Fá lengra orlof enda samningar ekki afturvirkir

Meginreglan í vinnurétti er sú að breytingar á launum og starfskjörum eru ekki afturvirkar.

Starfsfólk sem ávann sér orlof fyrir gildistöku nýrra kjarasamninga þarf ekki beiðni yfirmanns til að taka hluta þess utan sumarfrístímabilsins og fá þar með 25 prósent lengra orlof þar sem ákvæði kjarasamninga var ekki afturvirkt, samkvæmt niðurstöðu félagsdóms.

Árið 2018 tóku gildi lög hér á landi sem banna mismunun á grundvelli aldurs, en tilkoma þeirra í íslenskan rétt hafði í för með sér að orlofsávinnslu starfsfólks var breytt í kjarasamningum vorið 2020. Breytingin varð til þess að allir félagsmenn BSRB eiga nú rétt til 30 launaðra orlofsdaga. Fyrir breytinguna hafði fjöldi orlofsdaga farið eftir lífaldri starfsmanna og þeir elstu áttu einir rétt til 30 daga orlofs. Þetta fól í sér mismunun á grundvelli aldurs.

Samkvæmt orlofslögum er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl en í kjarasamningum félaga innan BSRB er tímabil sumarorlofs almennt frá 1. maí til 15. september. Hjá flestum félögum á starfsfólk rétt á því að fá allt sitt orlof á því tímabili og að minnsta kosti 15 daga samfellda.

Sé orlof eða hluti þess tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, lengist sá hluti orlofsins almennt um 25 prósent. Það er því heimilt að taka orlof utan hins skilgreinda sumarorlofstímabils, en lenging fæst einungis í þeim tilvikum sem skrifleg beiðni yfirmanns liggur fyrir.

Fyrir undirritun kjarasamninganna var reglan um lengingu orlofs vegna töku þess utan sumarorlofstímabils með öðrum hætti. Þar var almennt ekki gerð krafa um skriflega beiðni yfirmanns, heldur nægði sú staðreynd að orlofið hafi sannanlega verið tekið utan sumarorlofstímabils. Eftir gildistöku kjarasamningana vildu einhverjir stjórnendur innan hins opinbera meina að lengra orlof sem hafði orðið til vegna töku orlofs utan skilgreinds sumarorlofstímabils falli niður vegna hins nýja ákvæðis.

Í nýlegum félagsdómi var tekist á um þetta en niðurstaðan varð sú að eldra orlof starfsfólks, sem hafði áunnið sér rétt til lengra orlofs á grundvelli eldri kjarasamninga, eigi áfram þann rétt. Það hefði þurft að koma fram sérstaklega í hinum nýja kjarasamningi ef ætlun samningsaðila væri að láta nýju regluna vera afturvirka, enda sé það meginregla í vinnurétti að breytingar á launum og starfskjörum séu ekki afturvirkar nema um það sé sérstaklega samið.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?