Fleiri fresta læknisheimsókn vegna kostnaðar

Tæpur fjórðungur landsmanna, um 21,8 prósent, hefur frestað því að sækja sér læknisþjónustu sem þörf var fyrir, samkvæmt könnun Rúnars Vilhjálmssonar prófsessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hann fjallaði um niðurstöður könnunarinnar á málþingi sem BSRB og ASÍ stóðu fyrir fyrr í vikunni.

Í könnuninni, sem gerð var á síðasta ári, voru þátttakendur spurðir hvort þeir hefðu frestað læknisþjónustu sem þörf hafi verið fyrir síðustu sex mánuði á undan. Alls sögðust 21,8 prósent hafa gert það, sem er svipað hlutfall og árið 2006, þegar 21,7 prósent sögðust hafa frestað því að leita sér lækninga í sambærilegri könnun.

Fleiri nefna kostnaðinn
Þó hlutfallið hafi ekki breyst hafa ástæður þess að fólk leitar ekki strax til læknis þó tilefni sé til tekið talsverðum breytingum. Árið 2006 sögðu um 60 prósent svarenda að ástæðan fyrir frestuninni væri að þeir væru of uppteknir. Það hlutfall var í fyrra komið niður í 47,8 prósent.

Árið 2006 nefndu 30 prósent þeirra sem sögðust hafa frestað læknisheimsókn að ástæðan hafi verið kostnaður. Í könnuninni í fyrra sögðu rúmlega 41 prósent kostnaðinn ástæðuna.

Rúnar nefndi sérstaklega að það valdi áhyggjum að þeim hafi fjölgað verulega sem viti ekki til hvaða læknis eigi að leita. Árið 1998, þegar Rúnar rannsakaði þetta fyrst, sögðust um 10 prósent hafa frestað því að leita til læknis vegna þess að þeir vissu ekki hvert átti að leita. Það hlutfall var komið í 19,7 prósent árið 2006 og í 22,5 prósent í fyrra.

Rétt er að taka fram að hægt var að nefna fleiri en eina ástæðu fyrir því að fresta læknisheimsókn í könnun Rúnars.

Sífellt hærra hlutfall tekna fer í heilbrigðisþjónustu
Í rannsókn Rúnars voru meðalútgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu einnig könnuð. Útgjöldin til þessa málaflokks voru að meðaltali tæpar 156 þúsund krónur á ári á árinu 2014. Það er umtalsvert lægra en þær 174 þúsund krónur sem meðal heimilið eyddi í þjónustuna árið 2006, á uppreiknuðu verðlagi.

Rúnar benti í erindi sínu á að þar liggi ákveðnar skýringar að baki. Til dæmis eyði fólk mun lægri upphæðum í tannlæknaþjónustu, og tæki og vörur aðrar en lyf sem keypt eru í lyfjaverslunum. Þá segi þetta ekki alla söguna, þar sem rauntekjur heimilanna hafi lækkað mikið eftir árið 2008.

Ein af hverjum tíu krónum í heilbrigðisþjónustu
Þannig hefur hlutfall af heildartekjum heimilanna sem varið er í heilbrigðisþjónustu aukist um rúmlega fjórðung á þessu sama tímabili. Árið 2006 eyddu heimilin 2,7 prósent af heildartekjum sínum í heilbrigðisþjónustu. Árið 2014 var þetta hlutfall komið í 3,3 prósent.

Þegar aðeins er litið til ráðstöfunartekna heimila fara um 4,3 prósent ráðstöfunartekna heimila að meðaltali í heilbrigðisþjónustu á venjulegu heimili. Staðan er enn erfiðari hjá ýmsum hópum. Þannig fara 5,1 prósent ráðstöfunartekna námsmanna í þennan málaflokk, 6,7 prósent þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði og 4,9 prósent hjá langveikum. Hlutfallið var langsamlega hæst hjá öryrkjum, 9,4 prósent, nærri ein af hverjum tíu krónum.


Nánar verður sagt frá erindum frummælenda á málþingi BSRB og ASÍ um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu á næstunni. Áhugasamir geta kynnt sér slæður frá frummælendum hér að neðan.


Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ.
Félagslegt heilbrigðiskerfi, einkavæðingin og hagsmunir sjúklinga.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í opinberri stjórnsýslu við HÍ.
Aukinn einkarekstur á heilbrigðisþjónustu í opinberum kerfum: Helstu einkenni hans og áhrif til lengri tíma.

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna.
Heilsugæsla: Aðgengi, jöfnuður, ábyrgð.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?