Kynbundinn launamunur 11,4% hjá BSRB

Niðurstöður kjarakönnunar BSRB fyrir árið 2013 sýna fram á að meðal fólks í fullu starfi hafa konur innan bandalagsins að meðaltali 27% lægri laun en karlar. Meðallaun kvenna innan BSRB eru 346.724 krónur á mánuði á meðan meðal mánaðarlaun karla eru 474.945.

Kynbundinn launamunur á heildarlaunum fólks í fullu starfi innan BSRB mælist nú 11,4% samanborið við 12,5% á síðasta ári. Nokkuð breytilegt er hversu mikill kynbundni launamunurinn mælist eftir því hvort fólk starfar hjá ríki eða sveitarfélagi. Þannig mælist kynbundinn launamunur hjá sveitarfélögum nú 13,3% en 10,9% hjá ríkinu.

Capacent framkvæmdi könnunina fyrir BSRB fyrr á þessu ári en alls bárust 8639 svör sem gerir svarhlutfall upp á 53,4%.

Nánar er fjallað um afmarkaða þætti könnunarinnar hér að neðan.

 

 

Grunnlaun félagsmanna BSRB

Meðalgrunnlaun innan BSRB eru 313.470 krónur á mánuði.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru grunnlaun kvenna í fullu starfi innan BSRB 298.976 krónur á mánuði á meðan grunnlaun karla eru 345.900. Konur innan BSRB hafa að meðaltali 13,6% lægri grunnlaun en karlar.

Grunnlaun karla hafa hækkað um 6,9% á milli ára en 5,8% hjá konum.

 

Heildarlaun félagsmanna BSRB

Meðaltal heildarlauna fólks í fullu starfi innan BSRB eru samkvæmt könnuninni 386.427 krónur á mánuði.

Heildarlaun kvenna á árinu 2013 eru aftur á móti 346.724 krónur á mánuði en heildarlaun karla eru 474.945. Þá er miðað við laun fyrir fullt starf. Konur innan BSRB hafa 27% lægri heildarlaun en karlar.

Heildarlaun karla hafa hækkað um 5,9% frá 2012 en 6,3% hjá konum. 

 

 

Kynbundinn launamunur

Þegar kynbundinn launamunur er skoðaður sérstaklega, þar sem tekið hefur verið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsaldurs, starfsstéttar, menntunar, vaktaálags, mannaforráða og atvinnugreinar, sést að enn er talsverður óútskýrður munur á launum karla og kvenna. Óútskýrður kynbundinn launamunur grunnlauna hefur lækkað lítillega, mælist nú 4,1% samanborið við 4,5% á árinu 2012 en hafa ber í huga að munurinn er innan skekkjumarka.

 

Munurinn er aftur á móti talsvert meiri þegar heildarlaun er skoðuð. Tölur um heildarlaun eru lykiltölurnar í þessu samhengi enda segja þær til um hvað hver og einn fær í launaumslagið sitt um hver mánaðarmót.

Á árinu 2013 mælist óútskýrður kynbundinn launamunur 11,4% samanborið við 12,5% árið 2012. Hinn svokallaði óútskýrði kynbundni launamunur hefur þess vegna aðeins dregist saman á milli ára þrátt fyrir að ekki sé um tölfræðilega marktæka breytingu að ræða er þetta vísbending um að hann fari lækkandi.

 


Kynbundinn launamunur eftir launagreiðenda

Könnunin leiddi í ljós að á meðal fólks í fullu starfi hjá sveitarfélögum eru konur að jafnaði með rúmlega 21% lægri heildarlaun en karlar en hjá ríki eru konur með tæplega 30% lægri heildarlaun.

Þegar kynbundni launamunurinn á heildarlaunum hjá starfsfólki sveitarfélaga var skoðaður sérstaklega sést að hann er nú 9,2% og hefur því lækkað lítillega frá árinu 2012 þegar hann var 9,7%. Kynbundinn launamunur á heildarlaunum ríkisstarfsmanna hefur minnkað á milli ára, var 14,1% á árinu 2012 en mælist nú 10,9%. Mælingarnar eru þó báðar innan skekkjumarka.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?