BSRB semur – SFR gerir nýjan kjarasamning

BSRB og Samninganefnd ríkisins (SNR) undirrituðu í gærkvöld samkomulag í húsnæði ríkissáttasemjara. Samkomulagið fjallar um þau sameiginlegu mál sem aðildarfélög BSRB höfðu falið bandalaginu að semja um.

Þar er m.a. fjallað um forsendur kjarasamninga og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Þá eru aðilar sammála um að farið verði í að þróa aðferðafræði við að meta laun og launaþróun á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þegar niðurstöður slíkrar vinnu liggja fyrir munu aðilar samkvæmt samkomulaginu taka til umfjöllunar með hvaða hætti sé hægt að nýta þá aðferðafræði til að draga úr launamun á milli markaða og með hvaða hætti samspil launaákvarðana á almennum og opinberum vinnumarkaði verði metið svo launaþróun milli markaða haldist í hendur.

Einnig er fjallað sérstaklega um endurskoðun á málefnum vaktavinnufólks í samkomulaginu. Er þar sérstaklega átt við þá sem vinna styttri vaktir, oft nefndar stubbavaktir, og eru jafnvel kallaðir til starfa oftar en einu sinni á sólarhring. Aðilar samkomulagsins eru sammála um að slíkt sé íþyngjandi fyrir starfsmenn umfram það sem almennt gerist. Samkomulagið felur því í sér að á samningstímanum muni aðilar þess kanna forsendur hjá þeim stofnunum sem um ræðir og leita leiða til úrbóta og koma til móts við þá starfsmenn sem þetta snertir. Fjármálaráðuneytið mun á næstunni senda þeim stofnunum sem um ræðir bréf þar sem fram koma tilmæli ráðuneytisins til stofnanna hvað þetta varðar.

Í kjölfar þess að BSRB kláraði samkomulagið við SNR skrifaði SFR, fjölmennasta aðildarfélag BSRB, undir kjarasamning við ríkið. Kjarasamningurinn sem SFR og SNR undirrituðu í gærkvöld nær til um 3500 félagsmanna SFR sem starfa hjá ríkinu. Samningurinn er að mestu hliðstæður þeim samningum sem undirritaði hafa verið á síðustu misserum en helstu atriði í nýjum samningi SFR eru:

  • að laun hækki um 2,8% eða að lágmarki 8000. kr. fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Á launum sem eru lægri en 230.000 kr. á mánuði komi sérstök hækkun til viðbótar að upphæð 1.750 kr.
  • · við samþykkt samningsins greiðist 14.600 kr. eingreiðsla miðað við fullt starf í febrúar 2014 en hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall í sama mánuði.
  • eingreiðsla 20.000 kr. miðað við þá sem eru í fullu starfi í febrúar 2015 greiðist þann 1. apríl 2015 en hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall í sama mánuði.
  • persónuuppbót verður á samningstímanum 73.600 kr.
  • · orlofsuppbót verður á samningstímanum 39.500 kr.
  • samningurinn mun gilda frá 1. mars 2014 til 30. apríl 2015

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og í kjölfarið borin undir atkvæði.

Síðar í dag eiga fleiri aðildarfélög BSRB fundi með Samninganefnd ríkisins. Fastlega má búast við að það þokist í átt til undirritunar nýrra kjarasamninga hjá fleiri aðildarfélögum BSRB á næstu dögum. Þegar hefur Póstmannafélag Íslands samþykkt nýjan kjarasamning við Íslandspóst. Þá mun Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, sem nýverið hafnaði í atkvæðagreiðslu samningum við Reykjavíkurborg, funda á ný með samninganefnd borgarinnar um helgina til að leggja drög að nýju samkomulagi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?