Höfnum skammtímalausnum í heilbrigðismálum

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Það fer oft minna fyrir góðu fréttunum en þeim slæmu. Þess vegna eru sagðar færri fréttir af því þegar vel gengur að ná niður biðlistum í heilbrigðiskerfinu en þegar þeir lengjast. Það gæti því hafa farið framhjá einhverjum að átak sem heilbrigðisyfirvöld hafa staðið fyrir til að stytta biðlista eftir aðgerðum hefur gengið vel. Biðlistarnir eru að styttast en verkinu er ekki lokið. Augljóslega er óásættanlegt að sjúklingar þurfi að bíða lengi eftir því að komast í aðgerðir sem geta bætt lífsgæði og líðan.

Þess vegna vekur eftirtekt hversu mikill þrýstingur er nú á heilbrigðisyfirvöld að stórauka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, þvert á vilja mikils meirihluta landsmanna. Skýringin gæti verið sú að áhugamenn um einkavæðingu telji sig eiga meiri möguleika að ná sínu fram núna en þegar biðlistar hafa styst enn meira.

Íslendingar hafa borið gæfu til þess að hafa haldið í heilbrigðiskerfi sem rekið er á félagslegum grunni, fjármagnað af skattfé og rekið af hinu opinbera að mestu. Nýlegar kannanir staðfesta svo ekki verður um villst að afgerandi meirihluti landsmanna, meira en fjórir af hverjum fimm, vilja halda heilbrigðiskerfinu í opinberum rekstri og hafna frekari einkavæðingu. 

Talsmenn þess að einkavæða í heilbrigðisþjónustu tala gjarnan um að með því að semja við einkaaðila sé ekki verið að einkavæða. Einkarekstur sé ekki það sama og einkavæðing. Þar eru þeir ósammála fræðimönnum á sviði opinberrar stjórnsýslu. Einkarekstur er ekkert annað en einkavæðing á þjónustu. Það er óþarfi að reyna að fela einkavæðinguna með því að finna fallegra orð. Köllum hlutina sínum réttu nöfnum.

Þvert gegn hagsmunum almennings

En hvers vegna ætti ríkið ekki að nota sér þjónustu einkaaðila á þessu sviði eins og öðrum? Svarið er einfalt. Það gengur þvert gegn langtímahagsmunum almennings í landinu. Fyrir því eru ýmis rök. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu takmarkar getu og svigrúm stjórnvalda til að taka stefnumarkandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag kerfisins í þágu almannahagsmuna. Mikill einkarekstur veldur því að ríkisvaldið getur síður beitt sér til að tryggja gæði og öryggi. Og einkareksturinn veldur því að þjónustan verður brotakennd þar sem hana veita margir mismunandi aðilar með mismunandi sýn.

Við þurfum ekki og eigum ekki að gera tilraunir með íslenska heilbrigðiskerfið. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á kosti félagslegra kerfa eins og við höfum búið við að mestu hér á landi. Félagslegu kerfin skila bestu aðgengi að þjónustu, lægstum kostnaði og bestri lýðheilsu. Blönduð kerfi, eins og þekkjast víða í Vestur-Evrópu, koma næst best út. Aðgengi er svo verst og kostnaðurinn hæstur í kerfum þar sem þjónustan er einkarekin. 

Með aukinni einkavæðingu minnka einnig möguleikar á því að byggja upp þekkingu í heilbrigðiskerfinu og miðla henni áfram. Í litlu landi eru ekki margir sérfræðingar á hverju sviði. Ef þekkingin er ekki til staðar innan háskólasjúkrahússins okkar er hætt við að það verði erfitt að miðla henni áfram til næstu kynslóðar lækna. Sama á við um dýran búnað sem þarf að vera til staðar. Getan til að kaupa og viðhalda fyrsta flokks búnaði minnkar ef fé til að gera aðgerðir þar sem búnaðurinn nýtist dreifist á marga staði.

Tökum á vandamálunum

Í ljósi alls þessa, er einhver ástæða til að skoða frekar aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Svarið er einfalt. Ef við höfum hagsmuni almennings að leiðarljósi munum við hafna því algerlega. Biðlistar eru vandamál sem þarf að taka á. Það á að gera með því að bæta það heilbrigðiskerfi sem almenningur vill hafa. Tökum á vandamálum sem koma upp en höfnum skammtímalausnum sem geta eyðilagt íslenska heilbrigðiskerfið til framtíðar.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?