Fjárfestum í umönnun

Á 5. þingi Alþjóðsambands verkalýðsfélaga, sem lýkur í dag, hafa umönnunarstörf verið til umfjöllunar. Í aðdraganda þingsins var lögð fram skýrsla um efnið til að dýpka umræðuna þar sem dregin er fram reynsla og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til innan sex landa. Skýrslan byggir enn fremur á ítarlegri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem má finna hér.

Þingið gerir þá kröfu að stjórnvöld meti umönnunarhagkerfið að verðleikum og viðurkenni vægi þess í heildarhagkerfinu. Stefnumótun á sviði efnahagsstjórnunar þurfi að taka mið af því.

Umönnunarhagkerfið

Störf innan umönnunarhagkerfisins hafa í gegnum tíðina almennt verið ólaunuð og unnin af konum inni á heimilunum. Þessu þarf að breyta og tryggja að störfin séu fjármögnuð, skipulögð og framkvæmd af hinu opinbera. Umfang og mikilvægi umönnunarstarfa á heimsvísu endurspeglar að um grundvallarþjónustu er að ræða sem stuðlar að inngildandi hagvexti og sjálfbærri þróun. Hugtakið umönnunarhagkerfi byggir á skilgreiningu ILO og felur í sér ólaunuð störf innan heimilanna, líkt og umönnun barna, veikra ættingja, þjónustu við fatlað fólk eða eldra fólk, og formleg launuð störf á vinnumarkaði, svo sem innan menntastofnana, í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, þjónustu við fatlað fólk og eldra fólk.

Aukið jafnrétti kynjanna

Með því að breyta áherslum á þann veg að ólaunuð störf innan umönnunarhagkerfisins verði hluti af formlegum vinnumarkaði aukast möguleikar kvenna til að taka þátt í launaðri vinnu, atvinnuþátttaka eykst og konur þurfa síður að leita í hlutastörf. Það vinnur gegn fátækt kvenna og stuðlar að fjárhagslegu sjálfstæði þeirra. Í kjölfarið fylgir aukið jafnrétti kynjanna og launajafnrétti enda er umönnunarbyrðinni er létt af herðum þeirra og þær hafa tækifæri til að taka þátt á vinnumarkaði í fjölbreyttum störfum.

Til að þessar breytingar nái fram að ganga þarf að grípa til aðgerða og móta nýja stefnu á sviði umönnunar ásamt því að tryggja góð ráðningar- og starfsskilyrði starfsfólks. Áðurnefnd ILO skýrsla sýnir einnig fram á verulegan efnahagslegan ábata fjárfestinga á þessu sviði.

Opinber stefnumótun og vinnumarkaðsaðgerðir

Í skýrslu alþjóðasambandsins eru lagðar til sex tillögur að aðgerðum. Þar segir meðal annars að fullnægjandi opinber fjárfesting í samræmi við þann hagvöxt sem umönnunarhagkerfið skapar sé forsenda þess að skapa megi góð störf, geri konum kleift að taka þátt á vinnumarkaði í fjölbreyttum störfum og tryggir að öll hafi aðgengi að gæðaþjónustu á sviði heilbrigðisþjónustu, umönnunar og menntunar. Til þess að svo geti orðið þarf að innleiða opinbera stefnumótun og vinnumarkaðsaðgerðir sem hafa jafnrétti kynjanna að leiðarljósi, fjölskylduvænar stefnur innan vinnustaða sem stuðla að jafnari fjölskyldu- og umönnunarábyrgð og sveigjanleika í vinnu. Enn fremur þarf að stuðla að vitundarvakningu og efna til herferða sem hafa það að markmiði að útrýma feðraveldinu og afhjúpa og vinna gegn kynjaðri menningu og staðalímyndum kynjanna.

Endurmat á virði umönnunarstarfa

Skýr lagaumgjörð og stefnumótun um umönnunarhagkerfið vinnur gegn kerfisbundnu misrétti og kynskiptum vinnumarkaði. Tryggja þarf öryggi í vinnu þar sem markvisst er unnið gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Grípa þarf til aðgerða til að endurmeta virði umönnunarstarfa og viðurkenna framlag þeirra til samfélagsins í launasetningu.

Loks er því sérstaklega beint til stéttarfélaga að auka hlut kvenna í samninganefndum við gerð kjarasamninga og þau setji umönnunarstörf í forgang í verkalýðspólitísku starfi sínu, stefnumótun og aðgerðum.

Skýrslu ITUC má finna hér


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?