Jöfnuður í samfélaginu er forsenda stöðugleika

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Kæru félagar

Til hamingju með daginn!

Íslendingar hrósuðu sér lengi af því að stéttskiptingin í samfélaginu væri lítil sem engin. Hafi það einhverntíman verið satt, sem sannarlega eru veruleg áhöld um, er það augljóslega ekki staðan í dag. Þvert á móti hefur misskiptingin í samfélaginu aukist jafnt og þétt á undanförnum árum.

Þeir sem tala hvað hæst fyrir mikilvægi efnahagslegs stöðugleika, en átta sig ekki á mikilvægi þess að koma á félagslegum stöðugleika, ættu að líta til þessa. Jöfnuður í samfélaginu er ein helsta forsenda stöðugleika. Á meðan sumir eiga varla til hnífs og skeiðar og horfa á aðra greiða sjálfum sér margföld árslaun venjulegs launafólks í bónusa eða arð verður engin sátt og enginn stöðugleiki. Eftir því sem misskiptingin í samfélaginu verður meiri munu þau átök sem einkennt hafa samfélag okkar undanfarið harðna.

Ef stjórnmálamönnum og öðrum sem tala um stöðugleika er einhver alvara verður að byrja á því að tryggja launafólki og almenningi öllum mannsæmandi lífskjör og draga úr misskiptingunni frekar en að halda áfram að auka ójöfnuð.

Markmið okkar allra á að vera að auka lífsgæði í landinu og koma á velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd sem við getum öll verið stolt af.

Húsnæðismálin brenna á

Undanfarið hefur verið mikið fjallað um erfiða stöðu á húsnæðismarkaði. Húsnæðisverð og leiguverð hafa hækkað gríðarlega, meðal annars vegna uppkaupa fjársterkra húsnæðisfélaga og útleigu á íbúðum til ferðamanna.

Það eru grundvallarhagsmunir almennings að hafa örugga búsetu. Þar hefur verkalýðshreyfingin þurft að grípa til beinna aðgerða. BSRB og ASÍ hafa tekið höndum saman um stofnun Bjargs íbúðafélags. Félagið mun byggja að lágmarki 1.150 íbúðir á næstu fjórum árum og leigja þær tekjuminni félagsmönnum. En það þarf meira til. Stjórnvöld og sveitarfélögin þurfa að taka höndum saman strax um að leysa vandann svo allir geti keypt eða leigt húsnæði á eðlilegum kjörum.

Stytting vinnuvikunnar lofar góðu

BSRB hefur á undanförnum árum lagt þunga áherslu á að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hversu mikilvægt það er að byggja upp samfélag sem gerir fólki kleift að samræma fjölskyldulíf og atvinnu í anda norræna velferðarsamfélagsins.

BSRB tekur þátt í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar án launalækkunar. Það hefur lengi verið stefna bandalagsins að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 og tilraunaverkefnin eru mikilvægt skref í þá átt.

Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar hefur nú verið í gangi í tvö ár. Í vor fór svo í gang tilraunaverkefni á stofnunum ríkisins sem afar spennandi verður að fylgjast með. Fyrstu niðurstöður úr verkefni Reykjavíkurborgar lofa góðu. Mælingar sýna marktækt betri líðan starfsmanna, aukna starfsánægju og minni veikindi. Á móti má ekki merkja að breyting sé á afköstum starfsmanna.

Ef ætlunin er að byggja upp norrænt velferðarsamfélag sem stendur undir nafni er einnig nauðsynlegt að skoða samspil atvinnulífs, skóla og heimila. Markmiðið verður að vera að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Auka þarf sveigjanleika í starfi svo starfsmenn geti sinnt börnum í skóla og öðrum aðstæðum sem geta komið upp í einkalífinu.

Fæðingarorlofið er mikilvægur þáttur í velferðarsamfélaginu. Íslenska fæðingarorlofskerfið hefur farið frá því að vera fyrirmynd annarra þjóða í að standa varla undir nafni. Ljóst er að gera þarf miklar úrbætur á kerfinu svo það skili markmiðum sínum um samvistir barns við báða foreldra og jafnrétti á vinnumarkaði.

Átök um rekstrarform í heilbrigðiskerfinu

En átakalínurnar í samfélaginu eru víðar. Um þessar mundir eiga sér stað harðvítug átök um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins, sem hefur verið látið drabbast niður á undanförnum árum og áratugum.

Það er þekkt aðferð þeirra sem vilja koma starfsemi sem best ætti heima hjá hinu opinbera í hendur einkaaðila að fjársvelta opinberan rekstur í þeim tilgangi að veikja hann. Þegar óánægjan er orðin hávær er svo gripið til töframeðalsins, einkavæðingarinnar. Þetta sjáum við í allri umræðu um heilbrigðiskerfið í dag. Þar vilja sumir meina að eina leiðin til að bæta kerfið sé að auka enn við einkarekstur í því. Miklu skiptir að almenningur standi vörð um heilbrigðiskerfið og mótmæli slíkum áformum. Þar, eins og annarsstaðar, er verkalýðshreyfingin málsvari launafólks.

Rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar prófessors sýna að rúmlega fjórir af hverjum fimm landsmönnum vilja að heilbrigðiskerfið sé rekið fyrst og fremst af hinu opinbera. Eins og landlæknir benti á nýlega eiga stjórnvöld afar erfitt með að stýra því fjármagni sem fer í einkarekinn hluta heilbrigðiskerfisins. Það þýðir að ef skera þarf niður í kerfinu er auðveldast að skera niður grunnþjónustu á borð við þá sem er veitt á Landspítalanum. Enda hefur það verið gert miskunnarlaust síðustu ár. Þessari þróun verðum við að snúa við.

Víðtækt hlutverk verkalýðshreyfingarinnar

Þær raddir heyrast stundum að verkalýðshreyfingin sé að verða úrelt fyrirbæri. Að við séum búin að tryggja þau réttindi sem þurfi að tryggja og nú væri best að láta einstaklingunum eftir að semja sjálfum um kaup og kjör við sína vinnuveitendur. Það er gríðarlegt vanmat á verkefnum hreyfingarinnar.

Þó enginn skyldi vanmeta mikilvægi þess að tryggja lágmarksréttindi launafólks er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar miklu víðtækara. Það er enginn annar að taka upp hanskann fyrir launafólk, almenning í landinu. Það er hins vegar enginn skortur á þeim sem myndu gjarnan vilja geta farið sínu fram án þess að launafólk hafi málsvara sem berst fyrir réttindum þess.

Þó mikið hafi áunnist frá því í árdaga verkalýðshreyfingarinnar hafa grundvallarþarfirnar ekki breyst. Öll þurfum við að hafa í okkur og á. Öll þurfum við að hafa einhverstaðar höfði að halla. Öll þurfum við að búa við öryggi. Það eru grundvallarþarfirnar.

Við þurfum líka að búa í samfélagi sem við erum sátt við. Samfélagi þar sem félagslegt réttlæti ríkir, þar sem allir búa við mannsæmandi lífskjör. Til að svo megi verða þurfum við að vinna gegn sívaxandi misskiptingu í samfélaginu. Við þurfum að halda áfram baráttunni fyrir því að auka jöfnuð.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?