Félagsmenn BSRB vilja hækkun launa

Í kjarakönnun BSRB voru félagsmenn bandalagsins spurðir að því hvað þeim þætti að sitt stéttarfélag ætti að leggja mesta áherslu á í starfsemi sinni á næstu mánuðum og í komandi kjarasamningsviðræðum. Flestir nefndu hækkun launa sem mikilvægasta atriðið en þar á eftir töldu flestir að mikilvægast væri að hækka lægstu laun umfram önnur laun.

Konur og þeir sem yngri eru vilja frekar leggja áherslu á hækkun lægstu launa umfram önnur laun og þá leggur yngra fólk leggur einnig meiri áherslu en aðrir á aukið starfsöryggi. Raunar sést af niðurstöðum könnunarinnar að ef launaliðirnir eru teknir frá og önnur atriði sem nefnd voru eru skoðuð sérstaklega nefndu flestir að mikilvægast sé að auka starfsöryggi og réttindi launafólks.

Litlu færri nefndu mikilvægi þess að stytta vinnuvikuna og varð talsverð aukning á því hversu margir lögðu áherslu það mál á milli ára. BSRB hefur undanfarin ár barist fyrir því að fram fari athugun á mögulegri hagkvæmni þess að stytta vinnutíma og samkvæmt könnuninni er mikill vilji fyrir því að slíkt nái fram að ganga.

„Það er líklegt að þetta endurspegli aukið álag sem fólk hefur verið að upplifa í störfum sínum á allra síðustu árum. Við höfum í samtölum okkar við félagsmenn fundið fyrir miklum vilja til þess að endurskoða vinnutíma fólks og þá sérstaklega hjá þeim sem vinna vaktavinnu. Þessar niðurstöður styðja við það sem við höfum fundið og sýna okkur að álag í starfi hefur farið mjög vaxandi á allra síðustu árum,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Greina má ögn meiri vilja hjá heilbrigðisstéttum og löggæslufólki til þess að stytta vinnutíma en öðrum starfsstéttum innan BSRB enda hefur álag á þessar stéttir aukist hvað mest á árunum eftir efnahagshrun. Formaður BSRB telur líklegt að áherslur um endurskoðun á vinnutíma muni rata inn í kröfugerðir aðildarfélaga bandalagsins fyrir komandi kjarasamninga.

„Aðildarfélög BSRB fara sjálf með umboð til gerð kjarasamninga en eftir þá fundi sem ég hef átt með samningseiningum BSRB tel ég líklegt að þessar áherslur rati inn í kröfugerðir aðildarfélaga okkar. SFR hefur til að mynda þegar birt sína kröfugerð og þar er einmitt sérstaklega lög fram krafa um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks,“ segir Elín Björg Jónsdóttir og telur slíkar aðgerðir geta skilað sér í aukinni framleiðni og hagsæld. Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um vaxtahorfur á Íslandi er lögð mikil áhersla á aukna skilvirkni í hagkerfinu. Þar kom fram að Íslendingar vinna mun lengur en samanburðarþjóðir en framleiðni er þrátt fyrir það talsvert lakari.

„BSRB hefur lagt mikla áherslu á að allir samningsaðilar komi að því að byggja upp fjölskylduvænna samfélag. Í umræðu um aukna hagsæld telur BSRB því mikilvægt að horft sé til styttingu vinnuvikunnar. Þannig má ná fram aukinni framleiðni hagkerfisins bæði í auknum hagvexti og frítíma sem felur í sér aukningu hagsældar og lífsgæða. Við teljum þess vegna nauðsynlegt að kanna mögulega hagkvæmni þess að stytta vinnutíma til að ná fram fyrrnefndum markmiðum.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?