er á meðal þess sem Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, segir í áramótapistli sínum. Auk þess fjallar hún um samskiptin við stjórnvöld, nauðsyn þess að efla fæðingarorlofskerfið og málefni leigjenda. Þá leggur Elín Björg áherslu á að komandi kjarasamningar verði gerðir á fjölskylduvænum forsendum. Pistil formanns BSRB má sjá í heild sinni hér að neðan:

 

Kæru félagar.

Árið sem nú er að líða undir lok var um margt viðburðarríkt á vinnumarkaði. Vinnudeilur og verkföll settu nokkurn svip á kjaraviðræður þótt flest aðildarfélaga BSRB hafi gert sína samninga án þess að til beinna aðgerða kæmi. Kjarasamningar voru víðast framlengdir til árs og því verður eitt helsta viðfangsefni næsta árs að gera nýja samninga.

Lagt var upp með hóflegar launahækkanir í því skyni að stuðla að auknum stöðugleika. Launafólk féllst á að láta á það reyna gegn því að aðrir samningsaðilar myndu leggja sitt af mörkum líka. Til að greiða fyrir gerð samninganna féllu flest sveitarfélög frá áður ákveðnum gjaldskrárhækkunum og ríkisstjórnin lofaði að gera það sama. Minna varð hins vegar um efndir og þurfti að þrýsta mjög á ríkisvaldið að standa við sinn hluta samkomulagsins.

Ætlanir ríkisstjórnarinnar um að auka samráð við hagsmunaaðila, sem m.a. er kveðið á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkana, hafa ekki gengið eftir. Einhliða hefur ríkisstjórnin ákveðið að skerða rétt fólks til atvinnuleysisbóta og greiða ekki sinn hlut til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. Auk þess hefur lægra þrep virðisaukaskattsins verið hækkað á helstu nauðsynjavörur. Allt framantalið kemur almennu launafólki mjög illa og framkvæmd þessara ákvarðana er ekki í anda þeirra stjórnarhátta sem boðaðir voru við myndun sitjandi ríkisstjórnar. Von mín stendur til að breytingar verði á þessu á komandi ári og hagsmunaaðildar fái sömu aðkomu og áður í stefnumótun og ákvarðanatöku.

Stjórnvöld verða að átta sig á því að launafólk eitt og sér getur ekki axlað ábyrgð á stöðu efnahagsmála. Launafólk hefur nú lagt sitt af mörkum með hófstilltum kröfum sínum. Stjórnvöld og atvinnurekendur verða að leggja sitt af mörkum líka. Allir hafa hag af bættum efnahag landsins og þess vegna verða allir koma að málinu. Stjórnvöld hafa hins vegar lækkað álögur á þá efnamestu, aukið greiðsluþátttöku fyrir almannaþjónustu og hækkað matvöruverð. Misskiptingin hefur aukist en þeirri þróun verður að snúa við. Það verður að vera hluti af stefnu stjórnvalda við gerð næstu kjarasamninga að auka jöfnuð fólks samhliða því sem kjarasamningar eiga að færa launafólki batnandi kjör og aðbúnað. Það er kominn tími til að stjórnvöld sýni í verki að þau standa með almenningi.

BSRB hefur lagt áherslu á að komið verði á fjölskylduvænna samfélagi með styttri og sveigjanlegri vinnutíma. Kjarasamninga verður að gera á fjölskylduvænni forsendum þannig að þeir tryggi gott samspil fjölskyldu og atvinnulífs. Mikilvægur hluti þessa er að efla fæðingarorlofskerfið en það hefur sýnt sig á undanförnum árum að feður taka í sífellt minna mæli fæðingarorlof en áður. Úr þessu verður að bæta svo feður nýti frekar rétt sinn til samvista við börn sín, því með jafnari stöðu fólks á heimilum eykst jafnrétti á vinnumarkaði. Í því felast aukin lífsgæði og um leið mikil verðmæti svo ávinningurinn er mikill fyrir allt samfélagið.

Eitt verkefna helsta verkefni okkar er að bæta lífskjörin. Stór hluti þess er að gera fólki kleift að sinna fjölskyldum sínum og ástvinum, verja meiri tíma við áhugamál sín og eiga kost á fyrsta flokks heilbrigðis- og menntakerfi óháð efnahagslegri stöðu. Almannaþjónustuna verður þess vegna að efla ef ekki á illa að fara. Skerðing á almannaþjónustu er skerðing á lífsgæðum allra sem í landinu búa.

Nú hefur verið komið til móts við hluta heimila í landinu með svonefndri leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðisskuldum. Eftir situr stór hluti heimila sem varð fyrir sama forsendubresti en fékk ekkert bætt. Er þar nærtækast að nefna þá sem voru á leigumarkaði, oft vegna bágrar efnahagsstöðu sinnar. Þessi stóri hópur hefur enga leiðréttingu fengið og fátt virðist í fyrirætlunum stjórnvalda til að bæta stöðu þessa hóps á næstunni.

Komandi kjarasamningar verða því ekki bara að fela í sér kjarabætur, betri aðbúnað og starfsskilyrði heldur verða stjórnvöld og atvinnurekendur allir að leggjast á árarnar með launafólki um að auka sameiginleg lífsgæði. Undir það fellur betri heilbrigðisþjónusta án óhóflegrar greiðsluþátttöku, jafn aðgangur að menntun, umönnun og félagslegri aðstoð. Það þarf að jafna vaxta- og húsaleigubætur og draga úr óhóflegu álagi starfsfólks í almannaþjónustu sem margt er að sligast undan álaginu.

Við verðum að standa vörð um jöfnuðinn, jafnréttið og velferðina. Það er hagur okkar allra að efla almannaþjónustuna og þar með lífsgæði okkar allra.

Kæru félagar. Verkefni komandi mánaða eru fjölmörg og fjölbreytt en ég horfi bjartsýn fram á veginn með von um að sameiginlega getum við byggt enn betra samfélag.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári um leið og ég þakka samstarfið á liðnu ári.

 

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

 



Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?