Konur draga úr launaðri vinnu til að sinna ólaunuðum störfum innan veggja heimilisins

Konur minnka í mun meiri mæli starfshlutfall sitt til að samræma betur vinnu og heimilislíf, lengja frekar fæðingarorlof og bera mun meiri ábyrgð á samskiptum við skóla barna samkvæmt niðurstöðu spurningakönnunar Vörðu - Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins meðal foreldra á Íslandi. Það hefur mikil áhrif á tekjumöguleika þeirra en atvinnutekjur kvenna er 21% lægri á ársgrundvelli en karla (Hagstofa Íslands, 2022). Konur velja sér auk þess frekar starfsvettvang til þess að auðvelda samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. Þá fjárhagsstaða einhleypra foreldra er mun verra en sambúðarfólks samkvæmt niðurstöðunum.

Þrátt fyrir eina mestu atvinnuþátttöku kvenna í heiminum og að Ísland komi vel út í alþjóðlegum samanburði á jafnrétti kynjanna bera konur enn þá meiri þunga af vinnuálagi vegna heimilisstarfa og barnauppeldis. Um þriðjungur kvenna eru í hlutastarfi, langflestar til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

„Það er mjög margt nýtt í skýrslu Vörðu sem varpar ljósi á að við erum ekki komin jafn langt í jafnréttisbaráttunni og við höldum stundum. Það er sláandi að sjá að hlutfall kvenna sem að gegnir hlutastörfum hefur ekki haggast í nánast áratug - og að þær minnki enn við sig launaða vinnu í svo miklum mæli til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf eins og niðurstöður sýna. Konur lengja frekar fæðingarorlof en karlar, eru lengur frá vinnu til að brúa umönnunarbilið sem skapast að fæðingarorlofi loknu og um þriðjungur þeirra minnkar við sig starfshlutfall til að sinna ólaunaðri vinnu innan heimilisins. Þetta hefur allt áhrif á tekjur þeirra og möguleika í starfi og viðheldur kynjamismunun," sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um niðurstöðurnar.

 

Helstu niðurstöður könnunar Vörðu:

 • Helsta ástæða þess að mæður eru í hlutastarfi er til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs
 • Yfirgnæfandi meirihluti feðra er í fullu starfi en hlutfallið er umtalsvert lægra meðal mæðra
 • Fjárhagsstaða einhleypra foreldra er mun verri en sambúðarfólks
 • 4 af hverjum 10 einhleypum mæðrum hafa ekki efni á sumarnámskeiði eða sumarbúðum fyrir börn
 • Tæplega 3 af hverjum 10 einhleypum mæðrum hafa ekki efni á íþróttastarfi og tómstundum fyrir börnin sín
 • Ríflega 4 af hverjum 10 konum hafa daglega áhyggjur af verkefnum heimilisins og umönnun barna þegar þær eru í vinnunni en sama á við um mun lægra hlutfall karla
 • Hærra hlutfall sambúðarfólks en einhleypra foreldra hefur daglega og nokkrum sinnum í viku slíkar áhyggjur
 • Helmingur karla í ósérhæfðum störfum hefur daglega áhyggjur
 • Frí- og starfsdagar í skólastarfi barna hafa mismunandi áhrif á foreldra eftir sambúðarformi og stöðu á vinnumarkaði
 • Hærra hlutfalli einhleypra foreldra en sambúðarforeldra gengur illa að bregðast við frí-og starfsdögum í skólastarfi barna
 • Hæst er hlutfall foreldra sem starfa hjá sveitarfélagi sem gengur mjög vel að bregðast við slíkum dögum
 • Hærra hlutfall kvenna en karla nota orlofsdaga, taka launalaust leyfi, taka barn með í vinnu og vinna heima og sinna barni samhliða
 • Konur bera meiri ábyrgð á umönnun barna eftir að fæðingarorlofi líkur
  • Um fimmtungur kvenna hafði lengt fæðingarorlofið sitt en það er mun hærra hlutfall en meðal karla
 • Konur hafa í meira mæli en karlar valið sér starfsvettvang til þess að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs
 • Konur sjá að mun meira leiti um samskipti við skóla og frístund
 • 8 af hverjum 10 konum sjá annaðhvort alfarið eða að mestu leiti um samskipti við skóla samanborið við 1 af hverjum 10 körlum
 • Þegar eitthvað kemur upp í skólastarfi er í mun meira mæli haft samband við konur en karla af hálfu skólakerfisins.
 • Tæplega 3 af hverjum 10 finna fyrir þrýsting af hálfu leikskóla um að koma ekki með barn á leikskóla þrátt fyrir að hann sé opinn
 • Þau sem eru í fæðingarorlofi finna í mestum mæli fyrir slíkum þrýsting, því næst þau sem eru sjálfstætt starfandi og þá í launuðu starfi

Skýrsluna er hægt að lesa í heild sinni á heimasíðu Vörðu.

 

Aðferðarfræði:

Í heildarúrtakinu var 4.891 einstaklingur og voru úrtökin tvö. Annars vegar var þjóðskrárúrtak meðal 1.500 foreldra sem áttu börn á aldrinum 12 mánaða til 12 ára. 306 þeirra svöruðu og var svarhlutfallið því 20%. Hins vegar var könnunin send á þátttakendur í netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Panelúrtakið var 3.391 einstaklingur, þar af svöruðu 1.278 en 502 þeirra áttu ekki börn á tilteknu aldursbili og var heildarfjöldi svara 776 eða 27% svarhlutfall. Vigtað var eftir kyni, aldri, búsetu og menntun þar sem yngsti aldurshópurinn og fólk með grunnskólamenntun endurspeglaði ekki þýðið fullkomlega. Vigtað var eftir gögnum frá Hagstofu Íslands. Miðað var við 95% vikmörk, * = p < 0,05, ** = p < 0,01.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?