Ávarp formanns BSRB 1. maí

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Kæru félagar, til hamingju með daginn!

Við finnum öll spennuna í samfélaginu, spennu sem virðist aukast frekar en hitt hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Spennu sem leiðir af sér rifrildi í stað samtals, átök í stað samvinnu. Þetta á við innan verkalýðshreyfingarinnar, í stjórnmálunum, í viðskiptalífinu og hvar sem er annarsstaðar sem okkur ber niður.

Við verðum líka öll vör við hvernig samfélagið breytist og þróast. Allir þurfa að hlaupa hraðar, fylgjast með öllu, tengdir í gegnum síma og tölvupóst og til taks allan sólarhringinn. Er ekki kominn tími til að staldra við og spyrja okkur hvort þetta sé virkilega það sem við viljum? Erum við á réttri leið? Og ef ekki, hvernig ætlum við að breyta samfélaginu til hins betra?

Styttum vinnuvikuna

Við hjá BSRB teljum algerlega nauðsynlegt að við byggjum upp fjölskylduvænt samfélag þar sem launafólki er gert kleift að samræma einkalíf og atvinnu. Samfélag sem byggir á jöfnum tækifærum og jafnri stöðu foreldra.

Þar er af mörgu að taka. Þar getum við nefnt baráttuna fyrir styttingu vinnuvikunnar. Það er liðin tæp hálf öld frá því ákveðið var að vinnuvikan skuli vera 40 stundir. Við sjáum öll hvílíkar breytingar hafa orðið á vinnumarkaðinum og samfélaginu öllu á hálfri öld.

Hvers vegna ættum við að vinna eftir næstum fimmtíu ára gömlu vinnufyrirkomulagi? Og hvaða afleiðingar hefur það fyrir okkur að gera það? Fyrir fjölskyldur okkar, börnin okkar og vinnuna?

Við sjáum afleiðingarnar alla daga. Við þekkjum streituna og álagið, könnumst við veikindin og aukna örorku. Við vitum líka að leikskóladagurinn er lengri hjá íslenskum börnum en á hinum Norðurlöndunum. Er þetta það sem við viljum?

Það eru aðallega konur sem axla þungann af ólaunuðum störfum við heimilis- og umönnunarstörf. Það skilar sér í lægri tekjum og minni starfsþróunarmöguleikum þeirra á vinnumarkaði.

Góðu fréttirnar eru að eftir áralanga baráttu eru sífellt fleiri farnir að taka undir með okkur og framsýnir stjórnendur farnir að prófa sig áfram með styttingu vinnuvikunnar.

Við getum stytt vinnudaginn og dregið með því úr álagi, streitu og veikindum án þess að hafa áhrif á afköst starfsmanna. Við sjáum líka að við það að stytta vinnuvikuna eykst starfsánægjan og það auðveldar fólki að samþætta vinnu og einkalíf.

Þá getur styttri vinnuvika stuðlað að auknu jafnrétti bæði á heimilum og á vinnumarkaði. Ef körlum er gert kleift að taka þátt með sama hætti og konum við umönnun barna sinna og í rekstri heimilisins minnka líkurnar á því að konur sæki í hlutastörf og vinnuþátttaka þeirra mun aukast.

Það græða allir á styttingu vinnuvikunnar. Það sjá framsýnir stjórnendur. Sumir hafa þegar stytt vinnutíma starfsmanna sinna. Aðrir eru að undirbúa það.

Útrýmum kynbundnum launamun

En það er fleira sem við þurfum að gera til að samfélagið okkar verði fjölskylduvænna. Ef við ætlum að byggja upp réttlátt samfélag gengur ekki að konur og karlar fái ekki sömu laun fyrir sömu vinnu.

Hluti af vandanum er kynskiptur vinnumarkaður þar sem mál hafa þróast með þeim hætti að þær stéttir þar sem konur eru í meirihluta fá ekki eðlileg laun fyrir ábyrgðarmikil störf. Við viljum að þeir sem sinna mikilvægum umönnunarstörfum fái greitt í samræmi við ábyrgð. Það er skakkt gildismat samfélagsins að borga þeim sem sýsla með peninga á tölvuskjá margföld laun umönnunarstétta.

Lykilatriði í því að jafna launamun kynjanna er réttlátt og gott fæðingarorlofskerfi. Í því verkefni hafa ASÍ og BSRB staðið þétt saman, meðal annars með herferðinni Betra fæðingarorlof. Það sýndi sig vel á árunum fyrir hrun að okkur varð vel ágengt í því að fá feður til að taka fæðingarorlof. En því miður hefur sá góði árangur nú að miklu leyti gengið til baka.

Þá þarf að tryggja öruggt dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi. Það er óásættanlegt að foreldrar búi við þá óvissu og fjárhagserfiðleika sem umönnunarbilið skapar. Það er sjálfsögð krafa að sveitarfélögin tryggi foreldrum og börnum sambærilega þjónustu yfir landið allt óháð aldri barna.

