Isavia greiði 7 milljónir vegna ólöglegrar uppsagnar

Fyrir skemmstu féll dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli félagsmanns BSRB og FÍF, félags íslenskra flugumferðarstjóra. Þar var Isavia ohf. gert að greiða félagsmanninum miskabætur vegna meiðandi framkomu í hans garð auk bóta vegna fjártóns af völdum ólöglegrar uppsagnar hans, samtals 7.000.000 króna auk málskostnaðar. Dómurinn er sá nýjasti sem Isavia hefur fengið á sig vegna sambærilegra mála á síðustu árum.

Eldri ráðningarsamningur enn í gildi

Héraðsdómur féllst á að uppsögn mannsins hafi verið ólögmæt þar sem honum hafði ekki verið veitt áminning skv. 21.gr. og  44.gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þótt Isavia sé nú opinbert hlutafélag sem starfar á almennum vinnumarkaði var skýrt kveðið á um í ráðningarsamningi hans frá árinu 1996 að um réttindi og skyldur hans giltu fyrrnefnd lög. Sá samningur var enn í gildi þegar manninum var sagt upp störfum í október 2010.

Þann 1. maí 2010 sameinuðust opinberu hlutafélögin Flugstoðir og Keflavíkurflugvöllur undir merkjum Isavia og við þá breytingu tók Isavia ohf. yfir öll réttindi og skyldur hinna sameinuðu félaganna. Þótt Isavia og FÍF hafi gert með sér nýja kjarasamninga árið 2008 og aftur í apríl 2010 var ráðningarsamningur mannsins frá 1996 metinn í gildi þegar honum var sagt upp störfum. Í kjarasamningunum árin 2008 og 2010 var hvorki að finna ákvæði um réttarvernd starfsmanna við uppsögn né skírskotun til réttarstöðu starfsmanna ríkisins. Niðurstaða dómsins var því að uppsögnin hafi verið ólögmæt og bæri Isavia að greiða manninum bætur, samtals 6.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 20. febrúar 2012.

Aðhöfðust ekkert vegna ásakana um einelti

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur einnig fram að hin fyrirvaralausa og ólögmæta uppsögn flugumferðarstjórans hafi falið í sér meiðandi og ólögmæta meingerð gegn honum. Honum var ekki gefinn kostur á að andmæla þeim ávirðingum sem bornar voru upp á hann áður en til uppsagnar kom. Auk þess voru ásakanir Isavia til þess fallnar að gera honum erfiðara fyrir í leit að nýju starfi.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur fjallar einnig í dómsorðum sínum um viðbrögð Isavia ohf. þegar stefnandi í málinu leitaði til starfsmannastjóra  Isavia vegna meints eineltis yfirmanns síns þegar hann var enn í starfi. Starfsmannastjórinn staðfesti fyrir dómi að honum hefði verið tilkynnt um málið. Starfsmannastjórinn mat það hins vegar sem svo að ekki þyrfti að bregðast við ásökunum með því að leita utanaðkomandi aðstoðar samkvæmt eineltisáætlun.

Dómurinn telur því að framkoma Isavia gagnvart stefnanda hafi verið meiðandi og verulega hafi skort upp á eftirfylgni í tengslum við umkvartanir stefnda. Þótti dómnum því rétt að greiða manninum miskabætur að auki og voru þær hæfilega metnar 500.000 krónur. Samtals var Isavia því gert að greiða manninum 7 milljónir í miska- og skaðabætur með dráttavöxtum auk málskostnaðar.

Isavia fari að lögum

Nýfallinn dómur yfir Isavia er því miður ekki einsdæmi í stuttri sögu fyrirtækisins. Í desember í fyrra dæmdi Hæstiréttur Isavia til að greiða félagsmanni Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) miskabætur vegna þess hvernig staðið var að uppsögn á ráðningarsamningi við hann. Þá var Isavia einnig dæmt í Hæstarétti í desember árið 2011 til greiðslu bóta vegna  ólöglegrar uppsagnar félagsmanns SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu.  Sá dómur Hæstaréttar var hafður til hliðsjónar í nýföllnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli félagsmanns FÍF.

BSRB brýnir fyrir forsvarmönnum Isavia að virða kjarasamningsbundinn réttindi starfsmanna sinna. Isavia er opinbert hlutafélag sem er alfarið í eigu ríkisins og eini atvinnurekandi landsins í fjölmörgum sérhæfðum störfum. Í ljósi stöðu sinnar á vinnumarkaði hvílir enn ríkari skylda á félaginu að gæta þess að farið sé að lögum í samskiptum við starfsfólk.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?