Ávinningur af meira jafnvægi heimilis og atvinnulífs

Vaktavinnufólki gengur verr að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf en dagvinnufólki. Þetta var á meðal þeirra niðurstaðna sem Ragnheiðar Eyjólfsdóttur, verkefnastjóri, fjallaði um í erindi sínu um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs á á árlegum hádegisverðarfundi sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna af BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu í gær.

Í erindi Ragnheiðar kom þó jafnframt fram að starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði telur sig þó almennt ganga vel að samræma fjölskyldu og atvinnulíf, eða um 50% svarenda í könnun hennar, en sé rýnt nánar í niðurstöður rannsókna hennar birtist þó önnur mynd. Þannig þykir um 40% starfsfólks fækkun vinnustunda á viku vænleg leið til að stuðla að auknu jafnvægi atvinnulífs og fjölskyldu og þá var um fjórðungur þátttekenda sem taldi aukið sjálfstæði í vinnu, minni yfirvinnu og lækkað starfshlutfall myndi skila sama árangri. Ragnheiður benti því á að viss tækifæri kunni að felast í komandi kjarasamningsgerð hvað þessi atriði varðar. Þannig felist þjóðfélagslegur ávinningur af vellíðan starfsfólks vegna jafnvægis atvinnulífs og heimilis.

Markmið laga um fæðingarorlof um tengsl barns við báða foreldra og að karlar og konur geti samþætt atvinnulíf og fjölskyldu er í verulegri hættu samkvæmt því sem fram kom í erindi Ásdísar Arnalds, doktorsnema í félagsráðgjöf, en hún  fjallaði um fæðingarorlofskerfið á árunum eftir hrun. Hún benti sömuleiðis á að nú taka færri feður orlof en áður, þeir taka færri daga og færri feður taka langt samfellt orlof. Þannig kunna þessar breytingar að draga úr jafnri þátttöku foreldra í umönnun barna haldi þessi þróun áfram.

Þóra Kristín Þórsdóttir, doktorsnemi í félagsfræði,  fjallaði að lokum um samspil heimilis og vinnu meðal íslenskra hjóna. Samkvæmt rannsóknum hennar er heildarvinnuálag íslenskra foreldra í fullu starfi mest af Norðurlandaþjóðunum en sé horft til greiddrar vinnu, heimilisstarfa og umönnunar heimilismeðlima s.s. barna, vinna íslenskar mæður um 86 tíma á viku en íslenskir feður vinna um 77 tíma á viku, samkvæmt niðurstöðum rannsókna Þóru Kristínar. Niðurstöður Þóru sýndu því fram á að foreldrar í fullu starfi eru undir meira álagi hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og þá setur kynbundin verkaskipting meira álag á konurnar en karlana.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?