Góð hagstjórn að tryggja jafnrétti og velsæld

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hélt fyrirlestur í morgun á ráðstefnu norrænna starfsmannafélaga sveitarfélaga (NTR) sem bar yfirskriftina Saman vinnum við stóru sigrana.

Í fyrirlestri sínum lagði hún áherslu á nýja nálgun við hagstjórn sem tekur mið af velsæld fólks. „Hagfræði hefur veruleg áhrif á stefnumótun og ákvarðanir stjórnvalda, á vinnumarkaði og við lagasetningu. Hagfræði er félagsvísindagrein en áherslan á stærðfræðileg rök í fræðunum leiðir til þess að nálguninni er gjarnan tekið sem raunvísindi. Þessi nálgun veitir falskt öryggi þar sem mikilvægir og órjúfanlegir þættir í okkar samfélagi á borð við heilsu, umhverfið og ójöfnuð eru ekki hluti af klassískum hagfræðimódelum.“ Nefndi hún til sögunnar þrjár konur, Stephanie Kelton, Kate Raworth og Mariana Mazzucato, allt hagfræðingar sem skora úreltar hagfræðikenningar á hólm.

Sonja telur að stjórn­völd skýli sér gjarnan á bak við gamaldags hagfræði og horfi þannig of mikið til skulda, hagvaxtar og annarra hagvísa sem að eru ekki endilega bestu mælikvarðar á samfélagslega velsæld. Mýtur um hvernig verðmæti verða til séu nýttar til þess að takmarka fjármagn í samfélagslega mikilvæg verkefni á borð við heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, aðgerðir sem stuðla að jafnrétti og tryggja réttlát umskipti, „Það er ekki er hægt að mæla allt það sem telst mikilvægt fyrir okkur sem samfélag og það sem er mælanlegt er ekki endilega alltaf það sem er mikilvægast. Byggt á þessu hefur Mariana Mazzucato t.d. ítrekað bent á mikilvægi þess að stjórnvöld marki sér skýra sýn um hvernig samfélag þau vilji stuðla að, allar ákvarðanir þeirra taki mið af því markmiði og þannig móti þau samfélagsgerðina. Og sömuleiðis fjallar hún um mikilvægi stéttarfélaga við að móta samfélagið sem við viljum til framtíðar – með því að skora stöðugt á viðtekin viðhorf, móta stefnu til framtíðar og hafa áhrif á samfélagsgerðina með því að stuðla að varanlegum breytingum,“ sagði Sonja.

Þá lagði Sonja höfuðáherslu á mikilvægi þess að leiðrétta vanmat á störfum kvennastétta til að ná árangri í jafnréttismálum, „Hefðbundin kvennastörf hafa lengi verið vanmetin á kerfislægan hátt og úreltar hugmyndir um hlutverk kynjanna viðhalda þessu misrétti. Í því felst meðal annars að konur og karlar gegna ólíkum störfum á vinnumarkaði og kynjaskipting milli starfsgreina er áberandi. Konur eru í miklum meirihluta starfsfólks á opinberum vinnumarkaði líkt og í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntakerfinu. Laun karla eru þó alltaf hærri en kvenna óháð því hvort þeir starfa á almennum eða opinberum vinnumarkaði. Rannsóknir sýna að kerfisbundið vanmat á svonefndum kvennastörfum leiðir til lægri launa um allan heim og er meginástæðan fyrir kynbundnum launamun. Þetta hefur verið vitað í lengri tíma án þess að gripið hafi verið til markvissra aðgerða. Það er líkt og samfélagið telji sjálfsagt að konur haldi uppi velferðinni á afsláttarkjörum. Lengi lifir í gömlum glæðum úr sér genginna hagfræðikenninga.“


Sonja telur að rangt hafi verið gefið í upphafi  þegar umönnunarstörf urðu til á vinnumarkaði og því getum við ekki haldið áfram að horfa eingöngu til þess að launaþróun þeirra eigi að vera sú sama og annarra starfa á vinnumarkaði. Leiðrétta þurfi skekkjuna.

Að lokum sagði Sonja Ýr að verkalýðshreyfingin sé stærsta friðarhreyfing í heimi og hún eigi að setja sér háleit og róttæk markmið. Hún sé afl sem getur breytt heiminum og skapað nýja framtíð fyrir afkomendurna, „Við í verkalýðshreyfingunni erum fulltrúar vinnandi fólks og við getum saman stuðlað að samfélagi jöfnuðar sem fólk langar til að búa í. Saman erum við sterk og saman getum við breytt heiminum.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?