Enginn á að þurfa að segja #metoo

Jafnréttismál hafa verið ofarlega í huga okkar undanfarið. Með #metoo byltingunni fengu þolendur kynferðisofbeldis og áreitni, sterka rödd sem eftir var tekið. Þær hugrökku konur sem þar stigu fram hafa sýnt okkur svart á hvítu hver staðan er. Og það er okkar allra að breyta henni.

Nú hafa #metoo konur skilað skömminni og við eigum öll að hlusta. En það dugir ekki að hlusta, kinka kolli og halda áfram með óbreyttum hætti. Við verðum að bregðast við. Það er einfaldlega engin þolinmæði fyrir þessari hegðun lengur.

Við verðum að ráðast að rótum vandans. Þar gegna stéttarfélög lykilhlutverki. Við eigum öll rétt á því að geta sinnt okkar starfi án þess að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Um þann rétt verða stéttarfélögin að standa vörð. Við þurfum að berjast við hlið þeirra kvenna sem hafa stigið fram. Við þurfum að veita þeim stuðning til að vinna úr sinni reynslu og fá aðstoð hjá viðeigandi aðilum til að koma sínum málum í réttan farveg. Það höfum við gert og það munum við halda áfram að gera.

Þá þurfum við ekki síst að beina spjótum okkar að atvinnurekendum. Lögin eru skýr. Atvinnurekendur eiga að tryggja að allir séu öruggir á vinnustaðnum. Það eiga þeir að gera með fræðslu, áhættumati og áætlun um fyrirbyggjandi aðgerðir og hvernig eigi að bregðast við þegar slík mál koma upp. Því miður eru enn fjölmargir atvinnurekendur sem ekki uppfylla þessa skyldur.

Við þurfum einnig að þrýsta á stjórnvöld um breytingar. Það verður að vera eftirlit með vinnustöðum og heimildir til að sekta vinnustaði sem ekki fara að lögum þegar kemur að kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi.

Ég vil trúa því að #metoo byltingin muni leiða til nauðsynlegra og löngu tímabærra breytinga á samfélaginu. Samtök launafólks munu fylgja því fast eftir. Markmiðið er einfalt. Við viljum tryggja að í framtíðinni þurfi enginn að segja #metoo.

Þolinmæði gagnvart ofurlaunum er þrotin

Óréttlætið í samfélaginu blasir við launafólki hvert sem litið er. Á meðan forstjórar og stjórnendur fyrirtækja og stofnana fá tuga prósenta launahækkanir á milli ára eiga aðrir launamenn að sætta sig við hóflegar hækkanir í nafni stöðugleika.

Það er alltaf sama fólkið sem á að bera ábyrgð á þessum stöðugleika. Einhvern veginn virðist það alltaf vera þeir sem eru á lægstu töxtunum sem eiga að sætta sig við lág laun áfram á meðan aðrir taka til sín sífellt stærri sneið af kökunni.

Og á meðan forstjórar og stjórnendur fá verulegar launahækkanir finnst þeim sjálfsagt að tala um það á aðalfundum að það sé ekkert svigrúm til að hækka laun annars starfsfólks. Ekki til peningar til að hækka þá sem lægst hafa launin. Hræsnin verður varla meiri.

Það er engin tilviljun að hagsældin er mest í þeim samfélögum þar sem minnstur munur er á milli þeirra sem hafa lægstu launin og þeirra hæst launuðustu. Stjórnendur fyrirtækja verða að kunna sér hóf í launakröfum. Það er engin ástæða til að greiða þeim sem sýsla með peninga eða vinna við að stýra fyrirtækjum gríðarháa bónusa fyrir það eitt að mæta í vinnuna sína.

Ofurlaun stjórnenda eru ekki nýtt vandamál en þolinmæðin gegn þeim er endanlega þrotin. Okkur blöskrar öllum þegar við sjáum ofurlaun stjórnenda stórra fyrirtækja. Okkur blöskraði líka þegar Kjararáð hækkaði laun ráðherra, þingmanna og stjórnendur ríkisfyrirtækja, oft í nafni þess að leiðrétta hafi þurft laun þeirra. Á meðan talar verkalýðshreyfingin fyrir daufum eyrum þegar talað er fyrir leiðréttingu á launum heilu stéttanna sem dregist hafa aftur úr í launum. Trúir því einhver hér, að það sé tilviljun að þar sé oft um kvennastéttir að ræða?

Laga þarf skattkerfið til að bæta kjör þeirra tekjulægstu

Í kjarasamningum síðustu ára hafa verkalýðsfélög unnið ötullega að því að hækka lægstu launin og bæta kjör þeirra lægst launuðustu. Það hefur meðal annars verið gert með sérstökum krónutöluhækkunum. Enda þekkjum við það öll hvernig það er með prósentuhækkanirnar og lægstu launin.

