BSRB mun standa vörð um verkfallsréttinn

Verkfallsrétturinn er beittasta vopn launafólks.

BSRB mun aldrei samþykkja að þrengt verði að verkfallsréttinum, sem er beittasta vopn launafólks í baráttunni fyrir betri kjörum. Bandalagið lýsir sig hins vegar reiðubúið til að taka þátt í samtali við nýja ríkisstjórn um skipulag vinnumarkaðarins og fyrirkomulag kjarasamningsgerðar eins og fjallað er um í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarfið.

Það er fagnaðarefni að ný ríkisstjórn ætli að efla almannaþjónustuna frekar en BSRB saknar þess að þau áform séu útfærð frekar eða fjallað um hvernig eigi að fjármagna þau í stjórnarsáttmálanum. Bandalagið styður áform um að halda áfram greiningu á mönnunarþörf innan heilbrigðis- og menntakerfisins og að ráðast eigi í átak í mönnun innan lögreglunnar.

BSRB minnir á að afgerandi meirihluti þjóðarinnar hafnar frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, en í umfjöllun um heilbrigðismál í stjórnarsáttmálanum er hvergi vikið að rekstrarformum. Opinbera heilbrigðiskerfið hefur sannað mikilvægi sitt í heimsfaraldrinum og landsmenn kalla eftir því að ríkisstjórnin standi vörð um það kerfi.

Mikilvægt er að framlög til almenna íbúðakerfisins verði aukin til að fatlað fólk, eldra fólk og launafólk eigi kost á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Þá þarf að útfæra nánar hugmyndir í stjórnarsáttmálanum um að styðja við þá sem búa við háan húsnæðiskostnað.
BSRB fagnar því að sérstök áhersla sé lögð á réttlát umskipti í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum en minnir á að forsenda þess að það markmið náist er að verkalýðshreyfingin komi að stefnumótun.

Sí- og endurmenntun í eitt ráðuneyti

Í stjórnarsáttmálanum er fjallað um að efla eigi sí- og endurmenntun, meðal annars vegna loftslagsbreytinga og tækniframfara á vinnumarkaði. Það er brýnt skref að taka en hins vegar veldur skipting málaflokka eftir ráðuneytum áhyggjum enda virðist fræðsla fyrir fullorðna á vinnumarkaði, starfstengt nám og menntun sem veitt er á framhaldsskólastigi, eiga að vera á hendi tveggja eða fleiri ráðuneyta. Bandalagið telur farsælla að vinnumarkaðstengd fræðsla og menntun falli undir eitt ráðuneyti til að skapa aukna yfirsýn og samhæfingu innan málaflokksins og verði þannig fært til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?