Fjölskylduvænna samfélag með styttri vinnuviku

Það er gott að eiga gæðastundir saman í sumarfríinu en þeim þarf að fjölga á öðrum árstímum.

Sumrin eru frábær árstími til að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum enda flestir sem taka sér sumarfrí á þessum tíma árs. Þó það sé gott að eiga gæðastundir á sumrin er markmið BSRB að fjölga þeim allt árið um kring. Stór áfangi í þá átt náðist í kjarasamningum sem undirritaðir voru síðasta vor þegar ákvæði um styttingu vinnuvikunnar voru samþykkt.

Launafólk á almennt auðveldara með að samræma vinnu og fjölskyldulíf á hinum Norðurlöndunum, eins og flestir sem þekkja til í Skandinavíu vita. Ein af skýringunum er sú að vinnudagurinn er almennt styttri, launafólk vinnur færri yfirvinnustundir og sveigjanleikinn er almennt meiri. Ekki má gleyma mun meiri réttindum foreldra í fæðingarorlofi sem fá almennt meiri tíma með börnum sínum áður en snúa þarf aftur til vinnu.

Fjölskylduvænt samfélag hefur verið eitt af stóru baráttumálum BSRB lengi. Fjallað er um þetta mikilvæga mál í stefnu bandalagsins sem samþykkt var á 45. þingi BSRB haustið 2018.

Stór þáttur í baráttunni fyrir fjölskylduvænna samfélagi hefur verið krafan um styttingu vinnuvikunnar. Nú hefur þeim áfanga verið náð að samið hefur verið um allt að fjögurra stunda styttingu í dagvinnu og að lágmarki fjórar og hámarki átta hjá vaktavinnufólki.

Í haust ætti vinna við undirbúning á styttingu vinnuvikunnar að ná hámarki á vinnustöðum hjá launafólki sem er i aðildarfélögum BSRB. Samtal innan vinnustaða um styttingu hjá dagvinnufólki á að klárast 1. október í síðasta lagi og styttingin að taka gildi frá 1. janúar í síðasta lagi, þó margir vinnustaðir muni vonandi byrja fyrr. Breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks eru flóknari og munu þær taka gildi 1. maí 2021.

Fæðingarorlof lengt en dagvistun ekki tryggð

Einnig náðist mikilvægur áfangi í baráttu BSRB fyrir fjölskylduvænna samfélagi á árinu þegar ákveðið var að lengja fæðingarorlofið úr 9 mánuðum í 12. Þá stendur eftir krafan um að réttur barna til öruggrar gjaldfrjálsrar dagvistunar af hálfu hins opinbera strax og fæðingarorlofi lýkur verði lögfestur.

Bandalagið telur mikilvægt að stefna stjórnvalda hafi samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs að leiðarljósi og að samhliða vinnu við að eyða kynbundnum launamun verði möguleikar foreldra til að verja gæðatíma með fjölskyldunni aukinn. BSRB telur einnig mikilvægt að skoða betur samspil atvinnulífs, skóla og heimila með það að markmiði að draga úr árekstrum og minnka álagið á launafólk. Foreldrar þekkja allir hversu erfitt það getur verið að leysa úr vandamálum tengdum starfsdögum, vetrarfríum og öðrum dögum þar sem skólar og leikskólar eru lokaðir.

Við því mætti til dæmis bregðast með sérstökum frídögum til að koma til móts við þarfir foreldra. Einnig þarf að auka réttindi fólks til fjarveru frá vinnu til að sinna veikum börnum, maka, foreldrum eða öðrum nákomnum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?