Eigum langt í land að ná jafnrétti kynjanna

Það er staðreynd að vinnuvikan á Íslandi er lengri en á hinum Norðurlöndunum og almennt telja íslenskar fjölskyldur að álagið sé allt of mikið, sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í erindi sem á opnum fundi í Iðnó í gær, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Á fundinum fjallaði Elín Björg um jafnréttismálin út frá sjónarhorni verkalýðshreyfingarinnar undir yfirskriftinni „Kjarajafnrétti strax“. Hún sagði að þó Íslendingar standi vel hvað varði jafnréttismál í samanburði við aðrar þjóðir eigum við langt í land með að ná jafnri stöðu karla og kvenna.

Hún benti á að rúmlega þriðjungur kvenna á íslenskum vinnumarkaði sé í hlutastörfum. Rannsóknir bendi til þess að ábyrgð kvenna á fjölskyldu og börnum sé aðalástæða þess að þær vinna í hlutastarfi.

„Besta leiðin til að draga úr álaginu er að stytta vinnutímann. Reynsla Svía af styttingu vinnutíma sýnir meðal annars að konur verja tíma sínum fyrir sig og fá þannig aukna hvíld, en karlar taka aukinn þátt í umönnunar- og heimilisstörfum, sem stuðlar að jafnrétti kynjanna á heimilum,“ sagði Elín Björg.

Hún sagði mikilvægt að leita leiða til að samspil skóla, atvinnulífs og fjölskyldna sé sem best við innleiðingu á fjölskylduvænu samfélagi.

Starfsdagar, vetrarfrí og aðrir skóladagar sem ekki eru með hefðbundnu sniði eru alls 33 á hverjum vetri í grunnskólum í Reykjavík. Bætum nú við sumarfríinu og þá eru dagarnir orðnir 94 talsins. Launafólk á hins vegar almennt á bilinu 24 til 30 daga í orlof á hverju ári.

Elín Björg sagði fjölmörg verkefni í kjarabaráttunni og margar ástæður fyrir ójafnrétti. Til að eyða launamuni kynjanna verði að ráðast að rótum vandans. „Með því að karlar jafnt sem konur axli ábyrgðina í fæðingarorlofi barna og umönnun fram að leikskóla. Með því að ábyrgðin á fjölskyldunni og heimilinu verði jafnt á herðum karla og kvenna. Með því að vera góðar fyrirmyndir. Með því að eyða kynskiptum vinnumarkaði. Með því að konur séu í stjórnum, ráðum og stjórnendastöðum. Og þannig að valdaójafnvægi á vinnumarkaði meðal kvenna og karla verði eytt,“ sagði Elín Björg.

Ávarp Elínar Bjargar má lesa í heild sinni hér að neðan.


Kjarajafnrétti strax

Kæru félagar, til hamingju með daginn.

Það er mér sannur heiður, að fá að vera með ykkur hér í dag á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir stöndum við Íslendingar vel hvað varðar jafnrétti, sér í lagi ef við horfum á lagabókstafinn. Engu að síður eigum við langt í land með að ná jafnri stöðu karla og kvenna. Það er þó ekki þar með sagt að gefið hafi verið eftir í baráttunni. Raunar þvert á móti. Fleiri raddir og meiri liðsstyrkur hefur að mínu mati sett aukinn þunga í baráttuna.

Meiri breidd er í umræðunni um jafnréttismál og við erum upplýstari um þær áskoranir sem eru til staðar og einnig hvaða ástæður liggja þar að baki. Það er lykillinn að breytingum. Verkefnin í kjarabaráttunni eru víða og ástæðurnar fyrir ójafnrétti eru margþættar. Til að eyða launamuni kynjanna verðum við að ráðast að rótum vandans.

  • Með því að karlar jafnt sem konur axli ábyrgðina í fæðingarorlofi barna og umönnun fram að leikskóla.
  • Með því að ábyrgðin á fjölskyldunni og heimilinu verði jafnt á herðum karla og kvenna.
  • Með því að vera góðar fyrirmyndir.
  • Með því að eyða kynskiptum vinnumarkaði.
  • Með því að konur séu í stjórnum, ráðum og stjórnendastöðum.
  • Og þannig að valdaójafnvægi á vinnumarkaði meðal kvenna og karla verði eytt.

Fæðingarorlofskerfið okkar, sem var fyrirmynd alls heimsins þegar kom að jafnræði föður og móður, nær ekki lengur tilætluðum árangri. Verulega hefur dregið úr þátttöku feðra í fæðingarorlofi. Það hefur þær afleiðingar að meginábyrgð á umönnun ungbarns er hjá móðurinni.

Reynslan sýnir okkur að konur taka almennt sína þrjá mánuði og alla þrjá mánuðina sem foreldrar geta deilt sín á milli. Þeim feðrum fer fjölgandi sem taka ekkert fæðingarorlof og tvöfalt fleiri feður fullnýta ekki sína þrjá mánuði.

Að loknu fæðingarorlofi tekur við óvissa um dagvistunarúrræði barnsins. Takist ekki að útvega pláss á ungbarnaleikskóla eða hjá dagforeldri er það almennt móðirin sem er áfram heima með barnið. Algengt er að mæður lengi fæðingarorlof sitt og séu heima í eitt ár. Í erfiðustu aðstæðunum er ekki annað val en að vera heima með barni í tvö ár. Mæðurnar eru almennt tekjulægri og því kemur það oft betur út fyrir heimilisbókhaldið að þær lengi sitt orlof.

