Fá rétt til frítöku sé 11 tíma hvíldartími ekki virtur

Heimilt er að lengja vinnulotu í allt að 16 klukkustundir til að bjarga verðmætum eða þegar almannaheill og öryggi krefst þess.

Í kjarasamningum eru venjulega sérstakar reglur um lágmarks hvíldartíma starfsfólks. Daglegur vinnutími á að vera skipulagður með þeim hætti að á hverju 24 stunda tímabili fái starfsfólk að minnsta kosti 11 klukkustundir í samfellda hvíld. Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími á 24 klukkustunda tímabili fari umfram 13 klukkustundir.

Það má þó skipuleggja vaktskipti þannig að lágmarkshvíld starfsmanns sé allt að 8 klukkustundir, í stað 11 klukkustunda, en þá að hámarki einu sinni á viku. Þetta er undantekning frá meginreglunni um 11 klukkustunda lágmarkshvíld. Við sérstakar aðstæður er jafnframt heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að 8 klukkustundir og lengja vinnulotu í allt að 16 klukkustundir, ef bjarga þarf verðmætum eða þegar almannaheill og öryggi krefst þess. Þær aðstæður geta til dæmis komið upp hjá lögreglu, slökkviliði og á heilbrigðisstofunum.

Hafi stjórnandi metið það svo að brýn nauðsyn sé til þess að starfsmaður njóti ekki 11 klukkustunda lágmarkshvíldar skapast frítökuréttur vegna þess. Starfsmaðurinn á rétt á einum og hálfum klukkutíma í frítökurétt fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist. Sú ávinnsla einskorðast ekki við heilar vinnustundir.

Hafi starfsmaður unnið samfellt í meira en 16 klukkustundir á 24 klukkustunda tímabili, talið frá upphafi vinnudagsins, án þess að hafa náð 8 klukkustunda samfelldri hvíld skal starfsmaðurinn fá 11 klukkustunda samfellda hvíld að lokinni vinnu án launafrádráttar. Þessu til viðbótar fær starfsmaðurinn eina og hálfa klukkustund í frítökurétt fyrir hverja vinnustund umfram 16 klukkustundir.

Upplýsingar um uppsafnaðan frítökurétt skulu koma fram á launaseðli starfsmanna. Heimilt er að greiða út hálfa klukkustund í dagvinnu af hverri einni og hálfri klukkustund sem starfsmaður hefur áunnið sér í frítökurétt, óski hann þess.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?