Framtíð sameiginlegs norræns vinnumarkaðar

Dagana 21.-22. maí halda Norðurlönd upp á 60 ára afmæli sameiginlegs norræns vinnumarkaðar með afmælisráðstefnu í Reykjavík. Um leið stendur norrænn vinnumarkaður frammi fyrir miklum áskorunum, þ.á.m. miklu atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks, minnkandi aðild launafólks að stéttarfélögum og minna atvinnuöryggi, svo nokkuð sé nefnt. Norrænn vinnumarkaður hefur einnig víkkað út frá árinu 1954 með innri markaði ESB og stækkun ESB til austurs. Af þessu tilefni hafa Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ ásamt Magnus Gissler framkvæmdastjóra Norræna verkalýðssambandsins ritað ráðherrum og þingmönnum á Íslandi bréf þar sem lagðar eru til þrjár aðgerðir til að bregðast við ástandinu á norræna vinnumarkaðnum.

Bregðast þarf við þessum grundvallarviðfangsefnum með víðtækum aðgerðum á mörgum sviðum stjórnmála, og þar skipta efnahagsmál og vinnumarkaðsmál mestu máli. Í apríl 2012 lagði NFS til að Norðurlönd settu sér það markmið að árið 2014 yrði búið að ryðja úr vegi öllum stjórnsýsluhindrunum á vinnumarkaði til að efla norrænan vinnumarkað og samkeppnishæfni Norðurlanda. Sú hefur ekki orðið raunin, en það er ekki of seint að bæta sameiginlegan norrænan vinnumarkað og af því tilefni leggja fyrrnefndir aðilar og samtökin sem þeir fara fyrir eftirfarandi aðgerðir

1. Koma á átta vikna reglu í atvinnuleysistryggingakerfinu í Svíþjóð

Samkvæmt úttekt sem NFS gerði í samstarfi við sænska atvinnuleysistryggingasjóði urðu yfir 70 einstaklingar á árinu 2013 fyrir því að atvinnuleysisbætur þeirra hrundu niður í grunnbætur eftir störf erlendis – vegna þess að viðkomandi hafði dregið að skrá sig í sænskan atvinnuleysistryggingasjóð. Í Svíþjóð eru tímamörkin strangari en í Danmörku og Finnlandi þegar einstaklingur flytur sig milli atvinnuleysistryggingakerfa tveggja landa.

Þetta vandamál má leysa með því að í Svíþjóð verði komið á svokallaðri átta vikna reglu, sem leyfir allt að átta vikna hlé á tryggingartímabilinu þegar aðild að atvinnuleysistryggingum er flutt á milli landa. Í skýrslu almannatrygginganefndar sænska þjóðþingsins var slík regla einmitt lögð til (SOU 2011:74), og hún bíður nú samþykktar sænska þingsins.

2. Gefa kost á starfsþjálfun á vinnumarkaði í öðru norrænu landi

Í dag getur einstaklingur sem býr nálægt landamærum ekki nýtt vinnumarkað nágrannalandsins til að finna hentugan vinnustað til starfsþjálfunar. Ástæðan er m.a. fyrirkomulag eftirlits með vinnustað og tryggingum þess sem fer í starfsþjálfun, en hvort tveggja er forsenda starfsþjálfunar á vinnumarkaði.

Þessi vandamál má leysa, það myndi skapa forsendur fyrir virkari vinnumarkaði, einkum á landamærasvæðum.

3. Lágmörkun nýrra stjórnsýsluhindrana

Ef haft er í huga hve miklu er til kostað til að rannsaka og leita lausna á stjórnsýsluhindrunum, er bæði hagkvæmt og pólitískt skynsamlegt að lágmarka fjölda nýrra stjórnsýsluhindrana. Einnig er mikilvægt að leggja áherslu á að löndin komi ekki á stjórnsýsluhindrunum af ráðnum hug. Stefnumörkun frá Norðurlandaráði um að öll ný löggjöf skuli virða norræna samninga væri stórt skref í rétta átt. Norræna verkalýðssambandið, NFS, er samstarfsvettvangur landssamtaka launafólks á Norðurlöndum. Sextán landssamtök verkalýðsfélaga, opinberra starfsmanna og háskólamanna á Norðurlöndum eiga aðild að NFS. Sambandið er því fulltrúi yfir átta milljóna launþega, af öllum Norðurlöndum.

Afnemum stjórnsýsluhindranir

Ávinningur þess að afnema stjórnsýsluhindranir er mikill, og á það ekki síst við um stjórnsýsluhindranir á vinnumarkaði. Í tilefni af 60-ára afmæli sameiginlegs norræns vinnumarkaðar hvetur Norræna verkalýðssambandið (NFS) ykkur til að vinna að því að fyrrnefndum stjórnsýsluhindrunum verði rutt úr vegi og stuðla þannig að samhæfingu á svæðinu og alþjóðlegri samkeppnishæfni Norðurlanda.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?