Það hefur svo leitt til þess að atvinnuþátttaka þeirra er ekki fyrir hendi, minnkar verulega eða þá að þær þurfa aukinn sveigjanleika í störfum sínum. Við verðum að lengja fæðingarorlofið til að auka jafnræði foreldra og taka mikilvægt skref í að brúa umönnunarbilið.

Það verður að hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi svo að tryggt sé að feður nýti sér rétt sinn. En það verður einnig að breyta hlutfalli greiðslna í orlofinu og tryggja að greiðslur upp að 300.000 krónum séu óskertar. Foreldrar verða að hafa efni á að vera í fæðingarorlofi.

Jafnræði í fæðingarorlofi og fram að leikskóla skilar sér margfalt til baka. Í fyrsta lagi felur það í sér að ekki er munur á atvinnuþátttöku karla og kvenna og barneignir munu ekki lengur hafa áhrif á starfsþróunarmöguleika kvenna.

Í öðru lagi sýna rannsóknir að þátttaka feðra í umönnun barns frá upphafi hefur veruleg áhrif á þátttöku þeirra í uppeldi barna sinna um alla framtíð.

Í þriðja lagi hefur jafnræði í fæðingarorlofi áhrif á sýn barnsins á verkaskiptingu föður og móður á fjölskyldu og heimilisábyrgð.

Það er staðreynd að vinnuvikan á Íslandi er lengri en á hinum Norðurlöndunum. Rúmlega þriðjungur kvenna á íslenskum vinnumarkaði eru í hlutastörfum. Rannsóknir benda til þess að ábyrgð á fjölskyldu og börnum sé aðalástæða þess að konur vinna í hlutastarfi. Almennt telja fjölskyldur að álagið sé allt of mikið. Besta leiðin til að draga úr álaginu er að stytta vinnutímann.

Reynsla Svía af styttingu vinnutíma sýnir, meðal annars, að konur verja tíma sínum fyrir sig og fá þannig aukna hvíld, en karlar taka aukinn þátt í umönnunar- og heimilisstörfum, sem stuðlar að jafnrétti kynjanna á heimilum.

Við innleiðingu á fjölskylduvænu samfélagi er mikilvægt að leitað sé leiða til að samspil skóla, atvinnulífs og fjölskyldna sé sem best. Starfsdagar, vetrarfrí og aðrir skóladagar sem ekki eru með hefðbundnu sniði eru alls 33 á hverjum vetri í grunnskólum í Reykjavík. Bætum nú við sumarfríinu og þá eru dagarnir orðnir 94 talsins. Launafólk á hins vegar almennt á bilinu 24 til 30 daga í orlof á hverju ári.

Launamun kynjanna má að miklu leyti rekja til kynjaskiptingu starfa. Það er hægt að benda á tvær leiðir til að berjast gegn henni. Við getum annars vegar barist fyrir hækkun launa kvennastétta. En það sem er hins vegar árangursríkara til framtíðar er að brjóta upp kynskiptinguna á vinnumarkaði. Þá reynir á breytingar á viðhorfum samfélagsins, námsvali, fyrirmyndum og staðalímyndum. Við verðum því að hefjast handa við að móta markvissa stefnu um uppbrot kynbundins náms- og starfsvals.

Rannsóknir sýna að körlum eru oftar boðin hærri laun en konum og launamunur getur myndast strax við upphaf ráðningar. Algengara er að fólki sé mismunað í launum á grundvelli kyns eftir því sem það verður eldra.

Jafnlaunastaðallinn tryggir að jafnverðmæt störf innan vinnustaða séu metin eins. Hann leiðir af sér aukið launajafnrétti innan vinnustaða, sem aftur leiðir af sér aukið launajafnrétti almennt og er liður í því að uppræta kynbundinn launamun.

Þrátt fyrir að verkefnin sem stöndum frammi fyrir séu ærin horfi ég björtum augum til framtíðar. Jarðvegurinn fyrir breytingar er frjór, samstaða um áskoranir og lausn þeirra vex dag frá degi, og eins og áður sagði þá eykst þunginn í baráttunni hratt og örugglega. Það verðum við að nýta, jafnréttisbaráttunni í hag. Kröfugöngum fyrir jafnrétti er að fjölga víða um heim. Markmiðið er í anda íslenska Kvennafrísins – að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna, jafnt í launuðum sem ólaunuðum störfum.

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna hafa konur um allan heim verið hvattar til að ganga út undir yfirskriftinni Dagur án kvenna. Áhersla í alþjóðlegri jafnréttisumræðu er aftur að færast að mikilvægi þess að tryggja jöfn tækifæri og jafna stöðu allra kvenna.

Ný bylgja femínisma er að fæðast sem leggur áherslu á baráttuna gegn afturför og aðför – að félagslegu réttlæti og kjarajafnrétti. Krafan er jafnrétti fyrir allar konur á vinnumarkaði, fjölskyldur þeirra og stuðningsmenn!

Ég fagna þessum liðsstyrk í baráttunni. Við munum eftir sem áður halda ótrauð áfram í baráttunni fyrir réttlæti allra kvenna, óháð stétt eða stöðu. Það verður ekki sýnd nein biðlund né þolinmæði í þeim efnum – við krefjumst kjarajafnréttis strax!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?