Auðvitað má alltaf gera betur og það er augljóst öllum sem vilja sjá að lægstu launin eru allt of lág. Það verður verkefni í komandi kjarasamningum. En hvers vegna finnur fólk það ekki í heimilisbókhaldinu að launin hafi hækkað?

Skýringin er einföld. Á sama tíma og verkalýðshreyfingin hefur beitt sér mjög fyrir því að bæta kjör lægst launuðustu hópanna hafa stjórnvöld verið á allt annarri vegferð.

Skattbyrðin hefur aukist lang mest hjá tekjulægstu hópunum. Stjórnvöld hafa dregið jafnt og þétt úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun, vaxtabætur og barnabætur hafa verið skertar verulega og húsnæðisbætur sömuleiðis.

Kaupmáttaraukningin nær sem sagt ekki til þeirra sem verst hafa kjörin. Þetta er óréttlæti sem má ekki viðgangast. Stjórnvöld verða að snúa þessari þróun við og laga skattkerfið með það fyrir augum að bæta kjör þeirra tekjulægstu verulega.

Eðlilegt að tekist sé á innan verkalýðshreyfingarinnar

Það er augljóst öllum sem vilja sjá að það hafa verið átök innan verkalýðshreyfingarinnar undanfarið. Það er fullkomlega eðlilegt að þar sé tekist á um hugmyndafræði og aðferðir. Þannig hefur það alltaf verið innan hreyfingarinnar og þannig verður það vonandi um ókomna tíð.

En við verðum að vera nægilega stór til að stíga yfir þessa erfiðleika og nota samtakamáttinn til að ná okkar markmiðum, launafólki til heilla. Við vitum vel hverju við getum áorkað með samstöðunni en við vitum líka að við erum veikari gagnvart viðsemjendum og stjórnvöldum þegar við erum sundruð. Við verðum að vera nægilega stór til að vinna saman og nýta fjölbreytnina og ólíkar skoðanir í stað þess að takast á.

Sameiginlegir hagsmunir verkalýðshreyfingarinnar eru til að mynda í baráttunni fyrir því að launafólk búi við félagslegt öryggi. Launafólk verður að geta mætt afleiðingunum af slysum og veikindum eða atvinnumissi, eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Einnig þarf að tryggja öldruðum og öryrkjum lífeyri sem gerir þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi.

Það er brýnt að taka strax á húsnæðisvandanum. Þar þarf samstillt átak til að tryggja aukið framboð á öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Við því brugðust ASÍ og BSRB með stofnun Bjargs íbúðafélags árið 2016. Félaginu er ætlað að byggja hagkvæmt húsnæði fyrir tekjulægri hópa á vinnumarkaði. Nú eru framkvæmdir hafnar við fyrstu íbúðirnar og vonandi geta fyrstu íbúarnir flutt inn strax á næsta ári.

Beina verður húsnæðisstuðningi til þeirra sem þurfa mest á honum að halda og tryggja stöðugleika í framboði húsnæðis. Það leiðir til lægri húsnæðiskostnaðar einstaklinga og að þeir hafi raunverulegt val um að eiga eða leigja húsnæði, hvar sem þeir búa á landinu. Staðan á húsnæðismarkaði er algerlega óásættanleg og þörf á auknum þrýstingi á sveitarfélögin til að útrýma vandanum.

Þá verður að reka almannaþjónustuna á samfélagslegum grunni þar sem allir eiga jafnan rétt, óháð efnahag. Það á enginn að þurfa að búa við það að þurfa að fresta læknisheimsókn vegna kostnaðar. Það á enginn að þurfa að glíma við heilsubrest án þess að geta leitað sér hjálpar.

Skattbyrði á ekki að vera hlutfallslega mest hjá þeim lægst launuðu. Það er enginn vafi í okkar huga að þeir efnameiri eiga að bera hlutfallslega mestu skattbyrðina. Þá verður að stórauka stuðninginn við barnafjölskyldur og tekjulægri einstaklinga. Kaupmáttaraukningin í þessari uppsveiflu á að skila sér til allra!

Stöndum saman gegn ójöfnuði

Við skulum horfa fram á veginn á þessum alþjóðlega baráttudegi. Sagan sýnir með skýrum hætti hverju samtök launafólks hafa áorkað með samstöðunni. Stöndum saman gegn auknum ójöfnuði í samfélaginu, stöndum saman í baráttunni fyrir félagslegu réttlæti.

Við skulum einsetja okkur að byggja upp samfélag sem við getum verið stolt af að eftirláta börnunum okkar. Byggjum upp samfélag velferðar, jöfnuðar og samhygðar. Við erum sterkari saman.

Kæru félagar, til hamingju með daginn.

Ávarp Elínar Bjargar Jónsdóttur, formanns BSRB, í Stapa, Reykjanesbæ, 1. maí 2018


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?