Jafnlaunakerfi - Kröfur og leiðbeiningar

Út er kominn staðallinn ÍST 85 Jafnlaunakerfi - Kröfur og leiðbeiningar. Staðallinn er ætlaður sem grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja á vinnustöðum. Markmið hans er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað sínum. Jafnframt gefst þeim sem uppfylla skilyrði staðalsins möguleiki á að fá vottun þar um.

Í III. kafla laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er fjallað um þá skyldu atvinnurekanda að tryggja jafnrétti kynja innan fyrirtækis síns eða stofnunar, m.a. með samþykkt sérstakrar jafnréttisáætlunar eða eftir atvikum með samþættingu jafnréttissjónarmiða við starfsmannastefnu. Þá er þar kveðið á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Ákvæði jafnréttislaga nr. 10/2008 um jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf felur ekki í sér að þeir einstaklingar sem ákvæðið tekur til skuli fá nákvæmlega sömu krónutölu í laun. Lagaákvæðið kemur heldur ekki í veg fyrir að litið sé til einstaklingsbundinna þátta, hópbundinna þátta  eða sérstakrar hæfni starfsmanns við launaákvörðun, svo fremi sem einnig þar sé byggt á málefnalegum sjónarmiðum sem ekki fela í sér beina eða óbeina kynbundna mismunun.

Í jafnlaunastaðlinum er tilgreint að atvinnurekandi skuli við innleiðingu hans jafnframt ákvarða hvort og þá hvernig umbunað er fyrir einstaklingsbundna þætti eða hópbundna þætti, þ.e. hvaða málefnalegu viðmið þar skuli lögð til grundvallar.

Með jafnlaunastaðlinum er ætlunin að láta fyrirtækjum í  té verkfæri til að reka skilvirkt jafnlaunakerfi  sem eftir atvikum er hægt að samþætta öðrum stjórnunarkerfum.  Jafnlaunastaðallinn á að henta fyrirtækjum og stofnunum af öllum stærðum og gerðum.

Hægt er að kynna sér hinn nýja jafnlaunastaðal á www.stadlar.is


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?